Ný löggjöf - Lykilhugtök
Þann 1. janúar 2019 tóku gildi tvenn ný lög á sviði ferðamála:
Um töluverðar breytingar er að ræða á starfsumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja. Því er mikilvægt að forsvarsmenn þeirra og starfsmenn kynni sér nýja löggjöf vel og öðlist góðan skilning á þeim hugtökum sem þar eru notuð. Þetta á ekki síst við um lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Vakin er athygli á að ákvæði um tryggingarskyldu ferðaskrifstofa vegna sölu pakkaferða verða ekki hluti af lögum um Ferðamálastofu heldur er þau að finna í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Tvenns konar leyfi
Allir sem skipuleggja, selja og framkvæma ferðir eru áfram leyfisskyldir. Leyfin eru tvenns konar:
- Leyfi ferðaskrifstofu:
Leyfið tekur til aðila sem falla undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Allir sem bjóða einhverskonar samsettar eða samtengdar ferðir verða að hafa leyfi sem Ferðaskrifstofa.
Núgildandi ferðaskrifstofuleyfi halda gildi sínu en tekin verða upp ný auðkenni. Þeir sem í dag eru með ferðaskrifstofuleyfi þurfa því ekki að sækja um upp á nýtt. - Leyfi ferðasala dagsferða:
Tekur til aðila sem selja ferðir sem ekki falla undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Leyfi ferðasala dagsferða er einungis fyrir þá sem bjóða aðeins stakar ferðir sem eru styttri en 24 klst. og fela ekki í sér gistingu. Hverskyns samsetning og samtenging við aðra þjónustu getur kallað á stærra leyfi.
Hvað verður um ferðaskipuleggjendaleyfi?
Leyfi ferðaskipuleggjenda halda gildi sínu til 1. apríl 2019. Fyrir þann tíma þurfa þessir aðilar að skoða starfsemi sína og og sækja um nýtt leyfi í samræmi við hana. Ekki verður tekið leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa þeirra sem sækja um fyrir 1. apríl 2019 en greiða þarf fyrir mat á fjárhæð tryggingar, falli viðkomandi undir ferðaskrifstofuleyfi.
Ferðamálstofa metur hvort um er að ræða starfsemi ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofu samkvæmt nýjum lögum og gefur út leyfi í samræmi við það.
Umsóknir fara í gegnum "Þjónustugátt Ferðamálastofu". Ath. að þar sem enn á eftir að setja reglugerð sem fylgja þarf nýju lögunum hefur ekki enn verið hægt að opna fyrir umsóknir um leyfi sem ferðaskrifstofa.
Hvað með bókunarþjónustur?
Hugtakið bókunarþjónusta fellur úr lögunum og ber þeim að sækja um viðeigandi leyfi fyrir 1. paríl 2019, sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Starfsemi upplýsingamiðstöðva verður áfram tilkynningaskyld til Ferðamálastofu.
Ekki verður tekið leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa þeirra sem sækja um fyrir 1. apríl 2019 en greiða þarf fyrir mat á fjárhæð tryggingar, falli viðkomandi undir ferðaskrifstofuleyfi.
Umsóknir fara í gegnum "Þjónustugátt Ferðamálastofu". Ath. að þar sem enn á eftir að setja reglugerð sem fylgja þarf nýju lögunum hefur ekki enn verið hægt að opna fyrir umsóknir um leyfi sem ferðaskrifstofa.
Lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018
Lög um Ferðamálastofu koma í stað laga um skipan ferðamála. Helstu breytingar sem gerðar eru lúta að leyfismálum, skyldu til að gera öryggisáætlanir og heimild Ferðamálastofu til að leggja á dagsektir.
Leyfismál
Tvenns konar leyfi
Leyfi verða áfram tvenns konar; ferðaskrifstofuleyfi og leyfi ferðasala dagsferða. Bókunarþjónustur leggjast af.
Núverandi ferðaskipuleggjendur og bókunarþjónustur þurfa að skoða starfsemi sína út frá nýrri löggjöf (lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018) og sækja um viðeigandi leyfi fyrir 1. mars 2019. Ferðamálastofa metur hvort starfsemi telst falla undir hugtakið ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Ekki er tekið leyfisgjald fyrir ný leyfi til þessara aðila. Rétt er að benda á að falli starfsemi þeirra undir ferðaskrifstofur þurfa þeir að greiða gjald vegna mats á tryggingarfjárhæð í samræmi við VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Sæki bókunarþjónustur og ferðaskipuleggjendur ekki um nýtt leyfi fyrir 1. mars 2019 teljast þeir leyfislausir og er óheimilt að halda áfram starfsemi. (Ákv. til bráðabirgða nr. I).
Sjá skilgreiningu á ferðaskrifstofu hér.
Sjá skilgreiningu á ferðasala dagsferða hér.
Seljendur pakkaferða, þ.e. skipuleggjendur og smásalar, og þeir sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun verða leyfisskyldir sem ferðaskrifstofur og tryggingarskyldir skv. VII kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sbr. 7. gr.
Sjá skilgreiningu á pakkaferð hér.
Sjá skilgreiningu á samtengdri ferðatilhögun hér.
Sjá skilgreiningu á seljanda hér.
Sjá skilgreiningu á skipuleggjanda hér.
Sjá skilgreiningu á smásala hér.
Listi yfir samstarfsaðila
Leyfisskyldir aðilar, þ.e. ferðaskrifstofur og ferðasalar dagsferða, þurfa að leggja fram lista yfir samstarfsaðila sína, annars vegar þá sem þeir selja ferðir fyrir og hins vegar þá sem selja ferðir fyrir þá (smásala). Þetta er nauðsynlegt til að auðvelda yfirsýn og eftirlit með framkvæmd laganna.
Smásalar eru leyfisskyldir skv. lögum um Ferðamálastofu og þeim ber að leggja fram tryggingu fyrir sölu pakkaferða skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Óheimilt er, skv. 11. gr., að bjóða ferð til sölu eða kynna á nokkurn hátt ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir og því nauðsynlegt að fá sem bestar upplýsingar um alla sem bjóða og framkvæma ferðir.
Auðkenni og leyfisbréf
Tekin verða upp ný auðkenni ferðaskrifstofa og ferðasala dagsferða og leyfisbréf verða einungis gefin út rafrænt. Eldri auðkenni falla úr gildi. Minnt er á að leyfishafi skal í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á vef sínum nota myndrænt númerað auðkenni sem Ferðamálastofa gefur út sbr. 3. mgr. 7. gr.
Handhafar núverandi ferðaskrifstofuleyfa þurfa ekki að endurnýja sín leyfi en fá send ný auðkenni ásamt rafrænum leyfisbréfum. Ekki verður gerð krafa um sýnileika leyfisbréfa á föstum starfsstöðvum sbr. 7. gr. Hér má sjá dæmi um ný auðkenni.
Hjáheiti
Minnt er á að einungis er heimilt að reka starfsemi undir þeim heitum sem skráð eru á viðkomandi leyfi sbr. 8. gr.
Leyfishafar eru hvattir til að fara yfir hvort að öll heiti sem þeir nota í starfsemi sinni eru skráð á leyfisbréf þeirra. Ef einhver heiti, sem nota á, eru ekki skráð er mikilvægt að óska skráningar þeirra hjá Ferðamálastofu.
Ekki er tekið gjald fyrir skráningu nýrra hjáheita. Það sparar tíma og fyrirhöfn ef hjáheiti eru rétt skráð við endurútgáfu leyfa.
Skilyrði fyrir útgáfu leyfa - breytingar
Auk þeirra gagna sem til þessa hefur þurft að leggja fram við umsókn um ferðaskrifstofuleyfi og leyfi ferðaskipuleggjanda þarf, vegna leyfa samkvæmt nýrri löggjöf, að leggja fram staðfestingu Ríkisskattstjóra (RSK) um skráningu á launagreiðendaskrá.
Aldurstakmark forsvarsmanns fyrir útgáfu leyfis er afnumið.
Að öðru leyti eru skilyrði fyrir útgáfu leyfis óbreytt.
Skilyrði fyrir útgáfu leyfa er að finna í 8. gr.
Öryggisáætlanir
Framkvæmd ferða
Öllum sem framkvæma eða hyggjast framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis verður, frá 1. janúar 2019, skylt að hafa skriflegar öryggisáætlanir, á íslensku og ensku, fyrir hverja tegund ferðar.
Í öryggisáætlun er lagt mat á helstu áhættuþætti ferðar, viðbrögð við hugsanlegri vá og gerð áætlun um hvernig skuli brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis.
Gerð öryggisáætlana á við hvort sem ferðir eru seldar beint til ferðamanna eða í gegnum annan aðila. Skylda til gerðar öryggisáætlana nær jafnt til innlendra sem erlendra ferðaþjónustuaðila.
Um öryggisáætlanir og gerð þeirra a er fjallaði í 11. gr.
Sjá skilgreiningu á öryggisáætlun hér.
Öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar
Gera þarf öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar og því getur þurft að hafa fleiri en eina öryggisáætlun í gildi á hverjum tíma eftir því hvernig og hversu margar ferðir boðið er upp á.
Óheimilt að selja ferð ef öryggisáætlun er ekki til staðar
Óheimilt verður að bjóða ferð til sölu eða kynna á nokkurn hátt ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir. Það eru því ekki bara þeir sem framkvæma ferðir sem bera ábyrgð á að öryggisáætlanir séu til. Ábyrgðin hvílir einnig á söluaðilum ferða ef þeir eru aðrir en framkvæmdaaðilar.
