Fara í efni

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu

30. janúar 2024:

Ferðamálastofa birtir nú lokaskýrslur ráðgjafarfyrirtækisins Hagrannsókna sf. um uppbyggingu þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna og þjóðhagslíkans þar sem ferðaþjónustan er sérgreindur áhrifaþáttur í þjóðarbúskapnum. Um er að ræða lokaskil í 1. áfanga verkefnis á vegum Ferðamálastofu um uppbyggingu slíks þjóðhagslíkans, sem framhald kann að verða á. Í skýrslunum er ítarleg lýsing á þessum líkönum.

Annars vegar er um að ræða sérstakt þjóðhagslíkan fyrir íslenska ferðaþjónustu (geiralíkan) og hins vegar útvíkkun á spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands, þannig að það taki tillit til hlutverks ferðaþjónustunnar í þjóðarbúskapnum. Þá eru í skýrslunum einnig dæmi um greiningu á áhrifum breytinga í lykilforsendum ferðaþjónustu á helstu hagstærðir.

Tæki til greiningar á áhrifum breytinga í meginforsendum

Hagrannsóknir sf. tóku að sér um áramótin 2020/21 að smíða á árunum 2021-2023 fyrir Ferðamálastofu þjóðhagslíkan, svokallað geiralíkan, fyrir innlenda ferðaþjónustu. Þá var einnig útbúin útvíkkun með ferðaþjónustugeira á þjóðhagsspálíkani því sem Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands hafa þróað og notað fyrir hagkerfið í heild.

Megintilgangur þessarar vinnu er að gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að skoða á raunhæfan hátt áhrif markverðra breytinga á meginforsendum ferðaþjónustu á hag greinarinnar og þjóðarbúsins alls – og öfugt; áhrifin af breytingum í þjóðarbúskapnum á hag greinarinnar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig, s.s. við farsóttir, miklar breytingar á flugsamgöngum eða ferðavilja, og áhrif gengis, verðlags, atvinnustigs og skatta á ferðaþjónustuna.

Allar skýrslur og kynningar aðgengilegar á vef Ferðamálastofu

Skýrslur Hagrannsókna sf., sem hér birtast, eru viðbót við aðrar skýrslur og greinargerðir sem fyrirtækið hefur skilað Ferðamálastofu á verktímanum, frá áramótum 2020/21, sem og kynningum og málstofu sem Ferðamálastofa hefur haldið í samvinnu við Hagrannsóknir á þessu tímabili. Allar fyrri skriflegar afurðir og kynningar í verkefninu má finna hér á vef Ferðamálastofu.

Unnið að framsetningu líkans í notendavænu viðmóti til greiningar

Ferðamálastofa og Hagrannsóknir vinna nú í sameiningu að því að setja þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu (geiralíkanið) fram á einfaldan hátt, þannig að notendur geti breytt meginforsendum og séð áhrif þeirra breytinga skv. líkaninu á aðrar helstu hagstærðir. Gert er ráð fyrir því að notkun á líkaninu með þessum hætti verði gerð aðgengileg um heimasíðu Ferðamálastofu eða mælaborð ferðaþjónustunnar.

Skýrslurnar sem birtar eru nú

  1. Ítarleg lýsing á þjóðhagslíkani með ferðageira - Lokaskýrsla, desember 2023
  2. Ítarleg lýsing á þjóðhagslíkani með ferðageira - Uppfærsla áfangaskýrslu frá ágúst 2023
  3. Greinargerð um þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu (tengt inn í þjóðhagslíkan Hagstofu Íslands) með dæmum – Lokaútgáfa, ágúst 2023
  
Mynd með frétt: Daniel Ferrandiz Mont á Unsplash