Fara í efni

Ferðamálaráðstefnan 2006

36. Ferðamálaráðstefnan
haldin á Hótel Loftleiðum í Reykjavík, 16. nóvember 2006

(Ath. að glærukynningar eru á PDF-formi)

  • Setning, Magnús Oddsson, ferðamálastjóri
  • Ávarp samgönguráðherra , Sturla Böðvarsson Glærur 
  • Niðurstöður úr gæðakönnun meðal innlendra ferðamanna, Oddný Óladóttir, verkefnastjóri Ferðamálastofu Glærukynning  - Könnunnin í heild sinni (PDF 2 Mb)
  • Niðurstöður úr gæðakönnun meðal erlendra ferðamanna, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF Glærukynning  - Könnunin í heild sinni (PDF 1 Mb)
  • Robert Dean Felch, eigandi og framkvæmdastjóri Iceland Saga Travel (USA) Glærukynning
  • Framkvæmd Ferðamálaáætlunar 2006-2015,  Magnús Oddsson, ferðamálastjóri Glærukynning
       
  • Samantekt ráðstefnunnar - Guðrún Helgadóttir Glærukynning

 

Setning - Magnús Oddsson ferðamálastjóri

 Samgönguráðherra, góðir ráðstefnugestir.

Ég býð ykkur öll innilega velkomin til  Ferðamálaráðstefnunnar 2006.

Þetta er fyrsta ferðamálaráðstefnan sem haldin er eftir gildistöku nýrra laga um skipan ferðamála og ber eðlilega nokkurn keim af því. Ferðamálaráð Íslands stóð fyrir Ferðamálaráðstefnunum frá 1965 til 2005 eða í 40 ár. Í áratugi voru þessar ráðstefnur Ferðsamálaráðs nokkurs konar ársfundir og uppskeruhátíðir  ferðþjónustufólks enda einu ráðstefnur og samkomur  um ferðaþjónustu í lengri tíma.  Ráðstefnurnar hafa verið  tveggja daga þar sem mörgum þáttum var í reynd blandað saman; faglegri umræðu, kynningu á nýjungum, nokkurs konar árshátíð greinarinnar og fleiru.

En tímarnir hafa eðlilega breyst og með árunum hefur hlutverk Ferðamálaráðstefnunnar samhliða  breyst frá þessu upprunalega hlutverki. Ýmis hagsmunasamtök hafa verið stofnuð sem halda sína ársfundi. Þá eru haldnar uppskeruhátiðir ferðaþjónustufólks víða og varla líður sú vika að ekki sé efnt til ráðstefnu eða fundar um málefni tengd ferðaþjónustunni og alls konar kynningarfunda vegna nýjunga.

Því er það ekki óeðlilegt að brugðist sé við þessum breytingum eins og öðrum af hálfu okkar.
Því höldum við nú Ferðamálaráðstefnuna 2006 sem eins dags fagráðstefnu þar sem  meginviðfangsefnið er eitt og að þessu sinni er það gæði í íslenskri ferðaþjónustu.

Og nú komum við saman hér til Ferðamálaráðstefnunnar í lok einhvers umsvifamesta og viðburðarríkasta árs í íslenskri ferðaþjónustu. Ekki aðeins eru umsvifin meiri en nokkru sinni fyrr og ýmis merki um verulega  betri afkomu en áður heldur hefur útrás íslenskra ferðaþjónustufyritækja og aukin þátttaka í ferðaþjónusturekstri erlendis  aukist gifurlega á þessu ári.

Loks má nefna að á árinu hefur orðið mikil breyting á eignarhaldi á stærstu fyrirtækjum í íslenskri ferðaþjónustu sem sýnir ásamt því sem áður nefndi þá deiglu sem þessi atvinnugrein er í.
Í stöðugri og jákvæðri mótun til framtíðar.

Eins og áður sagði tóku ný lög gildi um áramót og þar er Ferðamálastofu falin framkvæmd Ferðamálastefnu 2006-2015. Samkvæmt þeirri stefnu skal byggja þróun greinarinnar á þessu 10 ára tímabili á þremur grunnstólpum. Náttúrunni, menningunni og því sem mun skipta sköpum um okkar samkeppnishæfni : Fagmennsku eða gæðum.

Því verður hér í dag farið yfir gæðamál íslenskrar ferðaþjónustu í sem víðustu skilningi. Ýmsum spurningum varpað fram og einhverjum þeirra svarað. Í aðalatriðum er dagskráin þannig  að  í upphafi mun samgönguráðherra Sturla Böðvarsson flytja okkur ávarp. Þetta verður í áttunda skiptið í röð  sem hann ávarpar Ferðamálaráðstefnuna sem ráðherra ferðamála og hefur enginn ráðherra ferðamála átt  lengri samleið með okkur á  ferðamálaráðstefnum en hann. Og samleiðin er eðlilega ekki bara í árum heldur einnig árangri. Á þessum árum hafa stjórnvöld skapað greininni þá innviði, laga- og resktrarumhverfi, sem hún hefur síðan nýtt tl mesta vaxtar- þróunar- og framfaraskeiðs í íslenskri ferðaþjónustu.

Að loknu ávarpi ráðherra verða kynntar niðurstöður úr könnunum,þar sem könnuð voru gæði í íslenskri ferðaþjónustu bæði meðal innlendra og erlendra ferðamanna  nú í ár og  fjallað um niðurstöðurnar í pallborði. Hér fær greinin sína einkunn frá neytendum og fróðlegt að sjá niðurstöðurnar og viðbrögðin við þeim.

Eftir  hádegið  mun síðan tveir  frummælendur fara yfir með okkur hvernig gæði okkar koma þeirra viðskiptavinum fyrir sjónir og umræður um þeirra reynslu ræddar í pallborði.

Í lok dags verður farið yfir verkefnastöðu Ferðamálaáætlunarinnar. Hvaða verkefni eru þar efst á baugi, hverjum er lokið og hver er staða annarra. Þá verða einnig í dag afhent tvenn verðlaun ferðaþjónustunnar og loks býður samgönguráðherra til móttöku  áður en við höldum heim á leið. Það er von mín og vissa að við eigum eftir að eiga hér áhugaverðan og upplýsandi dag.

Það er nú einu sinni þannig að hversu einstök sem okkar náttúra er og hversu einstök okkar saga og menning er þá munum við aldrei hér til framtíðar byggja upp atvinnugrein sem er samkeppnishæf  í vaxandi samkeppni nema aðaláherslan verði lög á þriðju grunnstoðina í Ferðamálaáætluninni til næstu 10 ára: gæðin, fagmennskuna. Og þá er ég ekki  eingönguað vísa til  gæða í einstökum þáttum innviðanna, flutningum, gistingu, veitingum og afþreyingu sem þarf að tryggja heldur er þetta allt saman ein keðja. Styrkur og samfella þjónustukeðju íslenskrar ferðaþjónustu mun skipta sköpum í árangri okkar við að byggja hér upp samkeppnihæfari og arðbærari atvinnugrein þar sem að mínu mati hinar grunnstoðirnar sem við ætlum að byggja á eru eðlis sins vegna  samkeppnishæfar þ.e. náttúran og menningin. En samkepnishæf heild ; vara og þjónusta byggð á stoðunum þremur verður aldrei nema  allir hlekkir keðjunnar haldi.  Því  er dagurinn helgaður  gæðamálum í ferðaþjónustu.

Um leið og ég segi Ferðamálaráðstefnuna 2006 setta þá bið ég Svanhildi Konráðsdóttur forstöðumann menningar- og ferðamálasviðs Reykajvikurborgar að taka að sér ráðstefnustjórn

Ávarp samgönguráðherra - Sturla Böðvarsson

Ráðstefnustjóri, ferðamálastjóri, ágætu ráðstefnugestir.

Hvaða þýðingu hefur koma 400 þúsund erlendra ferðamanna á ári til Íslands? Hvaða þýðingu hefur fjárframlag stjórnvalda og ferðaþjónustunnar í markaðsstarf á erlendri grund? Hvaða þýðingu hefur áratuga starf okkar og strit í ferðamálum haft fyrir atvinnulíf þjóðarinnar?

Við vitum í stórum dráttum svörin við þessum spurningum. Ferðaþjónustan skapar þúsundir ársverka og aflar um tólf prósenta af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan er í vexti og við vitum að erlendir ferðamenn koma hingað af því að við státum af áhugaverðri náttúru, menningu og sögu og vegna þess að okkur hefur tekist að byggja upp trúverðuega mynd af Íslandi.

