Fara í efni

137.000 ferðamenn í júní

ferðamenn júníUm 137 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 26.712 fleiri en í júní á síðasta ári. Aukningin nemur 24,2% milli ára.

Aukning hefur verið milli ára alla mánuði frá áramótum eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl og 36,4% í maí.

Fjórðungur frá Bandaríkjunum

fjölmennustu þjóðerniUm 72% ferðamanna í júní árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 24,5% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (10,5%) og Bretar (8,4%). Þar á eftir fylgdu síðan Frakkar (5,3%), Kínverjar (5,1%), Kanadamenn (4,6%), Norðmenn (4,1%), Svíar (3,3%), Danir (3,1%) og Pólverjar (2,9%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kínverjum, Bretum og Kanadamönnum mest milli ára í júní en 12.334 fleiri Bandaríkjamenn komu í júní í ár en í fyrra, 3.167 fleiri Kínverjar, 2.060 fleiri Bretar og 1.008 fleiri Kanadamenn. Þessar fjórar þjóðir báru uppi 69,5% aukningu ferðamanna í júní.

Nokkrum þjóðum fækkaði hins vegar í júní ár frá því í fyrra. Rússum fækkaði um 40,6%, Svíum um 16,7%, Dönum um 13,6% og Norðmönnum um 10,2%.

Fjöldi ferðamanna í júní á tímabilinu 2002-2015

ferðamenn eftir markaðssvæðumFerðamönnum í júní hefur fjölgað jafnt og þétt frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002, með örfáum undantekningum. Heildarfjöldi ferðamanna í júnímánuði hefur meira en fjórfaldast frá árinu 2002 og munar þá mestu um aukningu N-Ameríkana sem hafa ríflega sexfaldast og þeirra sem flokkast undir ,,annað“ sem hafa áttfaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma meira en þrefaldast, Bretar nærri þrefaldast og Norðurlandabúar nærri tvöfaldast en hlutdeild þeirra síðastnefndu hefur minnkað með árunum í júnímánuði.

Um 517 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 517.037 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 115.265 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 28,7% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; 40,3% aukning frá N-Ameríku, 28,1% frá Bretlandi, 24,6% frá Mið- og S-Evrópu, og 43,5% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“. Lítilsháttar aukning hefur verið frá Norðurlöndunum eða rétt innan við 3% milli ára.

Ferðir Íslendinga utan

Tæplega 48 þúsund Íslendingar fóru utan í júní síðastliðnum eða um 6.600 fleiri en í júní árið 2014. Frá áramótum hafa 208.535 Íslendingar farið utan eða 23.700 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.