Fara í efni

170 milljóna króna markaðsátak í ferðaþjónustu haustið 2009

Jöklaklifur
Jöklaklifur

Starfshópur sem í sátu fulltrúar Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og Höfuðborgarstofu hefur farið yfir umsóknir um samstarfsverkefni til markaðssetningar Íslands á tímabilinu október 2009 til mars 2010.

Alls bárust 20 umsóknir og hefur verið samþykkt að ganga til samninga um 6 verkefni að heildarfjárhæð um 170 milljónir króna. Öll verkefnin snúast um kynningu í formi auglýsinga í prentmiðlum og/eða á vefnum á því tímabili sem um ræðir og uppfylltu einnig önnur þau skilyrði sem fram komu í auglýsingunni um verkefnið.

Ferðamálastofa í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, Útflutningsráð og Reykjavíkurborg, auglýsti þann 11. september síðastliðinn eftir tillögum frá íslenskum ferðaþjónustuaðilum að umræddum samstarfsverkefnum. Verkefni dreifast á meginmarkaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu í Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í N-Ameríku og á Norðurlöndum.

Þau  verkefni sem samþykkt var að ganga til samstarfs um voru þessi:

  • Icelandair:  Winter Campaign Boston - New York - Seattle
  • Iceland Express: Markaðsherferð á vefnum í Bretlandi frá október 2009 til mars 2010
  • Go To Iceland LLC: Go To Iceland
  • Icelandair:  Newspaper & Online Campaign - Frankfurt, Paris and Amsterdam
  • Iceland Express: Markaðsherferð á vefnum í Skandinavíu frá október 2009 til mars 2010
  • Iceland Travel ehf.: Iceland Total

Heildarráðstöfunarfé/-framlag til samstarfsverkefnanna er 50 milljónir króna. Í auglýsingu var tekið fram að mótframlag umsóknaraðila skyldi vera að lágmarki tvöfalt hærra en framlag Ferðamálastofu (2 kr. á móti einni). Lágmarksframlag til eins verkefnis miðaðist við 5 milljónir króna og hámarksframlag til eins verkefnis 10 milljónir króna. Að teknu tilliti til mótframlags í þeim verkefnum sem samþykkt voru er ljóst að framlag til átaksins fullnýtist. Að viðbættu mótframlagi umsóknaraðila er heildarupphæð átaksins 170 milljónir króna, sem fyrr segir. (Sjá nánar um forsendur í auglýsingu)

Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, segist ánægður að sjá þau góðu viðbrögð sem ferðaþjónustuaðilar sýndu verkefninu. Það sé mikilvægt að halda áfram að markaðssetja ferðamannalandið Ísland af krafti. Þeir fjármunir sem nú fari í þetta tiltekna verkefni komi á góðum tíma nú á haustmánuðum og því ríkir bjartsýni á að árangurinn verði góður.