Tækifæri ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi - DL

Síðastur á mælendaskrá var alþjóðlegi ferðaráðgjafinn Doug Lansky. Erindi hans bar yfirheitið Smart strategies for Iceland tourism. Í upphafi benti Lansky á þá staðreynd að hann hafi aldrei orðið vitni að annari eins aukningu í komu ferðamanna til nokkurs lands og að svona aukning væri fordæmalaus með öllu. Einnig vakti Lansky athygli á hugtakinu overtourism í þeim skilningi að á sumum stöðum eru einfaldlega of margir ferðamenn og að slíkt eyðileggi upplifunina fyrir öllum. Hann benti hins vegar á að Ísland væri ekki að kljást við overtourism nema á völdum stöðum á Suðurlandi og að hægt væri að koma í veg fyrir þetta með betri dreifingu ferðamanna um landið. Hins vegar væri slíkt erfitt þar sem allir ferðamenn lenda í Keflavík og því mikilvægt að opna aðrar gáttir.

Á meðan á dvöl Lansky stóð ferðaðist hann gullna hringinn og gerði Geysi að umtalsefni sínu. Hann segir frá því að svæðið hafi virkað fullt af ferðamönnum og eftir talningu hafi hann komist að því að þarna væru um 100 manns, hann gerði jafnan ráð fyrir því að hver ferðamaður myndi stoppa í um 15 mínútur. Hann mælti með því að einungis um 4000 ferðamenn fengju að heimsækja Geysi á hverjum degi. Þetta myndi hafa í för með sér aukna dreifingu ferðamanna, aukna ánægju og betra umtal. Hann gekk svo ennþá lengra og benti á að í raun ætti að takmarka fjölda ferðamanna sem kæmist til Íslands, það myndi auka virðingu landsins án þess að hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins.