Fara í efni

Ferðamálaráð Íslands 40 ára 7. júlí 2004

Ferðamálaráð Íslands 40 ára - 7. júlí 2004

Miðvikudaginn 7. júlí 2004 voru liðin 40 ár frá því Ferðamálaráð Íslands tók til starfa, en fyrsti fundur ráðsins var haldinn 7. júlí 1964. Í móttöku sem efnt var til ívegna þessara tímamóta opnaði samgönguráðherra Sturla Böðvarsson nýjan og gjörbreyttan upplýsingavef Ferðamálaráðs www.icetourist.is . Nýji vefurinn er á 6 tungumálum en undanfarin misseri hefur vefurinn verið langmest sótti upplýsingavefur um ferðamál í landinu. Á www.icetourist.is er að finna heilsteyptan gagnagrunn um flest sem viðkemur ferðaþjónustu hér á landi þar á meðal er skrá yfir alla leyfisskylda aðila í íslenkri ferðaþjónustu.

Á þeim 40 árum sem Ferðamálaráð hefur starfað hefur ferðamönnum sem leggja leið sína til Íslands fjölgað mikið. Fyrstu tíu árin (1965 til 1974) lögðu 510 þúsund erlendir ferðamenn leið sína til landsins, en síðustu 10 ár (1995-2004)var fjöldi erlendra ferðamanna sem komu til Íslands kominn í 2,6 milljónir. Því er spáð að næstu 10 ár muni rúmar 4 milljónir erlendra ferðamanna heimsækja Ísland.

Til marks um aukið mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúskapinn má nefna að árið 1963 námu tekjur af ferðaþjónustu 0,8% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar en árið 2003 komu 13 % af gjaldeyristekjunum frá ferðaþjónustunni.

Jón Karl Ólafsson formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að síðustu áratugi hafi íslensk ferðaþjónusta breyst úr því að vera nánast tómstundaiðja eða aukabúgrein í einn aðal atvinnuveg þjóðarinnar. "Það er ljóst að Ferðamálaráð hefur með samstarfi sínu við aðila innan ferðaþjónustunnar gengt lykilhlutverki í þeirri þróun sem orðið hefur" segur Jón Karl Ólafsson.

Áhersla á umhverfismál

Ferðamaálaráð Íslands fer með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgönguráðuneytisins og er eina stjórnsýslustofnun ferðaþjónustunnar í landinu. Meðal verkefna sem ráðinu eru falin eru landkynning og markaðsmál, skipulagning og áætlunargerð um íslensk ferðamál og rannsóknir og kannanir í ferðamálum. Umhverfismál eru einnig vaxandi þáttur í starfsemi ráðsins en Ferðamálaráði ber að sjá til þess að helstu áfangastaðir ferðamanna séu undir það búnir að taka við þeim straumi fólks sem að þeim beinist á hverjum tíma. Þessi þáttur í starfsemi Ferðamálaráðs hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis því þannig er reynt að tryggja að ágangur verði ekki of mikill á einstaka ferðamannastaði. Síðustu þrjú ár hefur verið ráðstafað árlega um 50 milljónum króna til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn víða um land. Segja má að viss "einkavæðing" sé nú hafin í þessum efnum því á liðnu ári var ákveðið að úthluta 15 af þessum 50 milljónum til einkaaðila til uppbyggingar á stöðum sem ráðið samþykkir.

Aukin umsvif - meira fjármagn

Frá upphafi hefur verið unnið út frá því meginmarkmiði að dreifa heimsóknum ferðamanna sem mest um landið og á árstíðir. Umsvif Ferðamálaráðs Íslands hafa farið vaxandi á liðnum árum en auk skrifstofa í Reykjavík og á Akureyri og upplýsinga-miðstöðva í öllum landshlutum, rekur Ferðamálaráð í dag skrifstofur í New York í Bandaríkjunum og í Frankfurt í Þýskalandi. Fyrr á þessu ári opnaði ráðið síðan skrifstofu í Kaupmannahöfn. Þá hefur Ferðamálaráð yfirumsjón með rekstri Ráðstefnumiðstöðvar Íslands en hún var stofnuð árið 1992 af Ferðamálaráði, Flugleiðum og Reykjavíkurborg og leiðandi aðilum á sviði funda og ráðstefnuhalds.

Árlega tekur Ferðamálaráð þátt í um 40 ferðamálasýningum og um 40 þúsund fyrirspurnum frá erlendum einstaklingum er svarað auk þess sem dreift er um hálfri milljón bæklinga fyrir ýmsa aðila í ferðaþjónustu. Starfsmenn Ferðamálaráðs Íslands eru í dag 22 en velta ráðsins á síðasta ári var um 400 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum hafa fjárveitingar til ferðamála liðlega þrefaldast á síðustu fjórum árum. Árið 1999 var 189,9 milljónum króna varið til ferðamála en árið 2003 var heildarupphæð fjárveitinga til ferðamála komin í 617 milljónir króna.

Sígild viðfangsefni

Þótt starfsemi Ferðamálaráðs hafi breyst mikið á undanförnum 40 árum þá eru viðfangsefnin sígild. Þannig gæti fyrsta erindið sem tekið var fyrir á fyrsta fundi ráðsins þann 7. júlí 1964 eins hafa verið til umræðu í dag en það erindi var frá stjórnvöldum sem leituðu álits Ferðamálaráðs á þeirri hugmynd að selja aðgang að Þórsmörk. Þá sem nú lagðist ráðið gegn hugmyndum um slíka gjaldtöku. Á fyrstu árum Ferðamálaráðs fór mikil vinna í svara beint erindum sem bárust, en í dag fer meiri tími í uppbyggingu rafrænna gagnagrunna þar sem hægt er að leita upplýsinga milliðliðlaust á vefnum. Til að gera þetta kleift hefur verið lögð aukin áhersla á ýmiskonar rannsóknir og kannanir á vegum ráðsins.

Ferðamálastjóri var fyrst skipaður árið 1978 og hafa þrír menn gengt því starfi; Lúðvík Hjálmtýsson, Birgir Þorgilsson og núverandi ferðamálastjóri Magnús Oddsson. Alls hafa um 100 einstaklingar verið skipaðir í Ferðamálaráð þau 40 ár sem það hefur starfað en á afmælisdaginn var haldinn 658. fundur ráðsins frá upphaf. Það er samgönguráðherra sem skipar 7 fulltrúa í Ferðamálaráð í dag, en þegar flest var á árum áður sátu 23 fulltrúar í ráðinu. Núverandi formaður Ferðamálaráðs Íslands er Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.

Ávarp samgönruráðherra: Hr. Sturlu Böðvarssonar.

Ágætu afmælisgestir!

Það er ánægjulegt að fagna þessum tímamótum Ferðamálaráðs. Ferðamálaráð er ein þeirra ríkisstofnana, sem láta lítið yfir sér en vinna sitt verk og ná árangri.

Það má segja að grunnurinn að Ferðamálaráði, í núverandi mynd, hafi verið lagður árið 1936 með lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins, en þar segir m.a. að skrifstofan skuli veita fræðslu um landið, innanlands og utan, með fræðsluritum, útvarpserindum, fyrirlestrum og kvikmyndum, með það fyrir augum að vekja athygli ferðamanna á landinu.

Í lögunum kemur einnig fram að Ferðaskrifstofan skuli hafa eftirlit með hreinlæti á gistihúsum og veitingahúsum, prúðmannlegri umgengni og aðbúnaði ferðamanna.

Í núgildandi lögum um skipulag ferðamála segir í fyrstu grein:

,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk sem mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu- og félagslífi, bæði með hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd."


Þó að margt hafi breyst þá er grunnurinn enn sá sami og Ferðamálaráð hefur frá stofnun þess, árið 1964, í raun sinnt þessum sömu verkefnum en unnið að þeim í takt við þann tíðaranda sem atvinnugreinin hrærist í hverju sinni. Á þessum fjörtíu árum hefur Ferðamálaráð í samstarfi við fyrirtæki og fjölmarga einstaklinga náð að efla íslenska ferðaþjónustu og gera hana jafn þróaða og öfluga atvinnugrein og raun ber vitni.

