Fara í efni

Viðbragsáætlun vegna gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar

Hér er að finna upplýsingar um viðbragsáætlun Ferðamálastofu vegna gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar og stöðu viðskiptavina þeirra.

Frekari upplýsingar má finna hér á vefnum undir "Leyfi og löggjöf". Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið mail@ferdamalastofa.is og á netspjallið hér á vefnum.

Tryggingarskylda seljanda

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er leyfisskyld samkvæmt lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og tryggingarskyld samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.

 

Hvað felst í tryggingarskyldu seljenda?

Tryggingin er rekstrarstöðvunar- og gjaldþrotatrygging.

Tryggingar vegna sölu pakkaferða

Trygging skal ná til allrar ferðatengdrar þjónustu sem er hluti af samningi um pakkaferð og er ekki veitt sökum gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljanda.

  • Endurgreiðsla greiðslna sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð sem er ófarin, hvort sem hún er greidd að hluta eða að fullu.
  • Heimflutningur ef farþegaflutningur er hluti af samningi um pakkaferð.
  • Að farþega sé gert kleift að ljúka ferð sinni í samræmi við upphaflegan samning um pakkaferð. Skal þá tryggingin notuð til að greiða þann hluta ferðatengdrar þjónustu sem er hluti af samningnum og mundi annars ekki verða veitt. Ekki er skylt að greiða það sem farþegi kaupir aukalega. Hafi tryggingarfé verið notað til að gera farþega kleift að ljúka pakkaferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
  • Aðeins er greitt beint fjárhagslegt tjón en ekki hugsanleg óþægindi eða miski.

Komi til þess að krafa er gerð í tryggingu eru ekki greiddir vextir eða annar kostnaður vegna kröfugerðar.

Tryggingar vegna sölu samtengdrar ferðatilhögunar

  • Endurgreiðsla allra greiðslna sem seljandi, sem hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar, tekur við frá ferðamönnum.
  • Ef seljandi samtengdrar ferðatilhögunar er einnig ábyrgur fyrir farþegaflutningi skal tryggingin einnig ná til heimflutnings ferðamanns.

Hvað þurfa farþegar að gera til að fá endurgreitt?

Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingarfé seljenda til að fá endurgreitt það fé sem þeir hafa þegar lagt fram vegna pakkaferðar eða ef við á samtengdrar ferðatilhögunar. Nánari leiðbeiningar er að finna hér. 

Réttarstaða farþega sem kaupa einungis flugsæti 

Þegar aðeins er keyptur stakur flugmiði er réttarstaða farþega önnur en ef keypt er pakkaferð eða samtengd ferðatilhögun því ekki kemur til sams konar skyldutrygging og á við um seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.

Farþegi á eingöngu kröfu á þrotabú vegna þess kostnaðar sem hann verður fyrir komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar flugfélags

  • Sé farþegi staddur erlendis verður hann sjálfur að koma sér heim og á eigin kostnað svo framarlega sem rekstri er ekki haldið áfram af þrotabúi eða annað flugfélag tekur yfir þrotabúið.
  • Ef ferð er greidd að fullu eða að hluta en er ófarin á viðkomandi einungis almenna kröfu í þrotabúið.

Viðkomandi getur kannað hvort greiðslukortafyrirtæki endurgreiði farmiðann hafi hann verið greiddur með greiðslukorti.

Meðferð gjaldþrota – og rekstrarstöðvunarmála tryggingarskyldrar starfsemi

Þegar tilkynning berst Ferðamálastofu um gjaldþrot eða rekstrarstöðvun birtir Ferðamálastofa tilkynningu þess efnis á vef sínum www.ferdamalastofa.is.

Ýmsar frekari upplýsingar má finna hér á vefnum undir "Leyfi og löggjöf". Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið mail@ferdamalastofa.is og á netspjallið hér á vefnum.

  • Ferðamálastofa aflar upplýsinga um ferð, stöðu hennar og farþega, leitar samvinnu við flugfélög og tekur ákvörðun um heimflutning farþega ef við á. Farþegum er tilkynnt um stöðu og ákvörðun Ferðamálastofu.
     
  • Þegar flug er hluti pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar leitar ferðamálastofa hagkvæmustu leiðar um heimflutning farþega erlendis frá og leitar samvinnu við flugfélög. Um tvær leiðir er að ræða, annars vegar koma farþegar sér heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni og hins vegar útvegar Ferðamálastofa heimflutning.
    • Farþegar staddir erlendis
      Farþegar leggja út fyrir heimferðinni og geta gert kröfu í tryggingarfé seljanda fyrir heimferðinni. Farþegar skulu leitast við að gæta hagkvæmni hvað fargjöld varðar. Ferðamálastofa mun leita samstarfs við flugfélög til að leitast við að auðvelda farþegum heimferð m.t.t. forgangs til sæta, hagstæðs verðs, flugleiðar o.s.frv.
    • Farþegar staddir innanlands
      Farþegar koma sér sjálfir heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni. Þeir geta svo gert kröfu í tryggingarfé seljanda fyrir heimferðinni. Ekki verður um frekari milligöngu að ræða af hálfu Ferðamálastofu
    • Heimflutningur farþega
      Ef Ferðamálastofa útvegar heimflutning er ekki um frekari kröfugerð að ræða. Ef farþegar ákveða að nýta sér heimflutninginn og stytta þar með ferð sína geta þeir gert kröfu í tryggingarféð vegna þess sem út af stendur skv. pakkaferðarsamningnum. Ef þeir hins vegar kjósa að nýta sér ekki heimflutninginn og ljúka ferð verða þeir að koma sér sjálfir heim og leggja út fyrir heimferðinni og öðrum kostnaði sem af hlýst. Geta þeir átt kröfu í tryggingarféð.

  • Ferðamálastofa lætur birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingarblaðinu, í dagblaði sem hefur dreifingu á landsvísu og hér á vefnum. Kostnaður við auglýsingar er greiddur af tryggingarfé seljanda.

  • Þeir sem telja sig eiga kröfu vegna pakkaferða eða samtengdrar ferðatilhögunar geta lýst kröfum sínum í tryggingu seljandans.

  • Frestur til að lýsa kröfum er 60 dagar frá birtingu áskorunar og verða kröfur að hafa verið lagðar fram innan þess tíma.  Nánari leiðbeiningar er að finna hér.

  • Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun kröfu.

  • Að kröfulýsingarfresti loknum tekur Ferðamálastofa afstöðu til framkominna krafna. Öllum kröfuhöfum er svarað formlega. Ákvarðanir Ferðamálastofu lúta ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  • Ferðamálastofa sér um uppgjör krafna og greiðir út samþykktar kröfur.

  • Niðurstöður Ferðamálastofu eru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík. Kærufrestur er 4 vikur.

Að öðru leyti en að ofan greinir er farþegum bent á að kanna tryggingar sínar hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.