Fara í efni

Árleg skil 2016 - Endurskoðun á tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofa

Senn líður að endurskoðun tryggingarfjárhæða ferðaskrifstofa vegna sölu alferða og ættu öllum ferðaskrifstofum að hafa borist póstur þar að lútandi í liðinni viku. Fyrir 1. október nk. ber handhöfum ferðaskrifstofuleyfa að senda Ferðamálastofu gögn vegna endurskoðunarinnar skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. Ferðamálastofa tekur síðan ákvörðun á grundvelli framlagðra gagna hvort þörf sé á breytingu á fyrirliggjandi tryggingarfjárhæð.

Hvaða gögn skal senda inn?

Þau gögn sem skila skal inn skv. lögum nr. 73/2005 og reglum 1100/2005 eru:

  1. Áritaður ársreikningur fyrir árið 2015 skv. lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Ársreikningurinn skal vera undirritaður af framkvæmdastjóra, stjórn félags og áritaður af endurskoðanda eða skoðunarmanni félags.
  2. Yfirlit yfir mánaðarlega veltu ársins 2015, skipt niður á mánuði, þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind og heildarveltan afstemmd við ársreikning. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda. 
  3. Yfirlit yfir áætlaðar mánaðarlegar rekstrartekjur ársins 2016 skipt niður á mánuði, þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind. 
  4. Staðfesting löggilts endurskoðanda á að bókhaldskerfi ferðaskrifstofu sé í samræmi við reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa nr. 1100/2005. 

Nánari upplýsingar 

Á vef Ferðamálastofu (undir leyfi og lögggjöf), http://www.ferdamalastofa.is/is/leyfi-og-loggjof/ferdaskrifstofur/arleg-skil-ferdaskrifstofa er að finna sýnishorn gagna vegna árlegra skila, sbr. liði 2-4 hér að ofan.

Áætlunarflug ekki undanskilið við útreikning á tryggingarfjárhæð

Þann 1. des. 2015 tók í gildi breyting á reglum 1100/2005 um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa. Breytingin fólst í því að felld var úr gildi heimild ferðaskrifstofa til að draga áætlunarflug frá tekjum við sölu alferða við útreikning á tryggingarfjárhæð. Allt flug ber því að taka með í útreikning á tryggingarfjárhæð. Ástæða breytinganna var vegna aukinnar neytendaverndar og til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Breytingarnar tóku gildi 1. desember 2015.

Vakin er athygli á að berist eldra form árlegra skila mun sérgreint áætlunarflug verða tekið með í útreikninginn á tryggingarfjárhæðinni.

Ný tilskipun ESB um ferðapakka

Evrópusambandið hefur samþykkt nýja tilskipun EU 2015/2302 um pakkaferðir og tengda ferðatilhögun og fellt þar með úr gildi eldri tilskipun EU 90/314 um ferðapakka, orflofspakka og skoðunarferðapakka.

Gagnkvæm viðurkenning á tryggingavernd

Hinni nýju tilskipun um ferðapakka er ætlað að auka neytendavernd og koma til móts við kröfur neytenda og víkka m.a. út gildissvið gildandi löggjafar. Nýmæli er að hún nær m.a. til þess sem kalla má tengda ferðatilhögun (Linked travel arrangement) og gagnkvæmrar viðurkenningar allra aðildarlanda EES og ESB á tryggingarkerfum hvers annars. Lögð er á það áhersla að tryggingar verði að vera nægjanlegar svo unnt sé að endurgreiða allar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi í tengslum við pakkaferðir/alferðir. Ef flutningur farþega telst til pakkaferðar/alferðar þarf hann að felast í tryggingarfjárhæðinni. Einnig er fjárhagsleg vernd aukin þar sem neytendur geta átt rétt á bótum vegna vanefnda seljenda ferðaþjónustu og ríkari skyldur eru lagðar á seljendur um skilamála ferðar sem keypt er og til upplýsingargjafar til neytenda.

Hvað er tengd ferðatilhögun?

Tengd ferðatilhögun (Linked travel arrangement) á við í þeim tilvikum þegar neytendur kaupa t.d. tvenns konar þjónustu af tveimur mismunandi ferðaþjónustuaðilum sem ekki telst vera ferðapakki en verður samt sem áður að líta á sem samkeppni við hefðbundna ferðapakka. Þá veitir seljandi þjónustu sem auðveldar neytanda að velja sérstaklega og greiða fyrir hvern ferðaþjónustuþátt fyrir sig eða býður með beinni markaðssetningu fram a.m.k. eina viðbótarþjónustu frá öðrum seljanda í tengslum við kaup á ferðaþjónustu. Dæmi: Við kaup á flugmiða er neytandi leiddur inn á bókunarsíðu bílaleiga, hótela o.s.frv. Tengd ferðatilhögun (Linked travel arrangement) heyrir nú undir gildissvið tilskipunarinnar.

Kallar á endurskoðun laga

Hin nýja tilskipun tekur gildi í aðildarríkjunum þann 1. júlí 2018. Innanríkisráðuneytið hefur hafist handa við innleiðingu tilskipunarinnar en hún kallar á endurskoðun á lögum um alferðir nr. 84/1990 og lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005 hvað tryggingarfyrirkomulagið varðar. Í innleiðingarhópnum eiga sæti fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ferðamálastofu og Neytendastofu.

Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði að fullu innleidd á Íslandi 1. júlí 2018.

Hægt er að kynna sér tilskipunina á vef Evrópusambandsins.