Fara í efni

Áfangastaðaáætlun á Höfuðborgarsvæðinu

Áfangastaðaáætlun á Höfuðborgarsvæðinu

 

Höfuðborgarstofa vinnur að gerð áfangastaðaáætlunar (DMP) fyrir Höfuðborgarsvæðið í samstarfi við Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála. Vinnan sem hófst í apríl er grunnur að stefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir Höfuðborgarsvæðið.

 

Mikil greiningarvinna að baki

Fyrstu mánuðirnir vinnunnar fóru í greiningu á virðiskeðju ferðaþjónustunnar og hagaðilagreiningu, en ferðaþjónustan hefur snertiflöt við fjölmarga innviði samfélagsins og því í mörg horn að líta. Þegar hagaðilagreining var langt komin hófst vinna við að safna tölulegum gögnum sem gefa upplýsingar um núverandi stöðu greinarinnar á svæðinu. Þar sem um 96% allra ferðamanna sem koma til landsins dvelja á höfuðborgarsvæðinu í einhvern tíma er til gríðarlega mikið af gögnum sem hefur verið tímafrekt að samræma og vinna úr og er þeirri vinnu ólokið.

Verkefnisstjóri áfangastaðaáætlunar á Höfuðborgarsvæðinu er Ágúst Elvar Bjarnarson. Hann, ásamt öðru starfsfólki Höfuðborgarstofu, hefur kynnt sér svipaða áfangastaði og stefnumótunarvinnu. „Við sóttum til dæmis mjög áhugaverða kynningu frá iAmsterdam um hvernig þeim hefur tekist að stýra uppbyggingu og markaðssetningu fyrir allt Amsterdamsvæðið í heild sinni. En þrátt fyrir að innan svæðisins séu 27 sveitarfélög og ótrúlegur fjöldi hagaðila hefur þeim tekist að fá flesta til að vinna eftir heildrænni stefnu um þróun og uppbyggingu á svæðinu.“

 

Vinnustofa fyrir hagaðila

Í tengslum við þessa vinnu hefur Höfuðborgarstofa boðað til vinnustofu 30. nóvember næstkomandi. „Til þess að ná sem mestri sátt um svona vinnu er mikilvægt að fá sem flesta hagaðila að borðinu og fá sem flest sjónarmið,“ segir Ágúst. Eftir tilnefningar frá SAF, Höfuðborgarstofu og ráðleggingar frá Háskólasamfélaginu og Íslenska ferðaklasanum var rúmlega 140 aðilum sem tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan þátt boðið að taka þátt í vinnustofunni. Stefnt er að því að gögnin sem komi úr þessari vinnustofu verði fullunnin af sérfræðihóp og þar á eftir lögð fyrir hagaðila áður en svæðisráð raðar verkefnunum niður eftir forgangsröð. Svæðisráðið á Höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélög og verkefnastjórn verkefnisins munu einnig hafa kost á að bæta við aðgerðum og samræma verkefni sem nú þegar eru í gangi við áætlunina.

 

Hvetur áhugasama til að hafa samband

Ágúst hvetur alla áhugasama til að hafa samband. „Ef þið hafið áhuga á að koma og taka þátt í vinnustofunni eða hafið ábendingar og hugmyndir um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu má gjarnan hafa samband við mig með því að senda tölvupóst á agust@visitreykjavik.is.“


Nánari má lesa um verkefnið á vef Ferðamálastofu.