Fara í efni

21% fækkun í september

21% fækkun í september

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia voru brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll 183.600 í septembermánuði eða um 48 þúsund færri en í september árið 2018. Fækkun milli ára nemur 20,7%.

Mest munar um fækkun Bandaríkjamanna, en brottförum þeirra fækkaði um 35 þúsund frá því í september 2018 eða um 43% milli ára. 

Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum. Í janúar nam hún 5,8%, í febrúar 6,9%, í mars 1,7%, í apríl 18,5%, í maí 23,6%, í júní 16,7%, í júlí 17% og 13,5% í ágúst.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í september eða um fjórðungur brottfara en þar á eftir komu Þjóðverjar (7,8% af heild) og Bretar (6,4% af heild).

Frá áramótum hafa tæplega 1,6 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 14,3% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.


fjölmennustu þjóðerni sept 2019Fjölmennustu þjóðernin

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í september tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem fyrr segir. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 14.300 talsins eða 12,2% færri en í september árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, tæp 11.800 talsins og fækkaði þeim um 13% milli ára.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (4,6% af heild), Kanadamanna (4,4% af heild), Kínverja (4,3% af heild), Spánverja (4,0% af heild), Frakka (3,6% af heild), Dana (2,5% af heild) og Norðmanna (2,3% af heild).

Ferðir Íslendinga utan

Um 49.700 Íslendingar fóru utan í september í ár eða 14% færri en í september 2018. Frá áramótum hafa um 465.600 Íslendingar farið utan eða 7,4% færri en á sama tímabili í fyrra.

Nánari upplýsingar*

Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og tölurnar ber að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Talningarnar ná yfir alla sem fara í gegnum hefðbundna öryggisleit.
Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inni í þessum tölum. Niðurstöður úr könnnum sem Isavia hefur látið framkvæma meðal brottfararfarþega benda til að um 93% brottfararfarþega yfir vetrartímann séu að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og gisti eina eða fleiri nætur. Þeir sem koma inn í landið án þess apð gista hafa mælst um 2% sjálftengifarþegar hafa mælst á bilinu 2-4% og erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma á bilinu 1,4-3,4%. Sjá nánar
Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.
Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

tafla sept