Fara í efni

Alta vinnur kortlagningu á auðlindum ferðaþjónustunnar

©arctic-images.com
©arctic-images.com

Alta ehf. átti hagstæðasta tilboðið í kortlagningu á auðlindum ferðaþjónustunnar sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn á landsvísu en 15 tilboð bárust í verkið. Lokaafurð verkefnisins er gagnagrunnur sem nýst getur hagsmunaaðilum við þróun og uppbyggingu í greininni.

Eins og fram kom í útboðslýsingu þá var leitast eftir að fá sem flestar lýsingar/fullunnin stök skráð í gagnagrunn fyrir ráðstöfunarfjárhæð og var tilboð Alta sýnu hagstæðast að því leyti. Verkið fer af stað á næstu dögum og er gert ráð fyrir verklokum í byrjun nóvember.

Leitað til heimafólks um samstarf

Um er að ræða viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem nýtast mun þeim sem að íslenskri ferðaþjónustu koma, bæði opinberum stofnunum sem og einkaaðilum. Til að grunnurinn verði skilvirkur og gagnsemi hans sem mest er nauðsynlegt að þær upplýsingar sem í hann eru skráðar séu réttar. Því mun á næstu dögum verða leitað til sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila um tilnefningu fulltrúa í svæðisbundna samráðshópa verkefnisins. Hlutverk samráðshópafulltrúa er að fara yfir skráningu staða í hverju sveitarfélagi/ landssvæði fyrir sig og meta þá staði m.a. út frá aðgengi og aðdráttarafli. Matið fer fram í gegnum vefviðmót sem er mjög einfalt í notkun. Mat samráðshópsfulltrúa er svo lagt til grundvallar við áframhaldandi vinnu verkefnisins.