Fara í efni

Tækifæri ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi

Þann 2. maí 2018 stóð Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann fyrir morgunfundi um stöðu ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi. Með fundinum vildu Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn leggja sitt að mörkum til að vekja umræðu og gera íslenska ferðaþjónustu meðvitaða um þær öru tæknibreytingar sem eru að verða í heimi ferðaþjónustunnar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Á morgunfundinum tók til máls Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála. Hún gerði að umtalsefni í ræðu sinni vinsældir Fjaðársgljúfurs eftir myndatöku Justin Biebers á svæðinu ásamt því að ráðherrann benti á samkeppnisforskot sem hlýst af styrkingu fjarskiptainnviða sem miðar að því að bjóða uppá háhraða internet um allt land. Það þyki ferðamönnum einstakt að hægt sé að keyra um afskekkt sveitahéruð en samt verið í góðu netsambandi allan tímann.

Bárður Örn Gunnarsson 

Næstur tók til máls Bárður Örn Gunnarsson eigandi Svartatinds og forstjóri Lava Centre. Yfirskrift erindis hans var Íslensk ferðaþjónusta og fjórða iðnbyltingin. Þar fjallaði Bárður um þær gríðarlegu tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum og benti á að allar þessar tækniframfarir byggi í raun á gögnum og gagnasöfnum. Hann lagði áherslu á hversu mikilvægt væri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að nýta sér gagnasöfnin sem til staðar eru til að ná fram betri árangri og sýndi fram á hvar og hvernig fyrirtæki gætu haft not fyrir slík gagnasöfn sér til framdráttar.

Soffía Kristín Þórðardóttir

Soffía Kristín Þórðardóttir forstöðumaður Ferðalausna Origo hélt erindi undir yfirskriftinni Verðmætir ferðamenn eru út að aka. Þar sagði hún frá Caren sem er kerfi sem þau hafa verið að þróa. Caren er bílaleigukerfi, ferðasmiður og stafrænn leiðsögumaður fyrir ferðamenn sem ferðast á eigin vegum. Jafnframt ræddi Soffía um harðar samkeppnisaðstæður í ferðaþjónustu og benti á að það væru þau fyrirtæki sem hafa gert þjónustu sína sem einfaldasta, aðgengilegasta og þægilegasta í notkun sem munu bera höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki í þessari samkeppni. Einnig vakti Soffía athygli á því að það væri mikilvægt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að leita leiða til að breikka sína tekjugrunna og að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum sem við sjáum ekki endilega fyrir í dag.

Jón Þór Gunnarsson

jónþór

Jón Þór Gunnarsson forstjóri Arctic Adventures sagði frá því hvað Arctic Adventures og afþreyingariðnaðurinn á Íslandi hefur verið að gera síðustu misseri. Hann benti á mikla nýsköpun sem hefur átt sér stað innan fyrirtækisins og greindi frá að af níu vinsælustu vörum fyrirtækisins þá voru átta ekki til árið 2015. Einnig ræddi Jón um OTA (Online Travel Agents) kostnað og hversu mikilvægt það er að fylgjast vel með slíkum kostnaði og að hann hafi orðið var við að mörg fyrirtæki hefðu ekki yfirsýn yfir þann kostnaðarlið í sínum rekstri. Jón lagði líka mikla áherslu á viðskiptasambandið við viðskiptavininn og hversu mikilvægt það er að geta talað við hann, sambandið glatist þegar verslað er í gegnum þriðja aðila enda leggur Arctic Adventures mikla áherslu á að sem flestir versli vöruna beint af þeim en ekki í gegnum þriðja aðila.

Doug Lansky

Að lokum tók alþjóðlegi ferðaráðgjafinn Doug Lansky til máls. Erindi hans bar yfirheitið Smart strategies for Iceland tourism. Í upphafi benti Lansky á þá staðreynd að hann hafi aldrei orðið vitni að annari eins aukningu í komu ferðamanna til nokkurs lands og að svona aukning væri fordæmalaus með öllu. Einnig vakti Lansky athygli á hugtakinu overtourism í þeim skilningi að á sumum stöðum eru einfaldlega of margir ferðamenn og að slíkt eyðileggi upplifunina fyrir öllum. Hann benti hins vegar á að Ísland væri ekki að kljást við overtourism nema á völdum stöðum á Suðurlandi og að hægt væri að koma í veg fyrir þetta með betri dreifingu ferðamanna um landið. Hins vegar væri slíkt erfitt þar sem allir ferðamenn lenda í Keflavík og því mikilvægt að opna aðrar gáttir.

Á meðan á dvöl Lansky stóð ferðaðist hann gullna hringinn og gerði Geysi að umtalsefni sínu. Hann segir frá því að svæðið hafi virkað fullt af ferðamönnum og eftir talningu hafi hann komist að því að þarna væru um 100 manns, hann gerði jafnan ráð fyrir því að hver ferðamaður myndi stoppa í um 15 mínútur. Hann mælti með því að einungis um 4000 ferðamenn fengju að heimsækja Geysi á hverjum degi. Þetta myndi hafa í för með sér aukna dreifingu ferðamanna, aukna ánægju og betra umtal. Hann gekk svo ennþá lengra og benti á að í raun ætti að takmarka fjölda ferðamanna sem kæmist til Íslands, það myndi auka virðingu landsins án þess að hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins.

Kynningar tæknifyrirtækja

Á morgunfundinum voru einnig nokkur tæknifyrirtæki í ferðaþjónustu sem kynntu starfsemi sína. Þau voru, Circular Solutions, Hótelráðgjöf, Smartguide, Travelade, TripCreator, Borgun, Origo og GoDoFerðavefir.is

Efni frá fundinum