Fara í efni

Beint flug til Akureyrar - Kynning á rannsóknarniðurstöðum

Akureyri - vetur
Akureyri - vetur

Sumarið 2009 gerði Rannsóknamiðstöð ferðamála ítarlega könnun meðal brottfararfarþega í flugi Iceland Express frá Akureyraflugvelli. Nú liggja niðurstöður fyrir sem verða kynntar á opnum fundi mánudaginn 8 mars á Hótel KEA kl: 10.

Var þetta í fyrsta sinn sem slík rannsókn hefur verið gerð og var hún unnin í náinni samvinnu við Flugstoðir. Í könnuninni var spurt um ferðavenjur, neyslumynstur og upplifun þeirra erlendu gesta sem fara frá Íslandi um Akureyraflugvöll og ferðamynstur þeirra um Norðurland kortlagt. Var könnunin sett upp í sex hlutum. Í fyrsta lagi voru nokkrar almennar spurningar um Íslandsferð svarenda, sem gefa gleggri mynd af ferðamynstri þátttakenda um áfangastaðinn Ísland. Í þessum hluta var t.a.m. spurt um tilgang ferðar, ferðafélaga, dvalarlengd, hvar viðkomandi komi inn í landið og hvaða landshlutar aðrir en Norðurland voru sóttir heim í ferðinni. Í öðru lagi voru sérstakar spurningar sem er ætlað að gefa vísbendingar um ferðamynstur farþeganna um Norðurland á meðan á Íslandsdvöl stóð. Hér var sérstaklega spurt um hvaða staðir/svæði á Norðurlandi voru heimsótt, fjölda gistinátta, gistimáta, samgöngumáta og  nýtta afþreyingu. Í þriðja lagi var spurt um helstu útgjaldaliði. Í fjórða lagi voru spurningar um gæði og upplifun þátttakenda af Norðurlandi og þjónustu þar. Í fimmta lagi voru spurningar um upplýsingaþörf og -notkun þátttakenda könnunarinnar bæði fyrir ferð og í ferðinni. Í sjötta og síðasta lagi voru spurningar sem snéru að flugvellinum sjálfum.

Helstu niðurstöður eru þær að þeir erlendu farþegar sem koma og fara gegnum Akureyraflugvöll dveljast mun lengur á Norðurlandi en aðrir erlendir gestir. Nærri helmingur ferðast aðeins um Norðurland og inná Austurland og er því ljóst að með beinu flugi opnast möguleikar á þróun nýs áfangastaðar í ferðaþjónustu, sem við sjáum þegar móta fyrir nú. Einnig er mögulegt útfrá þeim gögnum sem aflað var að áætla tekjur af komum þessara gesta og þannig einnig hvað mörg störf í ferðaþjónustu gætu orðið bein afleiðing millilandaflugsins. 

Dagskrá:
Á fundinum mun Eyrún Jenný Bjarndóttir, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála kynna ofangreindar niðurstöður. 

Þá mun Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála velta upp hugmyndum um mikilvægi millilandaflugsins fyrir hagkerfið á Norðurlandi og mögulegri fjölgun starfa í ferðaþjónustu á svæðinu ef framtíðaráform ferðaþjónustunnar ná fram að ganga um heilsársflug milli Evrópulanda og Akureyrar.

Einnig mun Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur við Háskólann á Akureyri, skoða í stuttu erindi helstu aðdráttaröfl ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Að lokum verða umræður og fyrirspurnir en í pallborði sitja Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Svanhildur Konráðsdóttir, formaður Ferðamálaráðs og frummælendur.

Fundi stýrir Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður