Yfirlýsing frá Ferðamálasamtökum Íslands vegna aðgerða flugumferðastjóra

Yfirlýsing frá Ferðamálasamtökum Íslands vegna aðgerða flugumferðastjóra
Flugfarþegar
Ferðamálasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna aðgerða flugumferðarstjóra og yfirvofandi verkfalls. Yfirlýsingin fylgir hér á eftir.

"Yfirvofandi verkföll flugumferðarstjóra er aðför að ferðaþjónustunni í landinu. Á undanförnum árum hefur fjöldi frumkvöðla byggt upp margvíslega ferðaþjónustu um land allt, gistiaðstöðu, veitingasölu og fjölbreytta afþreyingu með ærnum tilkostnaði og lánum. Þessi starfsemi er nú í uppnámi vegna verkfallsboðunar flugumferðarstjóra.

Starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi er afskaplega erfitt um þessar mundir. Háir vextir og almenn kaupmáttarrýrnun hefur afar slæm áhrif á starfsemina. Hækkun matarverðs veldur veitingahúsunum erfiðleikum og ógnarhátt bensínsverð dregur úr ferðalögum innanlands. Helsta von ferðaþjónustunnar var því bundinn við ferðalög útlendinga til landsins sem nú er ógnað með verkfallsboðunum flugumferðarstjóra.

Fyrirhugaðar aðgerðir flugumferðastjóra eru alvarlegar fyrir ferðaþjónustuna. Það er sorglegt að fámenn stétt hálaunafólks, flugumferðarstjórar, skuli ógna rekstraraðilum á Íslandi á þennan hátt. Ef að aðgerðum flugumferðastjóra verður hefur það bein áhrif á afkomu um tíu þúsund manns sem starfa við ferðaþjónustu á Íslandi yfir sumarmánuðina."

F.h. Stjórnar Ferðamálasamtaka Íslands
Pétur Rafnsson, formaður


Athugasemdir