Við þekkjum þessar staðreyndir, við erum stolt af þeim, en ferðamálaráðstefnan er áningarstaður og sjónarhóll til framtíðar. Hér hljótum við því að spyrja nærgöngulla spurninga:
Hvernig stöndum við faglega? Kunnum við til verka? Hvaða kröfur gerum við til starfsmanna í hinum ólíku greinum ferðaþjónustunnar? Hvaða kröfur gerum við til menntakerfisins þegar ferðaþjónustan er annars vegar? Hvernig þjónustu fá ferðamenn við komuna í Leifsstöð, til Seyðisfjarðar eða til Reykjavíkurhafnar? Hvernig er tekið á móti ferðamönnum á gististöðum? Hvaða upplýsingar eigum við handa þeim? Hvernig sinnum við þeim á veitingastöðum? Hvaða mynd hafa þeir af landi og þjóð þegar þeir snúa heim aftur?

Við vitum eftir kannanir að það jákvæðasta sem ferðamenn upplifa á Íslandi er landið sjálft og náttúran og í öðru sæti er fólkið og gestrisnin. Það er okkur ákveðin leiðbeining um að við séum á réttri leið. En það þýðir ekki að við getum lagt hendur í skaut og sagt að þetta sé allt harla gott. Við eigum að leita framfara og nýjunga í þjónustunni við gesti okkar. Við eigum að skilja þannig við þá að eftir fyrstu heimsókn hingað hafi þeir áhuga á annarri heimsókn. Og ef upplifunin hér er þeim einhvers virði er meira en líklegt að þeir taki fleiri með sér.

Hvernig standa stjórnvöld sig í stykkinu þegar ferðaþjónustan er annars vegar? Þar eru líka ýmsar spurningar á ferðinni. Er rekstrar- og lagaumhverfi ferðaþjónustunnar viðunandi? Er hægt að lækka verðið? Er aðstaða á fjölförnustu ferðamannastöðunum í lagi? Fá fagstéttir í ferðaþjónustu nægilega góða menntun? Veitum við nægu fjármagni til markaðsmála? Er stefna okkar í umhverfismálum líkleg til að auka áhuga okkar og annarra á náttúru landsins? Munu hvalveiðar skaða ferðaþjónustuna?

Ég ætla að staldra við nokkar slíkar spurningar og byrja á verðlagsmálum. Talsmenn ferðaþjónustunnar hafa lengi barist fyrir lækkuðu matvælaverði. Ríkisstjórnin ákvað á dögunum að lækka virðisaukaskatt á matvælum, veitingaþjónustu og hótelgistingu frá 1. mars næstkomandi. Einnig lækkar virðisaukaskattur á veggjaldi Hvalfjarðarganga. Talið er að verðlag matvæla lækki um 16% að meðaltali við þessar aðgerðir. Samtök ferðaþjónustunnar hafa fagnað þessu framtaki stjórnvalda og mun verða fylgst náið með því að þessar lækkanir birtist í verðlagi í ferðaþjónustu sem í öðrum greinum þegar lækkunin tekur gildi. Þetta er því vissulega í þágu erlendra ferðamanna rétt eins og landsmanna allra og ég bind vonir við að þetta geti ferðaþjónustan notfært sér í markaðssetningu.  Þessi lækkun er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er markmiðið að skapa sambærileg skilyrði og eru í samkeppnislöndum okkar
Iceland Naturally hóf í haust göngu sína í Evrópu. Í framhaldi af góðum árangri verkefnisins í Ameríku tók ég ákvörðun um að hrinda sams konar verkefni af stað í Evrópu. Áherslurnar eru á Bretland, Þýskaland og Frakkland og hefur verkefninu verið formlega hleypt af stað í þessum löndum, - nú síðast í Frakklandi. Könnun á árangri Iceland Naturally í Bandaríkjunum sýnir að þeim fjölgar sem hafa áhuga á að ferðast til Íslands og þeim fækkar sem telja ólíklegt að þeir muni ferðast til landsins. Þeim fækkar sem tengja aðeins ís og snjó við landið og sama skapi fjölgar þeim sem finnst landið áhugavert vegna náttúru þess og menningar. Það hefur líka gefið góða raun að kynna framleiðslu, þjónustu og menningarstarfsemi ekki síður en landið sjálft.

Um það bil 190 erlend skemmtiferðaskip komu til landsins í sumar. Skipin hafa flest viðkomu í Reykjavíkurhöfn og voru farþegarnir þar 55 þúsund. Hér er hver koma skips til hafnar talin einu sinni; sum skipin koma oftar en einu sinni og sum til fleiri en einnar hafnar. Gera má ráð fyrir að tekjur vegna hafna- og vitagjalda séu ekki undir 130-150 milljónum króna og ferðamenn, sem í land koma, eru taldir verja 300-500 milljónum króna í vörur og þjónustu.


Ég tel mjög mikilvægt að þessi mikilvæga viðbót við íslenska ferðaþjónustu fái þann sess sem henni ber og tel nauðsynlegt að um leið og ráðstefnu- og tónlistarhúsið er reist við höfnina í Reykjavík verði hugað að bættri aðstöðu skemmtiferðaskipa, gerður nýr viðlegukantur og hægt að veita farþegunum þjónustu innandyra.  Það yrði líka einstakt fyrir farþega skipanna að stíga á land í hjarta borgarinnar þar sem þessi einstaka bygging rís á aðra hönd og Esjan á hina.

Framlög til samgöngumála, fjarskipta og ferðamála hafa vaxið hröðum skrefum síðustu ár. Nýtt ferðamálaráð hefur nýlega beint þeim tillögum til samgönguráðherra að auknum fjármunum af hálfu stjórnvalda verði varið til markaðssóknar í ferðaþjónustu. Ég hef sett af stað vinnu við að meta tillögu ráðsins og mun vinna að því að markaðsaðgerðir stjórnvalda og atvinnugreinarinnar verði skilgreindar að nýju.  Þær eiga að vera í stöðugri endurskoðun með árangursmat í huga. Ábyrgð okkar er að nýta féð sem best og ég er viss um að sameiginlega finnum við ávallt bestu leiðina til þess.  Á þessu ári munum við hafa til ráðstöfunar rúmlega 300 milljónir til markaðsaðgerða.

Góð fjarskipti og aðgangur að netinu á háhraða skiptir miklu fyrir ferðaþjónustu. Nú er lokið forvali vegna útboðs fyrir gsm-væðingu hringvegarins og fjölfarinna fjallvega. Markmið þessa áfanga verkefnisins er að gsm-farsímaþjónustan nái yfir allan hringveginn þar með taldar Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Breiðdalsheiði.  Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjallsveg, Fagradal og Fjarðarheiði eru einnig í þessum áfanga. Alls eru þetta um 500 km vegalengd og er búið að kortleggja hvar þörf er á sendum. Lengsti kaflinn á hringveginum þar sem gsm-samband er ekki í dag er um Mývatnsöræfi, um 80 km langur. Jafnframt þessu er ætlunin að bæta farsímaþjónustu á Barðaströnd. Settur verður upp sendir í Flatey á Breiðafirði, en hann mun ná til nærri því helmings leiðarinnar um Barðaströnd þar sem farsímaþjónustu nýtur ekki við í dag. Skiptir sú aðgerð miklu máli fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum og eykur öryggi vegfarenda sem fara þá leið sem er ekki talin með betri vegum landsins.
Ferðamálaráð fékk, eins og ykkur er kunnugt, algjörlega nýtt hlutverk með nýjum lögum. Fjölgað var í ráðinu úr 7 í 10 fulltrúa og er Útflutningsráð nú aðili að ráðinu. Ég bind miklar vonir við störf Ferðamálaráðs sem fór kannski rólega af stað en nú komið á fulla ferð. Sýnist mér ráðið eigi aðeins eftir að auka hraðann eftir því sem líður á. Hlutverk þess er að leggja fyrir samgönguráðherra tillögur um markaðs- og kynningarmál og vera til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ég legg ríka áherslu á það hversu mikilvægt verkefni hins nýja Ferðamálaráðs er.
Þá tóku gildi ný lög um skipan ferðamála um síðustu áramót og einnig hófst framkvæmd ferðamálaáætlunar til ársins 2015 á þessu ári og hefur samgönguráðuneytið þegar sett töluverða fjármuni í framkvæmd hennar. Til dæmis hefur ráðuneytið samið við Hagstofu Íslands um gerð hliðarreikninga fyrir ferðaþjónustu en þeir hafa lengi verið baráttumál Samtaka ferðaþjónustunnar. Mun með þeim fást skýrari og betri mynd af stöðu og mikilvægi ferðaþjónustunnar sem nýtast mun stjórnvöldum og einkaaðilum til markvissari ákvörðunartöku. Við undirbúning þessara hliðarreikninga er gert ráð fyrir ferðavenjukönnun, bæði til að afla upplýsinga vegna hliðarreikninganna og til að fullnægja kröfum Eurostat um slíka könnun.

Samgönguráðuneytið vinnur að því að draga úr skriffinnsku og eru nú tilbúin drög að lagafrumvarpi sem miða að einföldun allra leyfisveitinga fyrir gistinga- og veitingastaði. Þar er til dæmis lagt til að veitingaleyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi verði sameinuð í eitt rekstrarleyfi og að lögreglustjórar sjái framvegis um leyfisveitingarnar. Um leið er gert ráð fyrir að allt þetta umsóknarferli verði einfaldað og að endurnýjun leyfa verði sömuleiðis einföld, ekki síst fyrir þá sem eru með alla hluti í lagi. Fjölmargar og mjög ítarlegar umsagnir um frumvarpsdrögin hafa borist ráðuneytinu og er nú unnið úr umsögnunum. Bind ég vonir við að leiða megi þetta mál til lykta á Alþingi fyrir vorið.

Vestnorrænt ferðamálasamstarf hefur verið tekið til endurskoðunar í því skyni að einfalda starfið og marka skýrari stefnu og verður SAMIK, FITUR og Vestnorræna ferðamálaráðinu slegið saman. Áfram verður úthlutað styrkjum til ferðaþjónustuverkefna sem efla ferðaþjónustu innan vestnorræna svæðisins og Vest Norden ferðakaupstefnan mun væntanlega halda áfram í svipaðri mynd og verið hefur. Þetta verður þó allt til skoðunar enda markmiðið að starfið verði sveigjanlegt og nýtist ferðaþjónustunni sem allra best.

Þegar breytingar urðu á áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja í haust var ljóst að slíku flugi yrði varla haldið uppi án aðkomu ríkisvaldsins.  Því ákvað ég að leita samninga til skamms tíma um flug til Eyja og í framhaldinu að bjóða út flugleiðina með langtímasamning í huga. Vegagerðin, fyrir hönd samgönguráðuneytis, gerði síðan samning við Flugfélag Íslands um flug til Eyja.  Kostnaður ríkisins við samninginn nemur um 58 milljónum króna.  Með þessari ákvörðun hefur verið aukið enn við styrki ríkisins við almenningssamgöngur.  Munu þessir styrkir nema nærri 750 milljónum vegna sérleyfa, ferja og áætlunarflugs.  Þetta er mikilvægur stuðningur við farþegaflutninga í landinu og óbeinn styrkur við fyrirtæki í ferðaþjónustu.  Því betri sem samgöngur eru því meiri ferðalög.
Ágætu fundarmenn.  Ég vil sérstaklega þakka Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtökum Íslands fyrir frábært samstarf við ráðuneytið.  Jafnframt óska ég starfsfólki Ferðamálastofu velfarnaðar í mikilvægum störfum.

Ekki þarf að upplýsa þessa samkomu um að sjávarútvegsráðherra ákvað um miðjan október að heimila takmarkaðar hvalveiðar á þessu fiskveiðiári. Talsmenn ferðaþjónustufyrirtækja, ekki síst hvalaskoðunarfyrirtækja, hafa lýst áhyggjum vegna þessa. Ég er þess vel meðvitaður að hvalveiðar Íslendinga gætu hugsanlega dregið úr áhuga sumra á Íslandsferðum. Ég er hins vegar sannfærður um það að svo sterk atvinnugrein, sem ferðaþjónustan er orðin, muni standa það af sér, hún hefur alla burði til að halda áfram nauðsynlegri markaðssókn. Fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að snúa bökum saman og herða sóknina – sókn er alltaf besta vörnin.

Af þessari yfirferð má sjá að það er mikið að gerast í ferðamálunum. Í samgönguráðuneytinu er leitast við að gera starfsumhverfi ferðaþjónustunnar þannig að hún geti haldið áfram að eflast og dafna. Í atvinnugreininni er duglegt fólk með háleit markmið sem vill gera betur í dag en í gær. Til að halda ferðaþjónustunni í vexti þurfum við á öllum sviðum að fylgjast með þróuninni, sýna frumkvæði og sækja stöðugt á ný mið.

Við þurfum að skara framúr og sýna að hér sé áhugavert þjóðfélag með áhugaverða menningu og viðurgjörning eins og hann gerist bestur. Um leið og við búum okkur þannig undir að sinna ferðamönnum framtíðarinnar, íslenskum sem erlendum, þurfum við líka að gera okkur grein fyrir hversu mikið álag landið okkar ber þegar ferðamenn eru annars vegar. Hvað er æskilegt í þeim efnum og hvernig á að stýra álaginu? Fjölgun ferðamanna með auknu álagi á náttúru landsins á ekki að vera markmið heldur á markmiðið að vera auknar tekjur og aukinn hagnaður.

Það er því ennþá ýmsum spurningum ósvarað og við höfum ennþá margvísleg verk að vinna á sviði ferðaþjónustu framtíðarinnar. Ég óska ykkur góðs gengis á fundinum í dag og óska ykkur til hamingju með ferðamálaráðstefnuna 2006.