Fara í efni

Ákveðið að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO

Surtsey
Surtsey

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO í febrúar á næsta ári. Þingvellir eru nú eini íslenski staðurinn á þessum lista.

Fyrir fjórum árum samþykkti ríkisstjórnin tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra um að tilnefna Þingvelli og Skaftafell á heimsminjaskrá UNESCO. Frá þeim tíma hafa ýmsar forsendur breyst og því þarf mun lengri tíma til að undirbúa tilnefningu Skaftafells en upphaflega var ætlað. Gert var ráð fyrir að þessir staðir færu inn á skrána bæði sem náttúru- og menningarminjar, þ.e sem blandaðir staðir. Nefnd um arfleifð þjóðanna (World Heritage Committee) samþykkti 2. júlí 2004 að Þingvellir skyldu settir á listann sem menningarlandslag. Unnið er að undirbúningi þess að ljúka tilnefningu Þingvalla sem náttúruminjastaðar.

Í byrjun þessa árs setti menntamálaráðherra á fót sérstaka heimsminjanefnd sem hefur það hlutverk að vera vettvangur samráðs um framfylgd samnings UNESCO frá 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins hér á landi og undirbúa tilnefningu íslenskra staða á heimsminjaskrá. Nefndin vinnur nú að endurskoðun á yfirlitsskrá Íslands í ljósi fenginnar reynslu við tilnefningaferli Þingvalla. Á grundvelli þeirrar vinnu og til þess að láta ekki of langt líða á milli tilnefninga Íslands á heimsminjaskrá UNESCO og þar sem enn er talsvert í land með að vinna við tilnefningu Skaftafells geti hafist, hefur nefndin lagt til við menntamálaráðherra og umhverfisráðherra að næsti staður sem Ísland tilnefnir verði Surtsey. Surtsey er á yfirlitskrá Íslands sem náttúruminjar.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að allar nauðsynlegar upplýsingar um jarðfræði, lífríki og þróun Surtseyjar frá lokum gossins fram á þennan dag liggja fyrir og þess vegna sé mögulegt að ganga frá umsókn fyrir 1. febrúar á næsta ári til nefndar um arfleifð þjóðanna um að Surtsey verði bætt á heimsminjaskrá UNESCO.

Mynd: Surtsey að myndast. Mynd af vefnum Vestmannaeyjar.