Áfram fjölgar ferðamönnum

Áfram fjölgar ferðamönnum
Reykjavík að vetri - Mynd Ragnar Th. Sigurðsson

Erlendir gestir í janúar hafa aldrei verið fleiri og í ár, eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð fyrir rúmum áratug. Um 34 þúsund erlendir gestir fóru frá landinu í janúarmánuði og er um að ræða 7.800 fleiri brottfarir en á árinu 2012. Erlendum gestum fjölgaði því um 30% í janúarmánuði á milli ára.

Fyrirvari á marktækni gagna

Alla jafna birtir Ferðamálastofa tölur um fjölda ferðamanna á fyrstu dögum hvers mánaðar. Ástæður seinkunar á tölum fyrir janúar nú kemur til af misræmi sem kom upp þegar bornar voru saman talningar Ferðamálastofu og farþegatölur frá Keflavíkurflugvelli. Nánari skoðun leiddi í ljós að um var að ræða þrjá daga í byrjun mánaðarins. Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan og samanburð gagna hefur ekki tekist að finna út með öruggum hætti í hverju mismunurinn liggur. Skoðun stendur enn yfir en á meðan eru tölurnar birtar með fyrirvara, þar sem skipting milli þjóðerna fyrir þessa 3 daga gæti breyst lítillega.

Bretar langfjölmennastir

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í janúar frá Bretlandi, eins og jafnan í janúar. Þeim fjölgar einnig mest á milli ára í ferðamönnum talið. Bandaríkjamenn voru næstfjölmennastir og þaðan var einnig góð fjölgun. Ýmsir aðrir markaðir sýndu einnig mikla fjölgun, svo sem Kína, Japan og Þýskaland.

Svipaður fjöldi Íslendinga fer utan og í fyrra

Ríflega 23 þúsund Íslendingar fóru utan í janúar í ár og er um að ræða svipaðan fjölda og fór utan í janúar í fyrra.

Skiptingu milli landa í janúar má sjá í töflunni hér að neðan, með fyrrnefndum fyrirvara en heildarniðurstöður talninga er undir liðnum Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastofu
Netfang: halldor@ferdamalastofa.is Sími: 535-5510

Janúar eftir þjóðernum      
      Breyting milli ára
  2012 2013 Fjöldi (%)
Bandaríkin 3.914 5.265 1.351 34,5%
Bretland 6.956 10.188 3.232 46,5%
Danmörk 1.715 1.580 -135 -7,9%
Finnland 416 349 -67 -16,1%
Frakkland 1.387 1.349 -38 -2,7%
Holland 722 718 -4 -0,6%
Ítalía 249 332 83 33,3%
Japan 1.076 1.550 474 44,1%
Kanada 361 451 90 24,9%
Kína 449 744 295 65,7%
Noregur 1.718 2.046 328 19,1%
Pólland 470 483 13 2,8%
Rússland 315 428 113 35,9%
Spánn 352 461 109 31,0%
Sviss 252 382 130 51,6%
Svíþjóð 1.440 1.539 99 6,9%
Þýskaland 1.272 2.082 810 63,7%
Annað 3.088 4.045 957 31,0%
Samtals 26.152 33.992 7.840 30,0%
         
Janúar eftir markaðssvæðum    
      Breyting milli ára
  2012 2013 Fjöldi (%)
Norðurlönd 5.289 5.514 225 4,3%
Bretland 6.956 10.188 3.232 46,5%
Mið-/S-Evrópa 4.234 5.324 1.090 25,7%
Norður Ameríka 4.275 5.716 1.441 33,7%
Annað 5.398 7.250 1.852 34,3%
Samtals 26.152 33.992 7.840 30,0%
         
Ísland 23.387 23.579 192 0,8%

 


Athugasemdir