Fara í efni

182.000 brottfarir erlendra farþega í október

Brottfarir erlendra farþega* frá Íslandi voru 181.900 talsins í október síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 23 þúsund fleiri en í október á síðasta ári.

Aukningin nemur 14,7% milli ára. Um er að ræða svipaða hlutfallslega aukningu milli ára og í maí (17,5%), júní (18,9%), júlí (15,2%), ágúst (17,6%) og september (16,3%) en mun minni en mældist í janúar (75,3%), febrúar (47,3%), mars (44,9%) og apríl (61,9%). Frá áramótum hafa um 1,9 milljónir erlendra farþega farið frá landinu sem er um 26,7% aukning frá sama tímabili árinu áður.

Bandaríkjamenn og Bretar 40%

Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Bandaríkjamanna flestar í október í ár, um 45 þúsund talsins (24,7% af heild), um 29% fleiri en í október í fyrra. Brottfarir Breta komu þar á eftir, voru tæplega 27 þúsund talsins (14,8% af heild) en þær voru 14% færri en í október á síðasta ári. Brottfarir Þjóðverjar komu þar á eftir, um 10 þúsund talsins í október í ár (5,6% af heild), fjölgaði um 6,8% milli ára. Þar á eftir fylgdu brottfarir Kanadamanna (4,7% af heild), Kínverja (4,3%), Pólverja (3,5%), Taívana (3,1%), Frakka (3,1%), Dana (2,8%), Norðmanna (2,8%), Svía (2,2%) og Spánverja (2,1%).

 

14 þjóðerni bætast við

Þjóðernum í brottfarartalningum var fjölgað úr 18 í 32 í júní síðastliðnum. Þjóðernin sem bættust við eru Austurríkismenn, Ástralir, Belgar, Hong Kong búar, Indverjar, Ísraelar, Írar, Singapúr-búar, S-Kóreumenn og Tævanar. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru nú ennfremur taldir sérstaklega og þá undir sama hatti og hið sama má segja um Eista, Letta og Litháa. Niðurstöður má sjá í töflunni hér að neðan.

Tæp þreföldun á fimm ára tímabili

Fjöldi brottfara erlendra farþega hefur nærri þrefaldast á tímabilinu janúar til október á fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 2013. Þannig hefur fjöldi Norður Ameríkana næstum fimmfaldast, Mið- og Suður Evrópubúa meira en tvöfaldast, fjöldi Breta meira en tvöfaldast og fjöldi þeirra sem koma frá löndum sem flokkast undir annað meira en þrefaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli á tímabilinu 2013-2017 eða um fjórðung.

 

Breytt samsetning

Hlutfallsleg samsetning farþega hefur breyst nokkuð frá árinu 2013 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar um brottfarir á tímabilinu janúar-október. Norður Ameríkanar voru 31,9% af heild árið 2017 en hlutdeild þeirra hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2013. Hlutdeild Breta var 13,2% árið 2017 en var á bilinu 15,6%-16,9% á árunum 2013-2016. Norðurlandabúar voru 8,6% af heild árið 2017 en hlutdeild þeirra hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið-og Suður Evrópubúa hefur jafnframt minnkað frá 2013 til 2017 en hefur að sama skapi hækkað hjá þeim sem falla undir ,,annað“.

 

Ferðir Íslendinga utan

Um 59 þúsund Íslendingar fóru utan í október í ár eða 18,4% fleiri en í október 2016. Frá áramótum hafa um 521 þúsund Íslendingar farið utan eða 16,0% fleiri en á sama tímabili árið 2016.

Nánari upplýsingar*

Talning Ferðamálastofu er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og vert er að hafa í huga að með þessari aðferð ná talningarnar yfir alla sem fara í gegnum öryggisleit. Tölurnar ber því að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Þó ber að ítreka að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum. Með því að viðhafa sömu aðferðafræði gegnum tíðina hafa fengist dýrmætar upplýsingar um þjóðernasamsetningu ferðamanna og fjölda þeirra, sem samanburðarhæfar eru milli ára. Þannig má greina þróunina með tiltölulega litlum kostnaði og án teljandi óþæginda fyrir starfsemi Keflavíkurflugvallar. 

Könnun sem gerð var 24. júlí til 6. ágúst sl. sýndi að 5% brottfararfarþega notuðu flugvöllinn eingöngu til millilendingar, þ.e. farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga (e. self-connect). Að auki nýttu 6% farþega sem millilentu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma. Þessar hlutfallstölur geta verið breytilegar á milli mánaða.
Sjá nánar

Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.