Fara í efni

81.600 ferðamenn í nóvember

Um 81.600 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nóvember síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 20.700 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Aukningin nemur 34,1% milli ár. Fjöldi erlendra ferðmanna er þar með kominn í um 1,2 milljónir frá áramótum.

Ferðamenn í nóvember 2015

Aukning eftir mánuðum:

  • 34,5% í janúar
  • 34,4% í febrúar
  • 26,8% í mars
  • 20,9% í apríl
  • 36,4% í maí
  • 24,2% í júní
  • 25,0% í júlí
  • 23,4% í ágúst
  • 39,4% í september
  • 49,3% í október
  • 34,1% í nóvember
      

Bretar og Bandaríkjamenn 55% ferðamanna

10 fjölmennustu þjóðerni í nóvember 2015Um 78% ferðamanna í nóvember síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bretar voru langfjölmennastir eða 35,5% af heildarfjölda og næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn (18,8%). Þar á eftir fylgdu Þjóðverjar (3,8%), Norðmenn (3,6%), Danir (3,6%), Svíar (3,2%), Frakkar (2,8%), Kanadamenn (2,8%), Japanir (1,9%) og Hollendingar (1,9%). 

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára í nóvember en um 9.300 fleiri Bretar komu í nóvember í ár en í fyrra og um 5.600 fleiri Bandaríkjamenn. Þessar tvær þjóðir báru uppi 71,7% aukningu ferðamanna í nóvember.

Fjöldi ferðamanna í nóvember á tímabilinu 2002-2015

10 fjölmennstu þjóðerniFerðamönnum í nóvember hefur fjölgað verulega frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002 og þá einkum síðastliðin fjögur ár. Þannig hefur heildarfjöldi ferðamanna í nóvembermánuði nærri fjórfaldast frá árinu 2011 og munar þá mestu um aukningu Breta sem hafa meira en fimmfaldast, N-Ameríkana sem hafa fjórfaldast og þeirra sem flokkast undir ,,önnur þjóðerni“ sem hafa fjórfaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma ríflega tvöfaldast og Norðurlandabúar nærri tvöfaldast.

Um 1,2 milljón ferðamanna frá áramótum

Það sem af er ári hafa 1,2 milljónir erlendra ferðamanna farið frá landinu eða um 275.600 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 30,1% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 51,1% frá N-Ameríku, 33,0% frá Bretlandi, 20,5% frá Mið- og S-Evrópu og 41,4% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“.

Ferðir Íslendinga utan

Um 35.700 Íslendingar fóru utan í nóvember síðastliðnum eða um 3.200 fleiri en í nóvember árið 2014. Frá áramótum hafa um 417.400 Íslendingar farið utan eða um 45.500 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð þannig að inn í tölunum eru erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn í nóvember - tafla