Fara í efni

Hagrannsóknir gera þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu

Mynd: Skammdegisbirta í Eyjafirði.
Mynd: Skammdegisbirta í Eyjafirði.

Ákveðið er að semja við Hagrannsóknir um gerð þjóðhagslíkans (geiralíkans) fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrirhugað er að tengja líkanið við fyrirliggjandi þjóðhagslíkön fyrir hagkerfið í heild og nýta það til mikilvægra högg- og aðgerðagreininga fyrir stjórnvöld þegar miklar sveiflur verða í rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu og annarra meginatvinnuvega þjóðarinnar. Þá er líkaninu ætlað að nýtast við gerð hagspáa. 

Áfallið sem dunið hefur á þjóðarbúinu í ár hefur sýnt með skýrum hætti þörfina fyrir betri upplýsingar og greiningartæki til að gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bregðast við á réttan, tímanlegan og skilvirkan hátt þegar áföll verða og styðja með öflugum hætti við enduruppbyggingu í kjölfar þess. 

Nýja líkanið á að hafa alla venjulega getu þjóðhagslíkana, þar á meðal til að: 

  • Meta áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið í heild (þ.e. þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig).
  • Meta áhrif annarra þátta efnahagslífsins á ferðaþjónustuna (eins og t.d. gengis, verðlags atvinnustigs og skatta).
  • Rekja þjóðhagsleg áhrif breytinga í aðstæðum ferðaþjónustunnar á ferðaþjónustuna og efnahagslífið í heild (t.d. högga eins og COVID-19, brottfalls flugfélaga eða ávinnings eins og opnunar stórra flugleiða). 
  • Rekja áhrif opinberra aðgerða  á ferðaþjónustu og efnahagslífið í heild þannig að unnt sé að velja þær opinberu aðgerðir sem líklegastar eru til að ná þeim markmiðum um ferðaþjónustu sem að er stefnt (t.d. uppbyggingar innviða, nýrra gjalda, auglýsingaherferðar o.s.frv.).  
  • Spá fyrir um framlag ferðaþjónustunnar til efnahagslífsins og hagvaxtar í framtíðinni á grundvelli spáa um umsvif í ferðaþjónustu (fjölda ferðamanna o.s.frv.).  

Ferðamálastofa auglýsti verkefnið til umsóknar 11. september síðastliðinn. Fjórar umsóknir bárust. Sjá má auglýsinguna hér. Verkefnið er hluti af rannsóknaáætlun Ferðamálastofu 2020-2022 en tilgangur hennar er fyrst og síðast að efla þekkingu á ferðaþjónustu sem lykilatvinnugrein og samspili hennar við aðrar megingreinar í íslensku efnahagslífi. Slík þekking og samsvarandi greiningartæki eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda, fyrirtækja í greininni og fjármögnunaraðila þeirra. Rannsóknaráætlunina má skoða hér