Ferðaskrifstofum og ferðasölum dagsferða, sem selja eða kynna ferðir fyrir aðra, ber að ganga úr skugga um að öryggisáætlanir séu til staðar áður en ferðir eru teknar til sölu.
Ábyrgð á gerð öryggisáætlunar
Hver sá sem býður upp á skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á að uppfæra öryggisáætlanir sínar reglulega og jafnskjótt og tilefni er til.
Ferðamálastofa hefur eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar eins og þörf er á. Ferðamálastofa getur hvenær sem er kallað eftir öryggisáætlunum og ber þá að skila þeim til hennar. Séu öryggisáætlanir ekki fullnægjandi er Ferðamálstofu heimilt að leggja á dagsektir þar til úr er bætt.
Tilgangur með gerð öryggisáætlana
Tilgangur öryggisáætlana er að stuðla að auknu öryggi ferðamanna og starfsmanna með því annars vegar að draga úr líkum á að það komi til slysa eða óhappa og hins vegar að tryggja rétt viðbrögð ef eitthvað ber útaf.
Gerð öryggisáætlana
Öryggisáætlanir eru skriflegar reglur/leiðbeiningar sem snúa að framkvæmd ferða. Í rauninni eru þær nokkurskonar uppskrift að undirbúningi ferðar og ferðinni sjálfri frá upphafi til enda.
Öryggisáætlun samanstendur af áhættumati, verklagsreglum, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu(m).
- Fyrsta skref í gerð öryggisáætlunar er áhættumat. Í því er farið yfir ferð frá upphafi til enda og aðstæður skoðaðar. Lagt mat á hvar aðstæður eru þannig að hætta geti skapast, hverjir eru í hættu, hvers eðlis hættan er og hversu alvarleg slys geta orðið.
a. Hættugreining, hvaða mögulegar hættur eru til staðar.
b. Líkindi á að hætta valdi slysi eða næstum slysi.
c. Alvarleiki slyss ef af verður.
Alvarleiki er metinn út frá:
i. Alvarleika slysa eða áverkum á fólki.
ii. Truflunum á starfssemi fyrirtækis.
d. Alvarleiki og líkur vegið saman.
Mikilvægt er að horfa á aðstæður frá sjónarhóli gestsins þar sem hann kann að vera óreyndur, þekkir ekki aðstæður, upptekinn af umhverfinu, er annars hugar o.s.frv.
Áhættumat skal vera sértækt í samræmi við aðstæður sem geta verið árstíðabundnar eða jafnvel breytilegar inna sólarhrings (flóð/fjara, dægursveifla jökuláa, veður o.s.frv.). - Næsta skref er gerð verklagsreglna. Verklagsreglur byggja á áhættumati og eru forskrift að því hvernig framkvæma á ferð. Þær hafa forvarnargildi auk þess að virka til gæðastýringar. Í verklagsreglum þarf að koma fram:
a. Allt sem hafa þarf í huga og framkvæma allt frá undirbúningi ferðar til frágangs að henni lokinni.
b. Kröfur um þekkingu, reynslu og þjálfun starfsmanna.
c. Búnaðarlistar vegna búnaðar til að veita þjónustu og neyðarbúnaðar.
d. Reglur varðandi ferðina s.s. fjöldi þátttakenda á starfsmann, eru einhverjar takmarkanir á þátttöku t.d. vegna heilsufars eða aldurs, má breyta leiðavali og þá við hvaða aðstæður, o.s.frv.
e. Gátlistar til að tryggja undirbúning og framkvæmd. - Viðbragðsáætlanir fjalla um hvað ber að gera ef eitthvað fer úrskeiðis. Þær byggja á áhættumati og eru í raun sjálfstætt framhald þess. Viðbragðsáætlanir þurfa að vera til vegna hvers kyns óhappa, veikinda, slysa eða annarra atvika sem geta raskað ferð og ógnað öryggi þátttakenda. Viðbragðsáætlunum er ætlað að:
a. Koma í veg fyrir frekari slys.
b. Lágmarka tjón og aðrar slæmar afleiðingar þess sem úrskeiðis fer.
c. Halda uppi gæðum í þjónustu þó eitthvað bregði útaf.
d. Nýtast í þjálfun starfsmanna. - Atvikaskýrslan er síðasti liður öryggisáætlunarinnar. Hún er form til skráningar á öllu því sem útaf ber, hvort sem það leiðir til alvarlegs slyss eða ekki. Atvikaskýrsla er tæki til að:
a. Læra af og viðhalda gæðum.
b. Viðhalda og auka öryggi og koma í veg fyrir frekari slys.
c. Endurmeta vöru og þjónustu.
d. Endurskoða viðbragðsáætlanir og verklagsreglur.
Frekari fyrirmæli um öryggisáætlanir
Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um form og innihald öryggisáætlana og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni með öryggisáætlunum.
Öryggisáætlanir fyrir 1. janúar 2019
Þeir ferðaþjónustuaðilar sem skylt er að hafa öryggisáætlanir skulu hafa gert þær og tekið í notkun eigi síðar en 1. janúar 2019.
Gerð vandaðra öryggisáætlana getur verið tímafrek og í mörg horn er að líta. Aðilar eru því hvattir til að hefja undirbúning að gerð öryggisáætlana hið fyrsta eigi þeir slík gögn ekki nú þegar. Hægt er að fá aðstoð við gerð öryggisáætlana og má þar m.a. nefna ýmsar verkfræðistofur og ráðgjafarfyrirtæki. Einnig er bent á frekari upplýsingar og leiðbeiningar um gerð öryggisáætlana í hjálpargögnum á heimasíðu Vakans, sjá hér.
Eftirlit viðurlög og úrræði Ferðamálastofu
Nýmæli í lögunum er heimild Ferðamálastofu til að leggja á dagsektir ef ekki er farið að fyrirmælum stofnunarinnar á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að leggja dagsektir á aðila sem uppfylla ekki kröfur laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og á þá sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis.
Dagsektir eru lagðar á aðila þar til bætt hefur verið úr þeim atriðum sem beiting dagsekta grundvallast á. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
Ákvörðun Ferðamálstofu um dagsektir má skjóta til ráðherra innan 14 daga frá því hún er tilkynnt. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
Stjórnvaldsákvarðanir Ferðamálastofu eru kæranlegar til ráðherra. Um málsmeðferð fer skv. stjórnsýslulögum. Í VI. kafla laganna er fjallað um viðurlög Ferðamálastofu.
Lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018
Með lögunum er tilskipun ESB um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 2015/2302 innleidd í íslenskan rétt.
Innleiðing tilskipunarinnar felur í sér fulla samræmingu reglna er taka til pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar á EES-svæðinu. Það felur í sér að einstökum aðildarríkjum er ekki heimilt að viðhalda í sinni löggjöf strangari eða slakari reglum en kveðið er á um í tilskipuninni.
Tilskipuninni er ætlað að efla neytendavernd og tryggja réttindi ferðamanna. Í tilskipuninni er kveðið á um réttindi ferðamanna og skyldur seljenda með mun nákvæmari hætti en hingað til.
Verið er að færa regluverkið til nútímans og er lögunum m.a. ætlað að taka mið af þeim fjölbreyttu viðskiptaháttum sem nú tíðkast þegar ferðatengd þjónusta er keypt eða boðin til kaups m.a. á netinu.
Til pakkaferða heyra nú ferðir sem settar eru saman á fjölbreyttari hátt en áður, jafnframt er innleitt hugtakið samtengd ferðatilhögun um samsetningu þjónustu fyrir sömu ferð sem er þó ekki pakkaferð.
Margir sem til þessa hafa verið undanþegnir leyfis- og tryggingarskyldu munu falla undir gildissvið laganna.
Hægt er að kynna sér efni tilskipunarinnar hér á íslensku og ensku.
Gildissvið
Lögin gilda um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem seljendur bjóða til sölu, selja eða hafa milligöngu um sölu á til ferðamanna skv. 4. gr. Hugtakið seljandi tekur til skipuleggjanda, smásala og seljanda sem selur pakkaferðir, hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun eða er ferðaþjónustuveitandi.
Samkvæmt 2. gr. gilda lögin ekki um ferðir:
a. sem vara í styttri tíma en sólarhring, nema næturgisting sé innifalin,
b. sem eru tilfallandi, ekki í hagnaðarskyni og aðeins fyrir takmarkaðan hóp ferðamanna. Í þessu felst að sala ferða er ekki aðalatvinnugrein seljanda og ferðin er ekki seld í hagnaðarskyni, að hún er ekki boðin almenningi til sölu og að aðeins er um tilfallandi ferðir að ræða. Öll þrjú skilyrðin verða að vera fyrir hendi til að ferð falli utan gildissviðs laganna. Dæmi geta verið skólaferðalög, ferðalög íþróttafélaga og aðrar álíka ferðir lokaðra hópa sem aðilar skipuleggja sjálfir.
c. sem keyptar eru í tengslum við atvinnurekstur kaupanda á grundvelli almenns samnings. Hérna getur verið um að ræða rammasamninga sem fyrirtæki gera í tengslum við ferðir starfsmanna sinna.