Síðustu árin hafa markaðsaðgerðir Ferðamálaráðs tekið miklum breytingum. Sýnist mér sem fjöldi samstarfsverkefna í markaðssókn, innanlands og utan, sem og Iceland Naturally í Bandaríkjunum, séu að skila góðum árangri. - Skilaboð mín til afmælisbarnsins er að þessari sókn verði haldið áfram og hún styrkt enn frekar í Evrópu auk þess sem sótt verði á fjarlægari markaði í auknum mæli. Við Íslendingar þurfum á því að halda að skjóta sterkari stoðum undir ferðaþjónustuna og til þess þurfum við að nýta og nota allar leiðir sem færar eru.

Umhverfismálin eru mikilvæg fyrir ferðaþjónsutana.

Ferðamálaráð Íslands hefur sinnt umhverfismálum ötullega frá upphafi og nýtur þar algjörrar sérstöðu miðað við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. En það er engin tilviljun að umhverfismál á ferðamannstöðum séu eitt lögbundinna verkefna Ferðamálaráðs hér á landi. Allir vita að íslensk ferðaþjónusta byggir á náttúru landsins. Greinin má því aldrei hafa skammtímamarkmið að leiðarljósi og verður að dafna í anda sjálfbærrar þróunar. - Ég tel því mikilvægt að umhverfisvottun og efling umhverfisfræðslu verði tekin fyrir skipulega og markvisst á sama hátt og sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Ferðaþjónusta bænda hafa gert í samstarfi við Hólaskóla og með styrk frá samgönguráðuneytinu.

Í framhaldi af nýrri sókn í umhverfismálum myndi ég vilja sjá frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu á sviði umhverfismála hampað enn frekar en nú er gert. Það eru og gætu orðið mörg tilefni til þess. Ísland hefur sérstöðu í auðlindanýtingu á sjálfbærum forsendum og við eigum bæði að vekja athygli á því og nýta okkur þá kosti sem íbúar vítt um veröldina sjá í því að sækja heim þjóð sem gerir umverfismálum svo hátt undir höfði og við gerum og viljum gera.

Framverðir íslenskrar ferðaþjónustu hafa verið margir í gegnum tíðina. Ég held að á engan sé hallað þó að ég nefni þá sérstaklega sem skipuðu fyrsta Ferðamálaráðið. Þeir voru Lúðvíg Hjálmtýsson, Þorleifur Þórðarson, Lárus Ottesen, Ágúst Hafberg, Geir Zoëga, Sigurlaugur Þorkelsson, Sigurður Magnússon og Birgir Þorgilsson.

Ég vænti þess að í framtíðinni megi atvinnugreinin dafna og vaxa í höndum öflugra frumkvöðla og með eðlilegum beinum og óbeinum stuðningi Ferðamálaráðs og ráðuneytis ferðamála.

Ég vil biðja gesti um að lyfta glösum til heiðurs frumkvöðlum og til heiðurs íslenskri ferðaþjónustu í nútíð og framtíð um leið og ég þakka ferðamálaráði, ferðamálastjóra og starfsfólki á skrifstofu Ferðamálaráðs fyrir gott starf.

Ávarp formanns Ferðamálaráðs Íslands: Einars Kr. Guðfinnssonar.

Samgönguráðherra, fyrrverandi samgönguráðherrar, góðir gestir.

Ég þekki margt fullorðið fólk sem talar aldrei um að fara í ferðalög eða til útlanda, þegar það ræðir um að bregða sér út fyrir landsteinana. Þess í stað talar það um að fara í siglingu. Þetta er þó sannarlega málvenja sem er að hverfa og í eyrum yngra fólks hljómar þetta sem hvert annað fornyrðislag eða eitthvað álíka. Kannski lýsir þessi litla breyting á íslensku tungutaki einmitt þeim risastökkum sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi með hliðsjón af þróun ferðaþjónustu á undraskömmum tíma. Fyrir fjörutíu árum þegar Ferðamálaráð Íslands varð til, sigldu menn, í bókstaflegri merkingu, þegar menn fóru út fyrir landsteinanna. Íslendingar sem fóru til útlanda notuðu frekari skip en flugvélar. Þetta hljómar ótrúlega að fyrir aðeins 40 árum - og hvað þá fyrr meir - hafi siglingar yfir hafið fremur verið ferðamátinn en flugið. Það átti því vel við að segja að menn væru sigldir, hefðu þeir farið frá Íslandsströndum.

