Fara í efni

136.000 ferðamenn í janúar

Ferðamenn í janúar 2017

Tæplega 136 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 58.400 fleiri en í janúar á síðasta ári. Aukningin nemur 75,3% milli ára.

Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning í janúar milli ára frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli en mest hefur hún verið síðustu ár, eða 27,3% 2012-2013, 40,1% 2013-2014, 34,5% 2014-2015 og 23,6% 2015-2016.

 

Bandaríkjamenn og Bretar um helmingur ferðamanna

12 fjölmennustu þjóðerninBretar og Bandaríkjamenn voru um helmingur ferðamanna en Bretar voru 28,2% og Bandaríkjamenn 22,8% af heildarfjölda. Tíu þjóðerni sem röðuðust þar á eftir voru eftirfarandi:

  • Kínverjar 5,4%
  • Þjóðverjar 4,4%
  • Frakkar 3,3%
  • Kanadamenn 3,1%
  • Japanir 2,4%
  • Hollendingar 2,2%
  • Svíar 1,9%
  • Pólverjar 1,9%
  • Spánverjar 1,8%
  • Danir 1,5%

Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í janúar eða um 16.581 og voru þeir ríflega tvöfalt fleiri í ár en í fyrra. Bretum fjölgaði um 10.836 í janúar sem er 39,4% aukning frá því í fyrra, Kínverjum fjölgaði um 3.956 sem er meira en tvöföldun frá því í fyrra, Þjóðverjum um 2.734 sem er 83,7% aukning, og Kanadamönnum um 2.630 sem er nærri þreföldun frá því í fyrra. Þessar fimm þjóðir báru uppi 62,9% af aukningu ferðamanna milli ára í janúar.

 

Ferðamenn eftir markaðssvæðumFjöldi N-Ameríkana hefur ríflega sjöfaldast á fimm ára tímabili 

Ferðamenn hafa nærri fjórfaldast í janúar á fimm ára tímabili. Þannig hafa N-Ameríkanar nærri sjöfaldast, Bretar nærri fjórfaldast, Mið- og S-Evrópubúar meira en þrefaldast og ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað nærri fimmfaldast, Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 36% á tímabilinu 2013-2017.

 

Hlutfall N-Ameríkana hækkar en Norðurlandabúa lækkar

Hlutfall ferðamanan eftir markaðssvæðumHlutfallsleg samsetning ferðamanna hefur breyst nokkuð frá árinu 2013 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í nýliðnum janúar voru Norðurlandabúar 5,3% ferðamanna en hlutdeild þeirra af heild hefur lækkað verulega síðustu ár en hún var 16,0% árið 2013. Hlutdeild N-Ameríkana var hins vegar 25,9% í janúar síðastliðnum og hefur hún hækkað jafnt og þétt frá árinu 2013. Bretland hefur verið hlutfallslega stærsta markaðssvæðið. Hlutdeild þess hefur verið ríflega þriðjungur síðustu ár en lækkar nú lítillega. Hlutdeild Mið- og S-Evrópubúa hefur verið á líku róli á tímabilinu 2013 til 2017 og hlutdeild þeirra sem falla undir annað hefur vaxið á síðasta ári.

Ferðir Íslendinga utan

Um 37 þúsund Íslendingar fóru utan í janúar eða 7.255 fleiri en í janúar árið 2016. Um er að ræða 24,2% fleiri brottfarir en árið 2016.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn í janúar 2017 - tafla