Hér er að finna flæðirit sem skýrir hvaða ferðir falla undir gildissvið laganna.
Ferðatengd þjónusta
Til að ferð teljist pakkaferð eða samtengd ferðatilhögun þarf alltaf að vera um að ræða samsetningu a.m.k. tveggja tegunda ferðatengdrar þjónustu.
Í 4. gr. er skilgreint hvað telst ferðatengd þjónusta og eru það eftirtaldar fjórar tegundir:
a. Flutningur farþega.
b. Gisting, sem er ekki er i eðlilegum tengslum við flutning farþega (t.d. gisting um borð í ferju, lest eða flugi þar sem ferðast er yfir nótt) eða til búsetu.
c. Leiga bifreiða og bifhjóla sem krefjast ökuréttinda í A-flokki.
d. Önnur þjónusta við ferðamenn sem ekki er í eðlilegum tengslum við ferðatengda þjónustu skv. a-c lið. Hér getur verið um margvíslega og ólíka þjónustu að ræða s.s. ýmiskonar afþreyingu, heilsumeðferðir, aðgöngumiða á viðburði, skipulagðar ferðir og margt fleira.
Til að ferðatengd þjónusta skv. d. lið, sem er sett saman með annarri tegund ferðatengdrar þjónustu, geti myndað pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun þarf hún að nema a.m.k. 25% af heildarvirði samsettu þjónustunnar.
Sjá skilgreiningu á ferðatengdri þjónustu hér.
Pakkaferð
Í 4. gr. er hugtakið pakkaferð endurskilgreint og útvíkkað. Pakkaferð er samsetning a.m.k. tveggja mismunandi tegunda ferðatengdrar þjónustu vegna sömu ferðar sem getur verið sett saman á mismunandi hátt:
• Um hefðbundna pakkaferð getur verið að ræða.
• Pakkaferð getur verið samsetning tveggja eða fleiri tegunda ferðatengdrar þjónustu sem er keypt á sama stað
o og hún var valin áður en greitt er fyrir,
o ef hún er boðin til sölu á heildarverði,
o ef hún er auglýst sem pakkaferð eða
o ef hún er sett saman eftir að samningur er gerður (greitt er fyrri hana) í þeim tilfellum þegar seljandi veitir ferðamanni möguleika á að
velja mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu sem mynda pakkaferðina.
• Um pakkaferð getur verið að ræða ef hún er keypt af mismunandi seljendum á netinu og kaupum er lokið innan 24 klukkustunda eftir að fyrstu kaup ferðatengdrar þjónustu voru gerð. Þannig er nú ekki nauðsynlegt að um einn og sama seljanda sé að ræða heldur er hægt að kaupa pakkaferð af fleiri en einum seljanda ef upplýsingar um ferðamann eru sendar með ákveðnum hætti á milli þeirra.
Skipuleggjandi og smásali bera skv. 17. gr. sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð á framkvæmd þeirrar ferðatengdu þjónustu sem er innifalin í samningi um pakkaferð, hvort sem þjónustan er veitt af þeim eða öðrum þjónustuveitanda.
Af breyttri skilgreiningu leiðir að mun fleiri ferðir munu teljast pakkaferðir og falla sem slíkar undir gildissvið laganna en hingað til, en gildandi lög um alferðir taka að jafnaði aðeins til ferða sem hafa verið samsettar fyrir fram.
Nauðsynlegt er að ferðaþjónustuaðilar kynni sér vel hina nýju skilgreiningu á pakkaferð.
Sjá skilgreiningu á pakkaferð hér.
Samtengd ferðatilhögun
Nýmæli í lögunum er svokölluð samtengd ferðatilhögun sem skilgreind er í 4. gr. Um er að ræða a.m.k. tvenns konar ferðatengda þjónustu sem keypt er vegna sömu ferðar og gerðir eru aðskildir samningar við hvern þjónustuveitanda fyrir sig.
Þetta á við þegar seljandinn hefur milligöngu um:
• að ferðamaður velur og greiðir sérstaklega fyrir hverja tegund ferðatengdrar þjónustu við einstaka heimsókn eða samskipti á sölustað seljanda, eða
• með markvissum hætti, öflun að minnsta kosti einnar tegundar ferðatengdrar þjónustu til viðbótar frá öðrum seljanda og samningur við síðari seljanda er gerður innan 24 klukkustunda frá staðfestingu bókunar fyrstu ferðatengdu þjónustunnar.
Nauðsynlegt er að ferðaþjónustuaðilar kynni sér vel hina nýju skilgreiningu á samtengdri ferðatilhögun.
Sjá skilgreiningu á samtengdri ferðatilhögun hér.
Flæðirit sem auðveldar greiningu á hvort um samtengda ferðatilhögun er að ræða má finna hér.
