Fara í efni

Áfangastaðaáætlun á Vesturlandi

Áfangastaðaáætlun fyrir Vesturland

Góður gangur er í verkefni um gerð áfangastaðaáætlunar, DMP á Vesturlandi. Framundan síðar í mánuðinum eru á opnir súpufundir eða vinnufundir á öllum svæðum, þar sem vonast er eftir góðri þátttöku heimafólks á hverjum stað.

Unnið á fjórum svæðum

Verkefnið er unnið á fjórum svæðum: Svæði 1 er Akranes og Hvalfjarðarsveit, svæði 2 er Borgarbyggð og Skorradalshreppur, svæði 3 er Snæfellsnes – sveitarfélögin fimm og svæði 4 er Dalabyggð. Heildar áfangastaðaáætlun DMP fyrir Vesturland verður svo unnin upp úr gögnum og vinnu frá þessum fjórum svæðum.

Opnir fundir í nóvember

Næst á dagskrá er að kalla alla sem áhuga hafa að borðinu til að ræða hlutverk ferðaþjónustu í samfélaginu og framtíðarsýn ferðamála á Vesturlandi. Það verður gert á opnum súpufundum á öllum svæðum núna í nóvember. Ferðamál snerta allt samfélagið og því er vonast eftir virkri þátttöku heimamanna. Fundirnir verða sem hér segir:

  • 20. nóvember: Svæði 4 – Dalabyggð. Dalabúð kl. 17-20
  • 23. nóvember: Svæði 3 – Snæfellsnes. Breiðablik kl. 17-20
  • 28. nóvember: Svæði 2 – Borgarfjörður og Mýrar. Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri kl. 17-20
  • 29. nóvember: Svæði 1 – Akranes og Hvalfjarðarsveit. Garðakaffi safnasvæðin Akranesi kl. 17-20

Uppbygging verkefnisins

Tíu manna stýrihópur sem skipaður er fólki af öllu Vesturlandi leggur línurnar í verkefninu, auk þess sem vinnuhópar eru að störfum á hverju svæði. Kallað er eftir aðkomu bæði heimamanna og hagaðila á öllum svæðunum fjórum til að leggja verkefninu lið. Margrét Björk Björnsdóttir ráðgjafi hjá SSV þróun & ráðgjöf er verkefnisstjóri fyrir Áfangastaðaáætlun DMP á Vesturlandi, en Kristján Guðmundsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vesturlands kemur líka að verkefnisstjórn. Signý Óskarsdóttir hjá Creatrix hefur verið ráðin til að halda utan um skipulagningu og framkvæmd opinu fundanna sem framundan eru. Þá er gott samstarf við verkefnisstjóra DMP á öðrum markaðsstofusvæðum sem er mjög mikils virði.

Vinnan til þessa hefur einkum snúið að undirbúningi, söfnun gagna og gagnavinnslu auk þess sem fundað hefur verið með DMP vinnuhópum á öllum svæðum til að leita svara við spurningunum: Hvað hefur verið vel gert í ferðamálum? – og hvað má betur fara í ferðamálum?

Aftur fundir í janúar

Í janúar verður aftur boðað til opinna funda á öllum svæðum þar sem unnið verður að markmiðasetningu og aðgerðaráætlun. Viðfangsefni janúarfundanna mun þá byggja á þeirri vinnu sem hefur verið unnin í verkefninu og á opnu fundunum núna í nóvember. Þessi vinna markar stefnuna fyrir framtíðarþróun ferðamála á Vesturlandi.

Nánar má fræðast um verkefnið og gang á mála á vef Markaðsstofu Vesturlands:
https://www.west.is/is/frettir-af-innra-starfi/dmp