Fara í efni

Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum

Alls bárust 252 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári. Umsóknirnar voru afgreiddar á fundi Ferðamálaráðs fyrr í vikunni og hlutu 49 verkefni styrk að þessu sinni. Hluti þeirra fjármuna sem voru til úthlutunar verður auglýstur aftur.

Nýtt verklag
Við útdeilingu þeirra fjármuna sem varið er til umhverfismála af hálfu Ferðamálaráðs var nú í fyrsta skipti unnið samkvæmt nýju verklagi. Til þessa hefur fjármununum stofnunarinnar verið tvískipt. Um fimmtungi þeirra hefur verið úthlutað í formi tiltölulega lágra styrkja en afganginum verið varið til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem Ferðamálaráð hefur sjálft séð um framkvæmdir í samvinnu við fleiri aðila. Samkvæmt nýjum reglum var nú bróðurparti fjármunanna úthlutað í styrkjaformi. Með þessari nýju leið er verið að leitast við að nýta sem best útsjónarsemi þeirra sem að viðkomandi verki standa og um leið að auka ábyrgð þeirra. Til úthlutunar nú voru um 40 milljónum króna og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka.

Minni verkefni
Í flokknum minni verkefni voru um 10 milljónir til úthlutunar. Gátu styrkir að hámarki numið 500 þúsund krónum og eingöngu til efniskaupa. Að þessu sinni var tekið fram að áherslan væri á uppbyggingu gönguleiða. Alls bárust 156 umsóknir í þennan flokk og hlutu 37 þeirra styrk. Af því leiðir að mörgum verðugum verkefnum varð að hafna að þessu sinni. Þetta er sama reynsla og fengist hefur á undangengnum árum þar sem fjárhæð umsókna hefur verið margföld sá upphæð sem verið hefur til ráðstöfunar.

Stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum
Í flokkinn stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum bárust 24 umsóknir og hlutu 3 verkefni styrk. Hér er um það að ræða að umsækjendur stýra framkvæmdum sjálfir og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Til ráðstöfunar voru 15 milljónir króna en úthlutað var 7 milljónum króna.

Uppbygging á nýjum svæðum
Í þriðja flokkinn, uppbygging á nýjum svæðum, bárust 72 umsóknir. Til ráðstöfunar voru 15 milljónir. Þeim var öllum úthlutað og skiptast á 9 verkefni.

Heppnaðist vel
Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, segir að þetta nýja verklag við útdeilingu fjármuna hafi heppnast vel að sínu mati. Almennt hafi umsóknir verið betur ígrundaðar en áður. "Að sjálfsögðu er alltaf erfitt að þurfa að hafna góðum umsóknum og það eru vissulega mörg verðug verkefni sem ekki hlutu styrkja að þessu sinni. Við úthlutunina var fyrst og fremst tekið mið af ástandi og álagi á svæði og mikilvægi aðgerðanna vegna náttúruverndar. Þetta voru þau atriði sem notuð voru við að forgangsraða verkefnum," segir Valur.

Auglýst að nýju
Eins og fram kom var ekki úthlutað öllum þeim fjármunum sem voru til ráðstöfunar í flokknum Stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum. Því hefur verið ákveðið að auglýsa aftur eftir umsóknum í 8 milljónir króna og verður það einungis í flokkinn Uppbygging á nýjum svæðum. Auglýsingin mun birtast næstkomandi mánudag, 23. febrúar, og verður umsóknarfrestur til 5. mars. Vert er að taka fram að eldri umsóknir gilda áfram.

Nánar um þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni.