Fara í efni

Könnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja

Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi hafa að einhverju leyti eða stórum hluta komist upp úr þeim öldudal sem þau lentu í við heimsfaraldurinn Covid-19; ferðaþjónustan er tekin að blómstra á ný og ferðamenn farnir að streyma til landsins. Það er því áhugavert að sjá hvernig fyrirtækin mátu síðastliðið sumar, hvernig þeim reiddi af, hvort þau nýttu árin sem faraldurinn geisaði til umbóta og hvernig þau meta horfurnar framundan. Þrátt fyrir að veiran hafði ennþá haft áhrif á íslenska ferðaþjónustu árið 2022, þá er ljóst að ferðaþjónustan gekk betur síðastliðið sumar (2022) en árið áður. Til að fylgjast með þróun greinarinnar fékk Ferðamálastofa Gallup til að gera í þriðja sinn ítarlega könnun meðal ferðaþjónustuaðila til að varpa skýrara ljósi á ferðasumarið 2022.

Könnunin er hugsuð sem stöðugreining á því hvernig rekstur ferðaþjónustunnar gekk síðastliðið sumar í samanburði við fyrrasumar (2021) og sumarið 2019 (f. covid-19) og því hvernig fyrirtækin meta horfurnar framundan.

Hvernig gekk í sumar?

 • Viðskiptin fóru fram úr væntingum hjá nærri þremur fyrirtækjum af hverjum fimm. Í gistiþjónustu fóru viðskiptin fram úr væntingum sjö fyrirtækja af hverjum tíu.
 • Viðskiptavinum fjölgaði um 79% síðastliðið sumar (2022) frá sumrinu 2021 og 64% frá sumrinu 2019.
 • Um átta fyrirtæki af hverjum tíu voru með meiri veltu síðastliðið sumar (2022) en sumarið 2021. Þegar veltan er skoðuð fyrir öll fyrirtæki, bæði þau sem voru með hagnað og þau sem voru með tap, þá var breyting á veltu milli ára 2021-2022, 35% hærri að jafnaði.
 • Þrjú af hverjum fimm fyrirtækjum skiluðu EBITDA framlegð. Að meðaltali var rekstrarhagnaðurinn (fyrir fjármagnsliði og afskriftir) 16% heilt yfir hjá fyrirtækjum; 20% hjá gistifyrirtækjum, 11% hjá veitingaþjónustufyrirtækjum, 15% hjá afþreyingafyrirtækjum og 21% samgöngufyrirtækjum.
 • Tæplega fjórðungur veltu fyrirtækja var tilkominn vegna Íslendinga síðastliðið sumar (2022), mun lægra hlutfall en sumrin 2021 (33%) og 2020 (54%) en ekki fjarri því sem var fyrir faraldurinn eða sumarið 2019 en þá var um fjórðungur veltu tilkominn vegna Íslendinga.
 • Ríflega tvö af hverjum fimm fyrirtækjum áttu í erfiðleikum með að ráða starfsfólk í sumar. Ástæðuna mátti fyrst og fremst rekja til þess að það var lítið framboð af starfsfólki, skortur var á hæfu fólki, mikil samkeppni var um starfsfólk, ekki nægjanlegt framboð á erlendu vinnuafli, auk þess sem húsnæðisskortur hafði áhrif.
 • Helmingur fyrirtækja greip til sértækra aðgerða til að laða til sín starfsfólk, ríflega fjórðungur bauð upp á launakjör umfram kjarasamninga, fimmtungur leitaði út fyrir landsteinana í meira mæli og svipað hlutfall aðstoðaði fólk við að finna húsnæði.
 • Erlent vinnuafl var 43% af heild, hæsta hlutfallið í gistiþjónustu eða 55%.

Umbætur gerðar á starfseminni á covid tímum

 • Flest fyrirtæki nýttu covid-tímann til umbóta á starfseminni. Umbæturnar snérust að mestu um:
  • Endurbætur á húsnæði og/eða tækjabúnaði (49%)
  • Breytingar á vöru- og þjónustuframboði (30%)
  • Þróun á nýjum áherslum/leiðum í markaðssetningu á vöru/þjónustu (25%)

Horfurnar framundan

 • Um tvö af hverjum þremur fyrirtækjum eru á því að eftirspurn meðal erlendra ferðamanna muni aukast eftir vöru og þjónustu fyrirtækja á næstu 12 mánuðum og tæplega þriðjungur að hún standi í stað. Flest fyrirtæki eru hins á því eða tvö af hverjum þremur að eftirspurnin meðal innlendra ferðamanna muni standa í stað, fimmtungur að hún muni minnka.
 • Um sjö af hverjum tíu fyrirtækjum telja sig vera í stakk búin að mæta skuldbindingum skammtímalána og langtímalána. Staðan hjá veitingaþjónustufyrirtækjum er verst.
 • Fimm mestu áskoranir innan ferðaþjónustu skv. ferðaþjónustufyrirtækjum liggja í að:
  1. Jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu
  2. Tryggja umferðaröryggi með traustu og góðu vegakerfi
  3. Tryggja uppbyggingu og viðhald á fjölsóttum ferðamannastöðum
  4. Viðhalda sterkri ímynd landsins á alþjóðavettvangi
  5. Tryggja aðgengi að helstu náttúruperlum allt árið um kring

Könnunin í heild   -   Glærur frá kynningu  -  Upptaka frá kynningu

Um könnunina

Könnunin var framkvæmd sem netkönnun á tímabilinu 18. október til 24. nóvember og náði hún til íslenskra fyrirtækja í a) gistiþjónustu, b) veitingaþjónustu, c) afþreyingaferðaþjónustu og c) samgönguþjónustu (bílaleigubílar og hópferðabílar) fyrir ferðamenn. Úrtakið var fengið úr gagnagrunni Ferðamálastofu og náði til fyrirtækja sem falla í hóp þeirra sem voru með 75% mestu ársveltuna árið 2019.

Könnunin var send á forsvarsmenn 1.055 fyrirtækja. Endanlegt úrtak var 919 fyrirtæki og fengust svör frá 323 sem gerir 35,1% svarhlutfall. Niðurstöður voru greindar eftir tegund starfsemi, árlegri veltu, fjölda starfsmanna, því hversu lengi fyrirtækið hefur verið starfrækt og staðsetningu fyrirtækis. Eins og áður sagði sá Gallup um framkvæmd könnunarinnar fyrir Ferðamálastofu. Heildarniðurstöður má nálgast í meðfylgjandi skjali.