Ferðaþjónusta hér á landi er í rauninni tiltölulega nýtt fyrirbrigði. Við getum rakið söguna býsna vel, því talning á komum erlendra ferðamanna hingað til lands hófst fyrir 55 árum, eða árið 1949. Við sjáum á því talnayfirliti hversu greinin hefur í raun byggst upp á þessum árum úr nánast engu. Árið 1949, árið sem talningarnar hófust komu 5.300 erlendir ferðamenn til landsins. Núna erum við hins vegar að ráðgera að 60 sinnum fleiri erlendir ferðamenn leggi hingað leið sína. Þetta segir ekki litla sögu.

Því rifja ég þetta upp að við minnumst í dag þess að 40 ár eru liðin frá stofnun Ferðamálaráðs. Á þessum tíma hafa orðið ævintýralegar breytingar. Ferðaþjónusta vex hratt um allan heim, en óvíða er þó meiri vöxtur í greininni en einmitt hér. Atorka og frumkvæði fólks sem í greininni starfar, ásamt góðum almennum skilningi stjórnvalda á hverjum tíma á þörfum hennar hafa gert það að verkum að þessi atvinnugrein er nú í annarri og þriðju röð útflutningsatvinnuvega okkar. Nokkuð sem menn hefðu látið segja sér þrim sinnum, svo vitnað sé til gamallar orðanotkunar.

Þó er það ekki svo að ferðaþjónusta sigli lygnan sjó. Öðru nær. Atvinnugreinin er í eðli sínu berskjölduð. Hún slæst á grimmum markaði. Það er við stóra að eiga, allar þjóðir vilja laða til sín ferðamenn og það er margt að sjá í henni veröld. Menn bíða ekkert í röðum eftir því að heimsækja okkur - jafnvel þó að landið sé fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar. Fjarlægðin hefur verið okkur þröskuldur og samkeppni á verðgrundvelli hefur eðlilega verið okkur erfið. Í samanburði við margar aðrar þjóðir sem státa einnig af fagurri náttúru, stórkostlegri sögu og eftirsóknarverðu loftslagi í viðbót , eru laun og annar kostnaður hár hér á landi. Við höfum því sannarlega þurft að hafa fyrir því að gera Ísland að alvöru ferðamannalandi, sem það er ótvírætt í dag. Bara sú staðreynd að við getum núna með sanni sagt, - ferðamannalandið Ísland, - segir heilmikla sögu.

Auk alls þessa er ferðaþjónustan viðkvæm fyrir hvers konar röskun. Það á við um ferðaþjónustu hér á landi sem og annars staðar. Hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum höfðu til að mynda gríðarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu um allan heim. Hér á landi eki síst. Enginn vafi er á því að sú alþjóðlega þróun réði mestu um að vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi gekk til baka tímabundið. Við höfum hins vegar náð okkur hressilega á strik og í ár stefnir í enn eitt metárið í komum erlendra ferðamanna til landsins. Metfjöldi erlendra ferðamanna sótti landið heim í fyrra. Alls komu hingað til lands um 320 þúsund ferðamenn, sem var 17 þúsund ferðamönnum fleira en á árinu 2000, sem hafði slegið öll met. Nú tökum við stefnuna á að ferðamenn hingað til lands verði að minnsta kosti um 350 þúsund, sem er þá 10 prósent fjölgun.

Þetta er gríðarlegur vöxtur á undraskömmum tíma. Það blasir við að við erum að ná meiri árangri en flestar nágrannaþjóðir okkar. Á sama tíma og við sjáum þennan mikla vöxt í íslenskri ferðaþjónustu hafa nágrannar okkar, frændur og vinir á Norðurlöndunum mátt búa við samdrátt. Umfang ferðaþjónustunnar í heiminum jókst jafnaðarlega um 4 prósent á ári, sl. áratug. Hér var vöxturinn 8 prósent. Ef við aðeins skoðum síðasta ár, þá er það staðreynd að við vorum að ná betri árangri en allar Evrópuþjóðir, að tveimur undanskildum.

Skýringarnar á þessu eru vitaskuld margvíslegar. Það er ljóst að miklar framfarir hafa orðið. Innviðir landsins eru miklu betri en áður. Samgöngukerfið hefur gjörbreyst til batnaðar. Við höfum fjárfest í þáttum sem laða að ferðamenn, m.a á sviði menningar og afþreyingar. Þekking innan greinarinnar hefur aukist og fagmennska sömuleiðis. Ísland getur með myndarlegri hætti tekið á móti fleiri ferðamönnum en áður. Uppbygging í ferðaþjónustu, í sem víðtækustum skilningi þess hugtaks er gríðarleg. Við þurfum ekki annað en líta á framboðshliðina, sem ég gerði einmitt að umtalsefni á síðustu ferðamálaráðstefnu sl. haust. Þar vakti ég athygli á að á einum áratug, frá 1993 til ársins í fyrra hefði rúmum á íslenskum gististöðum fjölgað úr 7.900 í 16.200. Á þessu er ekkert lát. Sama er að segja um framboð á flugsætum og öðrum ferðamöguleikum hingað til lands. Þar hefur orðið gríðarleg aukning á milli ára.

Þetta hlýtur að endurspegla mikla og vaxandi trú greinarinnar á áframhaldandi vöxt, sem við öll hljótum að fagna.

Mjög mikið og gott samstarf hefur tekist á milli ferðaþjónustunnar og stjórnvalda um stóraukið átak í markaðsmálum, jafnt hérlendis og erlendis. Til þessa verkefnis hefur verið varið um 850 milljónum króna af almannafé frá því að það hófst á haustdögum 2001. Enginn vafi er á því að þetta átak hefur átt sinn mikla þátt í að skila okkur auknum ferðamannastraumi. Kannski má segja að Íslendingseðlið hafi birst greinilega þegar þetta hófst. Við stóðum frammi fyrir miklum utanaðkomandi vanda, hryðjuverkavanda, sem allir vissu að yrði okkur erfiður í ferðaþjónustunnni. Og þá gerðist það að meðan sumar þjóðir kusu að draga saman seglin, spýttum við í lófana og rérum upp í brimskaflinn. Þannig náðum við út á lygnan sjó. Þetta held ég að allir geti verið sammála um að sé til marks um vel heppnað samstarfs atvinnulífs og opinberra aðila. Þetta samstarf varð öllum aðilum ómetanlegt og á örugglega mjög ríkan þátt í þeim vexti sem nú er orðinn staðreynd að nýju.

Meginvandi okkar er sem fyrr skortur á arðsemi. Sannarlega erum við að sjá gleðileg dæmi um velgengni stórra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Slíkt skiptir máli og er sem innspýting inn í atvinnugreinina í heild. Ennþá glímum við hins vegar víða við alltof erfiðan rekstur í atvinnugreininni. Okkur vantar meiri nýtingu á fjárfestingarnar, stærri hluta ársins. Þess vegna hefur markaðsviðleitnin miðað að því að lengja ferðamannatímann og dreifa ferðamannastraumnum víðar. Á þessu sviði hefur mikið áunnist. Í því sambandi er nauðsynlegt að rifja upp þá ábendingu Magnúsar Oddssonar ferðamálastjóra sem kom fram fyrr á þessu ári að umsvif Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í janúar sl. séu nú meiri en þau voru í júlí, þegar flugstöðin var opnuð fyrir 17 árum, eða árið 1987. Einnig má vekja athygli á að sveiflur í ferðamannastraumi, eftir árstíðum, eru minni hér en í mörgum ferðamannalöndum, svo sem Ítalíu og Spáni, svo merkilega sem það annars hljómar. Við sjáum nú ferðamenn árið um kring, vegna þess að fjölbreytni í íslenskri ferðaþjónustu hefur vaxið svo mikið. Þetta er ótvírætt merki um marktækan árangur.

