Fara í efni

Ferðalög Íslendinga og ferðaáform

Mynd: Sér yfir Akureyri og út Eyjaförð.
Mynd: Sér yfir Akureyri og út Eyjaförð.

Ferðamálastofa birtir nú niðurstöður úr nýrri könnun meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2018 og ferðaáform á árinu 2019. Könnunin hefur verið framkvæmd árlega með sambærilegum hætti frá árinu 2010. (Sjá eldri kannanir)

Í skýrslu um könnunina eru meginniðurstöður dregar fram í byrjun með aðgengilegum hætti en niðurstöðum er annars skipt í 8 meginkafla:

  • Ferðalög Íslendinga innanlands og utan
  • Ferðalög erlendis
  • Ferðalög innanlands
  • Dagsferðir innanlands
  • Áætluð ferðalög næsta árs
  • Upplýsingaleit varðandi ferðalög innanlands
  • Meðmælaskor
  • Stunduð útivist

Fleiri í utanlandsferð

Um 83% aðspurðra fóru í utanlandsferð árið 2018 samaborið við um 78% árið áður. Hlutfall svarenda sem ferðuðust utan 2018 var marktækt hærra en á árunum 2009-2017. Gistinætur í útlöndum voru að jafnaði 20 nætur á árinu 2018, um einni nótt fleiri en árið 2017. Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru vinsælasti áfangastaðurinn.

Fækkun í ferðum innanlands

Um 85% Íslendinga ferðuðust innanlands árið 2018. Þeim sem ferðast innanlands hefur fækkað frá 2009 og var marktækur munur þar á. Að jafnaði fóru landsmenn í 6,2 ferðir innanlands árið 2018 og var ekki marktækur munur á fjölda ferða í samanburði við fyrri ár. Dvalið var að jafnaði 12,9 nætur á ferðalögum árið 2018 og voru gistinætur innanlands marktækt færri árið 2018 en á árunum 2012-2014.

Flestir fóru norður

Norðurland var sá landshluti sem flestir heimsóttu á ferðalögum um landið árið 2018 eða 60,1% og þangað voru farnar að jafnaði 2,9 ferðir. Þar á eftir kom Suðurlandið en 51,8% heimsóttu þann landshluta og voru farnar að jafnaði 4,7 ferðir.

Sundlaugar vinsælar sem fyrr

Sundlaugaferðir eru sú afþreying sem algengast var að Íslendingar greiddu fyrir á ferðum sínum um landið árið 2018 en 50,2% greiddu fyrir þann valkost. Næst á eftir komu söfn og sýningar (25,8%), leikhús og tónleikar (18,6%), tónlistar- og bæjarhátíðir (13,7%) og dekur og heilsurækt (10,6%). Fleiri greiddu fyrir dekur og heilsurækt á ferðalögum árið 2018 í samanburði við 2012-2017 og var marktækur munur þar á.

Hvert stefnir landinn?

Um níu af hverjum tíu (92,7%) Íslendinga hafa áform um ferðalög á árinu 2019. Ríflega helmingur sagðist ætla í sumarbústaðaferð (55,4%), 52,6% í borgarferð erlendis, 45,7% í heimsókn til vina og ættingja innanlands, um 43,5% í sólarlandaferð og um 34,7% í heimsókn til vina og ættingja erlendis. Sólarlandaferðir, borgarferðir og heimsóknir til vina og ættingja erlendis virðast njóta aukinna vinsælda sé litið til fyrri ára. 

Helmingur stundar reglulega útivist

Nú var í fyrsta sinn spurt um ástundun hvað varðar útivist, en spurt var um 19 útvistarmöguleika. Reyndist um helmingur Íslendinga stunda almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar árið 2018. Um einn af hverju tíu skokkaði eða hljóp einu sinni eða oftar í viku og um einn af hverjum tíu fór einu sinni eða oftar í mánuði í náttúruskoðun af einhverju tagi.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun í lok janúar síðstliðins. Í úrtakinu voru Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarfjöldi var 1.024 einstaklingar. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR og Ferðamálastofu.

Könnunin í heild:

Kynna má sér niðurstöður könnunarinnar í heild í meðfylgjandi skýrslu: