Fara í efni

Bílaleiga Akureyrar hlýtur ISO vottanir

Lógó Bílaleiga Ak
Lógó Bílaleiga Ak

Bílaleiga Akureyrar hefur hlotið vottun samkvæmt gæðastaðlinum ÍST ISO 9001 og umhverfisstjórnunarstaðlinum ÍST ISO 14001. Mun hún vera fyrsta bílaleigan hérlendis til að stíga þetta skref.

Í frétt frá fyrirtækinu kemur fram að á undanförnum árum hefur Bílaleiga Akureyrar vaxið og er í dag stærsta bílaleiga landsins. Stærð fyrirtækisins og fjöldi starfsstöðva gerir það að verkum að gott skipulag og samræmi í störfum er verðmætt. Gæðastjórnunarkerfi er upplagt tæki til að skilgreina umgjörð starfseminnar, skipuleggja vinnuferla og þjálfa starfsmenn í réttum vinnubrögðum.

Stjórnendur Bílaleigu Akureyrar ákváðu því að koma upp vottuðu gæða og umhverfisstjórnunarkerfi. Vottunin tekur til reksturs bílaleigu í Skeifunni 9, þar með talið útleigu, hreinsunar, viðhalds og viðgerða á bifreiðum og aukabúnaði. Einnig tekur hún til starfsstöðva fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.


Bílaleiga Akureyrar er fyrsta bílaleigan á Íslandi til að hljóta vottun samkvæmt ÍST ISO 9001 og ÍST ISO 14001 og stjórnendur fyrirtækisins eru þess fullvissir að gæða- og umhverfisstjórnunarkerfið komi til með að styrkja stoðir fyrirtækisins á krefjandi markaði. Það er von þeirra að Bílaleiga Akureyrar muni með fordæmi sínu verða öðrum bílaleigum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu góð fyrirmynd.

Samkvæmt upplýsingum Bergþórs Karlssonar, framkvæmdastjóra Bílaleigu Akureyrar, gekk uppbygging stjórnunarkerfisins vonum framar og þakkar hann það áhuga og jákvæðu viðhorfi stjórnenda og starfsmanna fyrirtækisins til þessara mála. Gæða- og umhverfisstjórnunarkerfið hefur að hans sögn þegar sannað gildi sitt með skilvirkari stjórnun gæða- og umhverfismála og bættu upplýsingastreymi. Í umhverfismálum hefur verið lögð áhersla á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem rekstur bílaleigu hefur í för með sér. Það hefur verið gert með því að minnka útblástur frá bílaflota fyrirtækisins, standa fyrir þjálfun starfsmanna á sviði umhverfisstjórnunar, koma upp virkri efnastjórnun og styðja landgræðsluverkefni, svo fátt eitt sé nefnt.

Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri, var verkefnastjóri við uppsetningu og innleiðingu staðlanna en ráðgjöf  var í höndum Gunnars H. Guðmundssonar hjá ráðgjafafyrirtækinu 7.is auk Evu Yngvadóttur og Helgu J. Bjarnadóttur hjá verkfræðistofunni Eflu.