Það er ekki hægt að fjalla svo um stöðuna í ferðamálum án þess að víkja að þýðingu innlenda markaðarins. Þetta á ekki síst við um ýmis minni fyrirtæki á landsbyggðinni. Markaðssetning innanlands er vitaskuld viðurhlutaminni og ódýrari en erlendis og þess vegna er eðlilegt að beina sjónum sínum að þeim þætti. Það hefur mjög verið gert í þeirri markaðssetningu sem gerð hefur verið að umtalsefni. Ferðamálaráð hefur lagt á það áherslu að auka þann þáttinn, meðal annars og beinlínis í því skyni að styrkja stöðu ferðaþjónustufyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er líka að skila sér. Við sjáum að um lang flestir Íslendingar fara um landið sem ferðamenn og nýta sér gistimöguleika og afþreyingu sem boðið er upp á í vaxandi mæli. Í því sambandi má benda á nýlega könnun okkar á ferðavenjum Íslendinga. Kemur þar meðal annars í ljós að Íslendingar nýta sér lang helst afþreyingarmöguleika sem ekki eru svo ýkja dýrir að byggja upp. Þar á ég meðal annars við gönguleiðir, golfvelli og sundlaugar, sem þegar hafa verið byggðar upp út um allt land. þarna felast því ótal tækifæri, sem mikilvægt er að menn grípi.

Góðir afmælisgestir.

Það er auðvitað tilefni til bjartsýni í íslenskri ferðaþjónustu. Greinin vex hraðar en í nágrannalöndum okkar og langt umfram vöxt margra annarra atvinnugreina hér á landi. Menn spyrja jafnvel hvort við þurfum ekki að hafa áhyggjur af of miklum vexti greinarinnar; hvort Ísland þoli aukinn fjölda ferðamanna. Einhverju sinni hefði mönnum þótt undarlega spurt. Nú erum við til dæmis að sjá að hingað til lands muni koma á árinu um 20% meiri fjöldi ferðamanna, en nemur íbúatölu landsins.

Ferðamálaráð hefur staðið fyrir því að skoða sérstaklega þolmörk nokkurra fjölmennra ferðamannastaða. Slíkt er eðlilegt. Ferðaþjónustan vill starfa í góðri sátt við landið. Ferðamálaráð hefur það hlutverk - ólíkt sambærilegum stofnunum erlendis að hyggja sérstaklega að umhverfismálum. Það er alveg ljóst af athugunum okkar að hvergi erum við komin að hættumörkum og Ísland þolir mikla aukningu ferðamannastraums. Við eigum því áfram að hvetja útlenda ferðamenn til þess að sækja okkur heim og bjóða þá velkomna. Við þurfum hins vegar að leggja áherslu á að lengja ferðamannatímann eins og við höfum gert og opna fleiri svæði fyrir ferðamönnum. Á það höfum við raunar lagt áherslu í störfum okkar og á þessu ári var til dæmis opnað á styrki á vegum Ferðamálaráðs til þeirra sem vildu stuðla að nýjum ferðamannaslóðum, með áherslu á uppbyggingu innri mannvirkja víðar um landið. Efnahagslega er þetta skynsamlegt. Þetta eykur fjölbreytni og gerir það að verkum að kyrrð og fjölbreytt náttúra lands okkar verður áfram það aðdráttarafl, sem laðar að okkur erlenda ferðamenn. Landið þolir auðveldlega stóraukinn ferðamannastraum. hagsmunir atvinnugreinarinnar og efnahagslífs okkar kallar bókstaflega á stöðugan og öran vöxt í komum erlendra ferðamanna árið um kring, til þess að njóta fjölbreytninnar um land allt.

Góðir gestir

Íslensk ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein og það er ástæða fyrir okkur sem nú störfum á vettvangi Ferðamálaráðs að þakka öllum þeim sem hafa þar lagt hönd á plóg á undanförnum áratugum. þar hafa margir komið að verki og skiptir að sjálfsögðu lang mestu máli framtak þess fólks sem hefur helgað atvinnugreininni starfskrafta sína um lengri og skemmri tíma. Ég vil á þessum tímamótum sérstaklega þakka ferðamálastjóra og starfsfólki Ferðamálaráðs fyrir gott samstarf og mikilvægt framlag með störfum sínum og fyrir ánægjulegt samstarf sem hefur verið okkur öllum ómetanlegt.