Fara í efni

Athyglisverðar gistináttatölur Hagstofunnar

Hagstofan sendi í vikunni frá sér tölur um fjölda gistinátta í september síðastliðnum og einnig fyrir annan ársfjórðung 2003, þ.e. maí til ágúst. Margt athyglisvert kemur fram í þessum tölum.

September með 10% aukningu
Gistinætur á hótelum í septembermánuði síðastliðnum voru 78 þúsund á móti 71 þúsundi í september árið 2002. Þetta er 10% aukning á milli ára. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Mest var aukningin á Norðurlandi eystra og vestra en þar var aukningin 25% og á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinóttum fjölgaði um 18%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði þeim um 7%, á Suðurlandi um 6% og á Austurlandi um 5%. Gistinóttum útlendinga á hótelum í september fjölgaði um 10% milli ára meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 5%. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega. Áhugavert er að sjá mikla aukningu á Norðurlandi en hún mun m.a. eiga sér skýringar í komu stórrar sendinefndar frá Kanada sem dvaldi á Akureyri í nokkra daga.

9% aukning yfir sumarmánuðina
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum mánuðina maí - ágúst 2003 voru 841 þúsund, en þær voru 775 þúsund fyrir sama tímabil í fyrra. Aukningin fyrir sumarmánuðina er því 9% á milli ára.Gistinóttum útlendinga fjölgaði um 10% en gistinóttum Íslendinga um 3%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum, þar sem fækkun gistinátta var um 7%. Á tímabilinu fjölgaði gistinóttum á Vesturlandi hvað mest og fóru þær úr 54 þúsundum í 69 þúsund, sem er um 28% aukning milli ára. Á Suðurlandi var aukningin 11% þessa mánuði, fóru úr 116 þúsundum í 129 þúsund. Gistinætur á Austurlandi töldust 101 þúsund mánuðina maí - ágúst en voru 93 þúsund árið 2002 og jukust þar með um 9% milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu var aukningin milli ára 7%, þar sem gistináttafjöldinn fór úr 320 þúsundum í 344 þúsund. Aukningin á Norðurlandi vestra og eystra var 5% í hvorum landshluta fyrir sig. Á Norðurlandi vestra voru gistinæturnar 26 þúsund, en voru 25 þúsund á sama tímabili í fyrra. Á Norðurlandi eystra fór gistináttafjöldinn úr 122 þúsund í 128 þúsund milli ára. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.

Meiri aukning á landsbyggðinni
Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir tölur Hagstofunnar einkar áhugaverðar og í ljósi umræðu sem borið hefur á í þá veru að aukin umsvif í ferðamennsku hafi einkum skilað sér á höfuðborgarsvæðinu, sé athyglisvert að hlutfallslega hafi aukningin einmitt verið meiri út á landi. Séu árin 2001 og 2002 borin saman sé þannig 2,6% aukning í gistingu á höfuðborgarssvæðinu á meðan gisting á landsbyggðinni hafi aukist um 11,7% Fyrstu fjóra mánuði yfirstandandi árs (sem er lágönn) hafi höfuðborgarsvæðið verið með um 5% aukningu á meðan gisting á landsbyggðinni jókst um 8%. Og eins og kom fram hér að ofan þá var aukning á öllum landssvæðum í gistinóttum á hótelum í september sl., mest fyrir norðan og vestan.