Fara í efni

59 þúsund ferðamenn í apríl

fjöldi ferðamanna í aprílUm 59 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum apríl samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 13.500 fleiri en í apríl á síðasta ári. Um er að ræða 29,4% fjölgun ferðamanna í apríl milli ára. Ferðamannaárið fer því óvenju vel af stað en Ferðamálastofa hefur birt fréttir um aukningu í öllum mánuðum það sem af er ári eða 40,1% aukningu milli ára í janúar, 31,2% aukningu í febrúar og 35,3% í mars.

Tveir af hverjum fimm frá Bretlandi og Bandaríkjunum

10 fjölmennustu þjóðerninBretar voru fjölmennastir eða 26,4% af heildarfjölda ferðamanna í apríl en næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 13,0% af heild. Þar á eftir komu Norðmenn (8,3%), Þjóðverjar (5,9%), Danir (5,9%), Svíar (5,5%), Kanadamenn (4,8%), Frakkar (4,0%), Finnar (2,3%) og Hollendingar (2,2%). Samtals voru framangreindar tíu þjóðir 78,3% ferðamanna í apríl. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum mest milli ára en 4.171 fleiri Bretar komu í apríl í ár, 1.701 fleiri Bandaríkjamenn og 1.251 fleiri Kanadamenn. Þessar þrjár þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í apríl milli ára eða um 53% af heildaraukningu.

Þróun á tímabilinu 2002-2014

apríl eftir markaðssvæðumFerðamenn voru þrefalt fleiri í apríl í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002. Miklar sveiflur hafa verið milli ára hvað ferðamannafjölda varðar en að jafnaði hefur aukningin verið um 11,1%. Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá hvað aukningin hefur verið afgerandi frá 2010 frá öllum markaðssvæðum, mest hefur hún þó hlutfallslega verið frá N-Ameríku og Bretlandi. Þannig hefur fjöldi Breta þrefaldast og fjöldi N-Ameríkana ríflega tvöfaldast. Hlutdeild Norðurlandabúa sem framan af voru stærsta markaðssvæðið eða nærri þriðjungur hefur minnkað með árunum og er nú ríflega einn fimmti ferðamanna frá Norðurlöndunum. Bretar hafa hins vegar náð forystu sem stærsta markaðssvæðið í apríl en þeir hafa verið um fjórðungur ferðamanna í mánuðinum síðastliðin tvö ár.

224 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 224.457 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 56.500 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 33,7% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum hefur fjölgað um 52,1%, Bretum um 43,8%, Mið- og S-Evrópubúum um 20,8%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 36,0%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í sama mæli eða um 9,7%.

Ferðir Íslendinga utan

Um 35 þúsund Íslendingar fóru utan í apríl síðastliðnum, um sjö þúsund fleiri en í apríl árið 2013. Líklega hafa páskarnir haft áhrif á ferðagleði Íslendinga utan í apríl nú en páskarnir voru í marsmánuði í fyrra. Frá áramótum hafa 106.622 Íslendingar farið utan eða 7,1% fleiri en á sama tímabili árið 2013 en þá fóru 99.554 utan.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Tafla yfir fjölda ferðamanan í apríl