Munurinn á pakkaferð og samtengdri ferðatilhögun
Munurinn á pakkaferð og samtengdri ferðatilhögun er:
• Þegar um pakkaferð er að ræða eru skipuleggjandi og/eða smásali saman og sinn í hvoru lagi ábyrgir fyrir veitingu allrar ferðatengdrar þjónustu. Hver sá sem selur ferðamanni pakkaferð er tryggingarskyldur.
• Í tilviki samtengdrar ferðatilhögunar ber hver seljandi aðeins ábyrgð á þeirri ferðatengdu þjónustu sem hann er skuldbundinn til að veita. Þannig er ekki einn aðili ábyrgur fyrir allri ferðatengdu þjónustunni.
Seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun er hins vegar tryggingarskyldur að því marki sem hann tekur við greiðslum vegna ferðarinnar.
Sjá skilgreiningu á seljanda hér.
Sjá skilgreiningu á skipuleggjanda hér.
Sjá skilgreiningu á smásala hér.
Sjá dæmi um ábyrgð og tryggingaskyldu vegna samtengdrar ferðatilhögunar hér.
Tryggingar vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar
Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er tryggingaskyld í samræmi við ákvæði VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglugerðar.
Trygging sem tryggingaskyldir aðilar leggja fram skal standa undir endurgreiðslu þeirra greiðslna sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð og samtengda ferðatilhögun sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning og til heimflutnings ferðamanns, sé farþegaflutningur hluti samnings, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala.
Skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann selur til ferðamanna. Skipuleggjandi er einnig tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann setur saman en eru seldar til ferðamanna af smásala, nema skipuleggjandinn sýni fram á að smásalinn uppfylli tryggingaskyldu fyrir þeim ferðum sem hann selur.
Sjá nánar undir liðnum "Trygging skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun" á síðu um Umsóknir vegna ferðaskrifstofuleyfis.
Aukin neytendavernd
Neytendastofa annast eftirlit með lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra, að undanskildum tryggingarákvæðunum, sem Ferðamálastofa hefur eftirlit með. Í lögunum felst verulega aukin neytendavernd og samræming á réttindum neytenda á Evrópska efnahagssvæðinu.
Upplýsingarskylda og efni samnings um pakkaferð
Lögin leggja aukna upplýsingaskyldu á seljendur pakkaferða fyrir samningsgerð, í samningi um pakkaferð og áður en pakkaferð hefst. Áður en samningur um pakkaferð er gerður verður seljandi að upplýsa ferðamanninn m.a. um að ferð sé pakkaferð og helstu réttindi ferðamannsins og að hann njóti tryggingarverndar komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljanda. Upplýsingar þessar eru staðlaðar og á sérstöku formi sem öllum ber að nota. Einnig ber seljanda að veita ferðamanni viðeigandi upplýsingar um ferðina, um seljandann og helstu skilmála, sjá hér.
Stöðluð form vegna upplýsingagjafar fyrir pakkaferðasamninga má nálgast hér.
Á seljanda hvílir sönnunarbyrði um að farið sé að kröfum laganna um upplýsingagjöf. Hafi skipuleggjandi, eða eftir atvikum smásali, ekki veitt ferðamanni upplýsingar um viðbótargjöld eða kostnað skal ferðamaður ekki bera þessi gjöld eða kostnað.
Algengt er orðið að ferðagögn séu að öllu leyti rafræn og má ætla að flestir ferðamenn óski eftir þeim upplýsingum og gögnum sem kveðið er á um í 9. gr. laganna með rafrænum hætti. Hins vegar er rétt að veita ferðamanni umbeðin gögn á pappír sé sérstaklega óskað eftir því og er þá sérstaklega horft til þess að þau gögn sem kveðið er á um í ákvæðinu eru mikilvæg ferðagögn, svo sem farmiðar og upplýsingar um brottfarartíma. (6.-9. gr.)
Breytingar á samningi um pakkaferð fyrir brottför
Ferðamanni er heimilt að framselja samning um pakkaferð og er nú sérstaklega tekið fram að tilkynning, á varanlegum miðli um framsal á samningi um pakkaferð, sem er send eigi síðar en sjö dögum áður en ferð hefst telst alltaf vera með hæfilegum fyrirvara. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna framseljanda um raunverulegan kostnað vegna framsalsins, sem skal vera hæfilegur og sanngjarn, og leggja fram gögn því til staðfestingar. Skipuleggjanda eða smásala er aðeins heimilt að krefjast greiðslu sem svarar til raunverulegs kostnaðar sem hann verður fyrir vegna framsalsins. (11. gr.)
