1,5 milljarður til uppbyggingar ferðamannastaða á næstu þremur árum

Í dag voru veittir styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og er þetta fyrsta úthlutunin af þremur á þessu ári. Alls fengu 44 verkefni styrk að þessu sinni og nam heildarstyrkupphæðin rúmlega 150 milljónum króna.

Sjóðurinn stórefldur

Á næstu þremur árum mun sjóðurinn stóreflast en hann mun fá árlega 500 milljónir aukalega í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar til að standa fyrir löngu tímabæru viðhaldi, gróðurvernd og uppbyggingu við ferðamannastaði.

Geysir og Stöng í Þjórsárdal með hæstu styrkina

Hæstu styrkina, 20 milljónir króna, fá Sveitarfélagið Bláskógabyggð vegna hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinnu við Geysi í Haukadal og Minjastofnun Íslands (áður Fornleifavernd ríkisins) til að ljúka skipulags- og hönnunarvinnu og hefja uppbyggingu við Stöng í Þjórsárdal. Hveravallafélagið fær 10 milljónir króna vegna skipulags og framkvæmda á Hveravöllum, Skógrækt ríkisins 7,5 milljónir króna vegna þjónustuhúss í Þjóðskógum við Laugarvatn og Sveitarfélagið Hornafjörður 7,3 milljónir króna vegna göngubrúar og stíga við Fláajökul. Fjórir aðilar fá 5 milljónir króna í styrk en aðrir lægri. (Sjá lista yfir styrkþega).

Fjölbreytt verkefni um allt land

Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og kennir ýmissa grasa. Öll eiga þau þó sameiginlegt að þeim er ætlað að stuðla að þeim markmiðum sem sett voru með stofnun Framkvæmdasjóðsins. Þar ber hæst uppbyggingu, viðhald og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða á náttúruverndarsvæðum um land allt, að tryggja öryggi ferðamanna, vernda náttúru landsins og fjölga viðkomustöðum ferðamanna, svo nokkuð sé nefnt. Áberandi er hve miklu er veitt til hönnunar ferðamannastaða.

500 milljónir árlega næstu þrjú árin

Á næstu dögum verður auglýst eftir styrkumsóknum fyrir næstu úthlutun úr sjóðnum og er gert ráð fyrir að úthlutun fari fram í apríl n.k. Eins og fram hefur komið tilkynntu stjórnvöld í haust um 500 milljóna króna árlegt framlag til sjóðsins næstu þrjú árin í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Með þessu aukna framlagi er hægt að fara með mun markvissari hætti en áður í uppbyggingu áfangastaða ferðamanna vítt og breitt um landið, bæta ásýnd og yfirbragð staða og svæða, draga úr álagi og skemmdum af völdum vaxandi fjölda ferðamanna, bæta öryggismál, innviði og þjónustu við ferðamenn og þar með upplifun þeirra og ánægju af dvölinni.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með tölvupósti sveinn@ferdamalastofa.is

 


Athugasemdir