Fara í efni

Ferðaþjónusta í tölum, sumar 2020 - samantekt

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Forsíða - sumar 20202Ferðaþjónusta í tölum – sumar 2020 hefur að geyma samantekt um fjölda ferðamanna til landsins, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd og heimsóknir eftir landshlutum.

Tæplega 80% fækkun í sumar

Um 115 þúsund erlendir ferðamenn komu til landsins um Keflavíkurflugvöll sumarið 2020 eða um 79,3% færri en sumarið 2019. Leita þarf allt að tvo áratugi aftur í tímann til að finna hliðstæðan fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi að sumri til. Bandaríkjamenn sem voru langfjölmennastir ferðamanna sumarið 2019 eða 27,8% náðu ekki inn á lista yfir tíu fjölmennustu þjóðernin til landsins í sumar og hið sama má segja um Kínverja sem voru í fjórða sæti í fyrrasumar og Kanadamenn sem voru í sjötta sæti. Í ár voru Þjóðverjar og Danir hins vegar fjölmennastir eða um þriðjungur ferðamanna. Þar á eftir komu Pólverjar, Ítalir og Frakkar. 

Langflestir eða um níu af hverjum tíu ferðamönnum voru í fríi á Íslandi í sumar eða álíka margir og sumarið 2019. Um 8% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum, hlutfallslega fleiri en í fyrrasumar en þá voru 2,5% að heimsækja vini og ættingja. Innan við 3% voru í öðrum tilgangi.

Mun hærra hlutfall í heimsókn hjá vinum og ættingjum

Meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna var um 11,3 nætur síðastliðið sumar (2020) en um var að ræða 45% lengri dvalarlengd en sumarið 2019. Gera má ráð fyrir að skýringa megi leita til breyttrar samsetningar ferðamanna, hlutfallslega fleiri ferðamanna í heimsókn hjá vinum og ættingjum og að ferðamenn hafi í ljósi ástandsins haft tilhneigingu til að dvelja lengur í því landi sem þeir völdu að heimsækja þetta sumarið. Auk þess hefur eitthvað að segja að samanburðurinn nær ekki yfir sama tímabil en könnunin sem niðurstöður byggja á var ekki í gangi í júnímánuði í sumar vegna fárra ferðamanna. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum í sumar voru Svisslendingar, Þjóðverjar og Frakkar með lengstu dvalarlengdina eða um og yfir þrettán nætur. 

Þriðjungur gistinótta á hótelum

Um ein af hverjum þremur gistinóttum í skráðri gistingu samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar var á hótelum, um 17% á gistiheimilum og tæplega helmingur í annars konar gistingu. Samtals mældust skráðar gistinætur í sumar (2020) 1,4 milljón talsins eða um 60,5% færri en sumarið 2019. Munar þá mestu um fækkun gistinótta útlendinga en þær voru 86% færri í sumar en á síðasta ári. Gistinóttum Íslendinga að sumri fjölgaði hins vegar umtalsvert milli ára 2019-2020 eða um 68,8%. Um sjö af hverjum tíu gistinóttum sumarið 2020 voru gistinætur Íslendinga og hafa þær ekki áður mælst svo margar. 

Munur á hótelnýtingu eftir landshlutum

Gistinætur á hótelum voru um hálf milljón talsins sumarið 2020 eða um 36% af skráðum gistinóttum.  Þrjár af hverjum fimm gistinóttum voru tilkomnar vegna Íslendinga og voru þær nærri þrefalt fleiri en sumarið 2019. Þegar horft er til nýtingar á hótelherbergjum yfir sumarmánuðina má sjá verulegan mun eftir mánuðum og eftir landshlutum. Hæst var nýtingin á landsvísu í júlímánuði eða 47% en þá fór nýtingin yfir 70% í tveimur landshlutum, Norðurlandi og Austurlandi.  Lægst var hún í júní en þá fór hún niður fyrir 15% á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. 

Samantektin er unnin af Oddnýju Þóru Óladóttur hjá rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu og er liður í aukinni áherslu Ferðamálastofu á rannsóknir, söfnun og miðlun talnaupplýsinga. Allar ábendingar um efni og efnistök eru vel þegnar og sendast á oddny@ferdamalastofa.is