Í lögunum felst sú breyting að verðhækkanir á pakkaferð eru aðeins heimilar vegna breytinga á:
• verði farþegaflutninga sem má rekja til breytinga á eldsneytisverðir eða öðrum gjöldum
• sköttum eða gjöldum sem lögð eru á ferðatengda þjónustu sem er innifalin í ferðinni
• gengi erlendra gjaldmiðla sem hafa áhrif á verð.
Hækkun er aðeins heimil ef ferðamanni er í samningi um pakkaferð gefinn sambærilegur réttur til verðlækkunar. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna ferðamanni um allar verðhækkanir með skýrum og greinargóðum hætti, ásamt rökstuðningi fyrir hækkuninni og útreikningi, á varanlegum miðli, eigi síðar en 20 dögum áður en ferð hefst. Í þessu felst að síðustu 20 daga áður en ferð hefst er óheimilt að hækka verðið. (12. gr.)
Seljandi getur ekki breytt pakkaferð nema heimild til breytinga komi fram í samningi. Geri seljandi breytingu skal hann án tafar tilkynna ferðamanni, á varanlegum miðli, um fyrirhugaðar breytingar og áhrif þeirra á verð pakkaferðar, frest sem ferðamaður hefur til að svara og hvaða afleiðingar það hefur svari ferðamaður ekki innan frestsins.
Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, sbr. 14. gr., ef breytingin felur í sér verulegar breytingar á megineinkennum ferðatengdrar þjónustu, ef skipuleggjandi getur ekki uppfyllt sérkröfur ferðmanns sem skipuleggjandi hefur samþykkt eða ef verð pakkaferðar er hækkað um meira en 8%.
Afpanti ferðamaður pakkaferð á grundvelli framangreindra breytinga á hann rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga eða að þiggja í staðinn aðra pakkaferð sambærilega að gæðum eða betri. Ef breytingin leiðir til þess að pakkaferðin verði lakari að gæðum á ferðamaður rétt á verðlækkun. Verði ferðin dýrari greiðir ferðamaður mismuninn. (13. gr.)
Afpöntun og aflýsing pakkaferðar
Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, áður en ferðin hefst. Heimilt er að tilgreina í samningi um pakkaferð sanngjarna þóknun sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Sé ekki kveðið á um þetta í samningi skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Ferðamanni ber ekki að greiða þóknun ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar, flutning farþega til ákvörðunarstaðar eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr. laganna. Seljanda ber að endurgreiða ferðamanni innan 14 daga frá afpöntun. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða. (15. gr.)
Seljandi getur skv. 16. gr. aflýst pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu til ferðamanns og án greiðslu frekari skaðabóta
• Í fyrsta lagi ef fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sá lágmarksfjöldi sem tilgreindur er í samningi og skipuleggjandi tilkynnir ferðamanni
um aflýsingu ferðarinnar innan þess frests sem tilgreindur er. Í ákvæðinu er þó sett tímamörk fyrir tilkynninguna sem taka mið af lengd
ferðarinnar.
• Í öðru lagi ef skipuleggjandi eða smásali getur ekki efnt samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hann tilkynnir
ferðamanninum um án ótilhlýðilegs dráttar fyrir upphaf ferðarinnar. Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem
honum ber innan 14 daga frá aflýsingu.
Skipuleggjandi og smásali bera, skv. 17. gr., sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð á framkvæmd þeirrar ferðatengdu þjónustu sem er innifalin í samningi um pakkaferð, hvort sem þjónustan er veitt af þeim eða öðrum þjónustuveitanda. Í því felst aukin neytendavernd og skýrleiki og ferðamenn geta þá hvort sem er leitað til skipuleggjanda eða smásala beri eitthvað útaf.
Skipuleggjandi eða smásali fá hæfilegan frest til að bæta úr vanefndum sem eru á framkvæmd samnings um pakkaferð. Ef úrbætur leiða til þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint er í samningu um pakkaferð á ferðamaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt var.
Ef skipuleggjandi eða smásali ræður ekki bót á vanefndum innan hæfilegs frests eða neitar að ráða bót á vanefndum getur ferðamaður sjálfur ráðið bót á þeim og krafið skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar vegna þess. Ferðamaður getur ekki hafnað úrbótum skipuleggjanda eða smásala nema þær séu lakari að gæðum en það sem um var samið eða ef afsláttur er ófullnægjandi. (18. gr.)
Skipuleggjanda eða smásala er skylt, skv. 19. gr., að sjá fyrir heimflutningi í þeim tilvikum sem ferðamaður riftir samningi með lögmætum hætti þegar um verulega vanefnd er að ræða, sbr. 20. gr. laganna. Jafnframt er mælt fyrir um skyldu skipuleggjanda eða smásala til að veita ferðamanni aðstoð í þeim tilvikum sem hann óskar sérstaklega eftir því og jafnframt þegar röskun verður á ferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.
Skylda skipuleggjanda eða smásala til að sjá ferðamanni fyrir gistingu í þeim tilvikum sem heimflutningur ferðamanns tefst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna takmarkast við þrjár nætur. Takmörkun á gistingu í 3 nætur á ekki við um viðkvæma hópa (fatlaða eða hreyfihamlaða og aðstoðarmenn þeirra, þungaðar konur, fylgdarlaus ólögráða börn eða þá sem þarfnast sérstakrar læknisaðstoðar) sem eðlilegt er að skipuleggjandi eða smásali beri ríkari skyldur til að aðstoða, að því gefnu að hann hafi verið upplýstur um ástand þeirra og sérstakar þarfir áður en ferð hófst.
Ferðamanni er heimilt að rifta samningi um pakkaferð ef verulegar vanefndir verða á framkvæmd samningsins. Ferðamaður á þá jafnframt rétt á afslætti af verði ferðarinnar sem svarar til þess hluta af ferðatengdri þjónustu sem ekki er veitt eða er verulega ábótavant. Afslátturinn skal þá vera í samræmi við umfang þeirra vanefnda sem voru á framkvæmd samnings. (20. og 21. gr.)
Verði ferðamaður fyrir tjóni vegna verulegra vanefnda á framkvæmd pakkaferðar á hann einnig rétt á skaðabótum vegna hvers kyns tjóns sem skipuleggjandi eða smásali ber ábyrgð á og rekja má til vanefnda hans.
Skipuleggjandi eða smásali getur verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að vanefnd á framkvæmd samnings um pakkaferð sé
• sök ferðamanns,
• sök þriðja aðila sem ekki tengist þeirri þjónustu sem samið var um og af ófyrirsjáanlegum eða óviðráðanlegum ástæðum,
• eða ef vanefnd er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.
Í síðastnefnda tilvikinu er um svokallaðar „force majeure“ aðstæður að ræða. (22. gr).
Upplýsingaskylda vegna samtengdrar ferðatilhögunar
Seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun skal veita ferðamanni staðlaðar upplýsingar um að:
• hann njóti ekki þeirra réttinda sem lög kveða á um að gildi aðeins um pakkaferðir,
• hver þjónustuveitandi sé aðeins ábyrgur fyrir framkvæmd sinnar þjónustu samkvæmt samningi og
• að hann njóti tryggingarverndar skv. 24. gr. laganna, tryggingaverndin er þó takmarkaðri en tryggingavernd vegna pakkaferða. (23. gr.)
Stöðluð form fyrir upplýsingagjöf vegna samtengdrar ferðatilhögunar má nálgast hér.
Ýmis ákvæði
Seljandi ber skv. 28. gr. ábyrgð á hvers konar skekkjum eða tæknilegum vanköntum í bókunarkerfi hans og eftir atvikum skekkjum í bókunarferlinu. Þó ber seljandi ekki ábyrgð ef skekkjur í bókun má rekja til ferðamanns eða þær verða vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.
Ef skipuleggjandi er með staðfestu utan EES-svæðisins ber smásali, skv. 29. gr., skyldur skipuleggjanda nema hann sýni sérstaklega fram á að skipuleggjandi fullnægi ákvæðum V. og VII. kafla laganna um framkvæmd pakkaferðar og um tryggingarskyldu.
Eftirlit og viðurlög
Eftirlit, viðurlög og úrræði Neytendastofu
Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta gegn ákvæðum I.-VI. og VIII. kafla laganna, reglum settum á grundvelli þeirra eða ákvörðunum Neytendastofu. Stjórnvaldssektir geta numið frá 100 þús. kr. til 20. millj. kr.
Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt lögum þessum getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan 14 daga frá því að ákvörðunin er tilkynnt. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frá því að fresturinn er liðinn. Málskot til áfrýjunarnefndar frestar dagsektum þar til niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. (32. gr.)
Eftirlit viðurlög og úrræði Ferðamálastofu
Ferðamálastofa hefur eftirlit með ákvæðum laganna sem snúa að tryggingarskyldu.
Nýmæli í lögunum er heimild Ferðamálastofu til að leggja á dagsektir ef ekki er farið að fyrirmælum stofnunarinnar á grundvelli þeirra.
Dagsektir eru lagðar á aðila þar til bætt hefur verið úr þeim atriðum sem beiting dagsekta grundvallast á. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
Ákvörðun Ferðamálstofu um dagsektir má skjóta til ráðherra innan 14 daga frá því hún er tilkynnt. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frá því að frestur er liðinn.
Öðrum ákvörðunum Ferðamálastofu á grundvelli VII. kafla laganna má skjóta til ráðherra inna fjögurra vikna frá því að hún er tilkynnt, málskot til ráðherra frestar ekki gildistöku ákvörðunar.