Fara í efni

Hreint og öruggt - Clean & safe

Hreint og öruggt / Clean and Safe er verkefni sem Ferðamálastofa setti á laggirnar í desember árið 2020, í miðjum Covid faraldri. Verkefninu var ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að taka á ábyrgan hátt á móti viðskiptavinum sínum með tilliti til hreinlætis og sóttvarna þannig að ferðamenn myndu upplifa sig örugga á ferðalagi sínu um landið. Markmiðið var að Ísland myndi áfram vera eftirsóknarverður, ákjósanlegur og öruggur áfangastaður þrátt fyrir heimsfaraldur.

Verkefninu ekki framhaldið

Rúmlega 400 fyrirtæki tóku þátt í verkefninu, á þeim tveimur árum sem það var í gangi. Til að taka þátt þurftu aðilar að fylla út sjálfsmat þar sem settar voru fram margvíslegar kröfur um þrif og sóttvarnir. Fyrirtæki sem uppfylltu kröfurnar fengu viðeigandi merki verkefnisins til að nota á vefsíðum sínum með þeim skilaboðum að hjá fyrirtækinu væri farið eftir gildandi leiðbeiningum íslenskra sóttvarnayfirvalda vegna Covid- 19 faraldursins.

Þátttaka í verkefninu var fyrirtækjum að kostnaðarlausu en í verkefninu var m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Að kynna sér sóttvarnarreglur yfirvalda vegna Covid-19 og leiðbeiningar um þrif og sóttvarnir.
  • Að fræða og leiðbeina starfsmönnum.
  • Að auka sóttvarnir og þrif og gera viðeigandi ráðstafanir innan hvers fyrirtækis.

Merki Hreint og öruggt / Clean and Safe var í gildi fyrir árin 2021 og 2022.

Mikilvægi hreinlætis og sóttvarna enn til staðar

Óhætt er að segja að heimsfaraldur Covid- 19 hafi breytt ferðahegðun og þörfum fólks. Kannanir sýna að væntingar og kröfur neytenda hafa breyst m.a. með tilliti til sóttvarna og hreinlætis almennt.

Þrátt fyrir að verkefninu Hreint og öruggt / Clean and Safe verði ekki framhaldið árið 2023 er mikilvægt að viðhalda áfram góðum starfsvenjum varðandi sóttvarnir og þrif og eru ferðaþjónustuaðilar hvattir til að hafa m.a. eftirfarandi í huga:

  • Að endurskoða þrifaáætlun reglulega með tilliti til hreinlætis og sóttvarna.
  • Að hafa auðvelt og áberandi aðgengi að handspritti í sameiginlegum rýmum; t.d. við innganga, móttöku, við lyftur, á snyrtingum og við hlaðborð.
  • Að leiðbeina og fræða starfsfólk reglulega um mikilvægi persónulegs hreinlætis og sóttvarnir.