Ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins

Í júlí kom út ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC). Eins og alkunna er glímir ferðaþjónusta í Evrópu við mikinn samdrátt en áhrifa ferðatakmarkana vegna Covid faraldursins hefur gætt um alla álfuna undanfarna mánuði. ETC gerir ráð fyrir 54% færri komum ferðamanna til Evrópulanda á árinu 2020 í samanburði við árið 2019. Samhliða því er áætlað að á árinu 2020 tapist á bilinu 14-29 milljónir starfa í ferðaþjónustu í Evrópu.

Ísland, Króatía og Svartfjallaland fara verr út úr faraldrinum en önnur lönd

Þau aðildarlönd ETC sem eru háð fjarmörkuðum eru talin fara verr út úr faraldrinum en þau sem gera út á innanlandsmarkað í miklum mæli og ferðamenn frá nærmörkuðum. Meðalhlutdeild innanlands ferðamanna er áætluð um 44,5% í Evrópulöndum. Um 77% ferðamanna koma frá nærmörkuðum og 23% frá fjarmörkuðum utan Evrópu.  Í skýrslunni kemur m.a. fram að ferðaþjónusta á Íslandi, Króatíu og Svartfjallalandi muni líklega fara verr út úr faraldrinum en t.d. ferðaþjónusta í Þýskalandi, Noregi og Rúmeníu þar sem hlutdeild innanlandsferðamennsku sé tiltölulega lág í löndunum og þau háð ferðamönnum frá fjarmörkuðum í ríkari mæli. ETC gerir t.a.m. ráð fyrir 45% fækkun Bandaríkjamanna til Evrópu á árinu en Bandaríkjamenn voru tæplega fjórðungur ferðamanna á Íslandi á síðasta ári.

Þó svo jákvæð teikn hafi verið á lofti í ferðaþjónustu síðustu vikur er óvissan enn mikil og erfitt að meta horfurnar.


Athugasemdir