Fara í efni

Fjárhagsupplýsingar atvinnugreina og fyrirtækja í ferðaþjónustu fyrir árið 2022

Ítarlegar fjárhagsupplýsingar um ferðaþjónustuna 2015-2022 aðgengilegar

Rekstrar- og fjárhagsupplýsingar fyrirtækja í helstu greinum íslenskrar ferðaþjónustu á árinu 2022 eru komnar inn í mælaborð ferðaþjónustunnar. Í mælaborðinu geta notendur glöggvað sig með skýrum hætti á öllum helstu rekstrar- og fjárhagstölum ferðaþjónustunnar skv. ársreikningum á tímabilinu 2015-2022.

Skoða má upplýsingarnar fyrir ferðaþjónustuna í heild, eftir undirgreinum ferðaþjónustu, stærð fyrirtækis, landshlutum, tímabili og með eða án fluggeirans. Jafnframt er hægt að sækja tölur ársreikninga einstakra ferðaþjónustufyrirtækja í gagnagrunninn í Excel með einföldum hætti fyrir nákvæmari skoðun og greiningu upplýsinganna.

 

 

Mikill fjárhagsstuðningur stjórnvalda í Covid hefur áhrif á tölurnar

Rétt er að halda því til haga að víðtækur stuðningur ríkisins við ferðaþjónustufyrirtæki vegna Covid-faraldursins hefur haft áhrif á rekstrar- og fjárhagstölur þeirra í ársreikningum síðustu ár. Samkvæmt fjárhagsgreiningu KPMG og Ferðamálastofu í mars 2023 námu mótvægisaðgerðir stjórnvalda sem höfðu bein áhrif á rekstrarreikninga fyrirtækja í greininni (fyrir utan fluggeirann) 6,8 mö.kr. árið 2020, 15,7 mö.kr. 2021 og 2,2 mö.kr. 2022, eða samtals 24,7 mö.kr. á þessu þriggja ára tímabili. Stuðningur stjórnvalda, sem ekki hafði bein áhrif á rekstrarreikning fyrirtækjanna, nam svo álíka upphæð til viðbótar.

Þrátt fyrir ofangreindan fyrirvara um áhrif stuðningsaðgerða á árunum 2020-2022 má fullyrða að þær upplýsingar sem nú bætast við, fyrir rekstrarárið 2022, sýna glögglega í tölum upphaf þeirrar sterku viðspyrnu í rekstri sem ferðaþjónustan hefur náð eftir að faraldurinn rénaði.

Fjárhagsyfirlit ferðaþjónustunnar frá 2015

Árleg greining niður á einstaka fyrirtæki

Nánari upplýsingar veita:
Arnar Dansson abd@ferdamalastofa.is
Jóhann Viðar Ívarsson johann@ferdamalastofa.is