Fara í efni

Ár hinna stóru ákvarðana í samgöngum og ferðaþjónustu

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs  í gær og  kom víða við í erindi sínu. Meðal annars fjallaði hann um nýtt ráðstefnu og tónlistarhús, tilkynnti að ráðist yrði í verkefnið Iceland Naturally í Evrópu og að hann hefði falið Hagfræðistofnun að meta áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna.

Síðasta ár sagði Sturla hafa verið ár hinna stóru ákvarðana í samgöngum og ferðaþjónustu. Eigi það jafnt við um opinbera aðila sem og ekki síður fyrirtækin innan ferðaþjónustunnar.

Stærsta markaðsaðgerð í íslenskri ferðaþjónustu fyrr og síðar
Sturla sagði tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur líklega vera stærstu markaðsaðgerð í íslenskri ferðaþjónustu fyrr og síðar. ?Þarna fáum við væntanlega aðstöðu sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum á sviði menningar og ferðaþjónustu. Fyrirhugað tónlistar- og ráðstefnuhús hefur alla burði til að stækka markað okkar og ekki síður til að lengja ferðamannatímann á Íslandi, því að ég veit að sérstaða íslenskrar náttúru og landsbyggðar verður áfram drifkrafturinn í því að fólk velji Ísland frekar en aðra áfangastaði. Ég legg gríðarlega mikið upp úr því að þetta tækifæri verði nýtt sem allra best og hef því ákveðið að veita 10 milljónum króna aukalega á næsta ári til Ferðamálastofu svo hún geti með öflugum hætti komið að kynningu á húsinu í samstarfi við rekstraraðila hússins, Reykjavíkurborg og Ráðstefnuskrifstofu Íslands,? sagði Sturla.

Hagfræðistofnun kannar áhrif sterkrar krónu
Annað sem vakri athygli í erindi Sturlu var umfjöllun hans um sterka stöðu íslensku krónunnar og áhrif hennar á ferðaþjónutuna, mál sem talvert hefur verið til umfjöllunar upp á síðkastið. ?Ég hef falið Hagfræðistofnun að meta áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna, en þær aðstæður sem hér hafa ríkt að undanförnu hafa eðlilega haft áhrif á útflutningsgreinarnar. Það er ekki á valdi stjórnvalda að grípa inn í þá þróun að öðru leyti en því að ríkisfjármálin eru notuð til þess að hafa hemil á eftirspurn á vinnumarkaði og á fjármagnsmarkaði. Engu að síður er nauðsynlegt að meta stöðuna og langtímaáhrifin sem gengisþróunin hefur á ferðaþjónustuna sem heild. Það er vissulega von mín að þróun gengis verði á þann veg að ekki komi til brotlendingar þeirra fyrirtækja sem standa berskjölduð fyrir gengisþróuninni. En það má öllum ljóst vera að sigling þeirra fyrirtækja sem starfa hér innanlands og byggja tekjur sínar á erlendum gjaldmiðlum er mjög kröpp,? sagði Sturla.

Iceland Naturally í Evrópu
Þá upplýsti Sturla að ráðist yrði í Iceland Naturally verkefni í Evrópu, sambærilegt því sem verið hefur í gangi í Norður-Ameríku undanfarin ár.?Iceland Naturally verkefnið í Bandaríkjunum er orðið vel þekkt hjá ferðaþjónustunni og öðrum útflutningsatvinnugreinum. Samskonar verkefni er nú verið að hrinda af stað í Evrópu. Er það gert í ljósi niðurstöðu mikillar könnunar, sem ég lét gera um ímynd landsins í þremur löndum á meginlandi Evrópu. Sú könnun leiddi í ljós að landið hefur skýra ímynd í þeim löndum sem hún fór fram í, þ.e.a.s. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi og einnig kom í ljós að meirihluti aðspurðra, í þýsku- og frönskumælandi löndum, taldi vel koma til greina að nota slagorðið Iceland Naturally. Þegar verkefnið verður að veruleika verður því stýrt frá ráðuneytinu og skrifstofu Ferðamálaráðs í Frankfurt í góðu samstarfi við viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands, en nú standa yfir viðræður á milli samgönguráðuneytis og utanríkisráðuneytis um það hvernig hátta megi þessu samstarfi svo kraftar okkar nýtist sem best,? sagði Sturla.

Ræða ráðherra er aðgengileg í heild sinni á vef Samgönguráðuneytisins.