Fara í efni

66.700 ferðamenn í maí

Ferðamenn í maíUm 66.700 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 13.000 fleiri en í maí á síðasta ári. Aukningin nemur 24,4% milli ára. Fyrr á árinu hafa verið birtar tölur um 40,1% aukningu milli ára í janúar, 31,2% aukningu í febrúar, 35,3% í mars og 29,4% í apríl.

Nærri þriðjungur frá Bandaríkjunum og Bretlandi

10 fjölmennustu þjóðerninBandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 17,2% af heildarfjölda ferðamanna í maí en næstfjölmennastir voru Bretar eða 12,4% af heild. Þar á eftir komu Norðmenn (8,4%), Þjóðverjar (7,2%), Svíar (6,4%), Danir (6,2%), Kanadamenn (6,0%), Frakkar (5,5%), Finnar (2,9%) og Hollendingar (2,8%). Samtals voru framangreindar tíu þjóðir 75,0% ferðamanna í maí.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum og Bretum mest milli ára en 2.631 fleiri Bandaríkjamenn komu í maí í ár, 1.742 fleiri Kanadamenn og 1.517 fleiri Bretar. Þessar þrjár þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í maí milli ára eða um 45,1% af heildaraukningu.

Þróun á tímabilinu 2002-2014

Þróun á tímabilinu - markaðssvæði, myndritFerðamenn voru ríflega þrefalt fleiri í maí í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2002, eða að jafnaði um 12% á milli ára. Fjölgunin hefur þó verið mismikil, fjórum sinnum yfir 20% og þrívegis á bilinu 10-20%. Fækkun var á milli áranna 2008-2009 og 2009-2010, sem má rekja til gossins í Eyjafjallajökli.

Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá hvað aukningin hefur verið afgerandi frá 2010 frá flestum markaðssvæðum. Frá árinu 2002 til 2014 hefur rúmlega tvöföldun orðið á fjölda ferðamanna frá Norðurlöndunum, ríflega þreföldun á ferðamönnum frá Bretlandi og Mið- og Suður-Evrópu og nærri fjórföldun frá Norður-Ameríku. Hlutfallslega hefur hins vegar mest fjölgun verið í hópi þeirra sem taldir eru sameiginlega undir „Annað“ eða rúmlega sexföldun.

291 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 291.170 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 70 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 31,4% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum hefur fjölgað um 48,3%, Bretum um 41,4%, Mið- og S-Evrópubúum um 17,6%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 38,6%. Norðurlandabúum hefur hins vegar ekki fjölgað í sama mæli eða um 10%.

Ferðir Íslendinga utan

Um 37 þúsund Íslendingar fóru utan í maí síðastliðnum, um 2.600 fleiri en í maí árið 2013. Frá áramótum hafa 143.657 Íslendingar farið utan eða 7,2% fleiri en á sama tímabili árið 2013 en þá fóru 133.983 utan.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Tafla með földa ferðamanna í maí