Fara í efni

Yfirlitsrannsókn og skráning á íslenskum baðlaugum

SkaliiLaugafelli
SkaliiLaugafelli

Í sumar var unnið að rannsókn og skráningu á íslenskum baðlaugum. Háskólasetrið í Hveragerði átti frumkvæði að verkefninu en að því koma Ferðamálaráð, Ferðamálasetur Íslands og líftæknifyrirtækið Prokaria ehf. Áfangaskýrsla um rannsóknina er nú komin út og er þar margt fróðlegt að finna.

Í skýrslunni kemur fram að í gegnum aldirnar hafa Íslendingar verið ein af þeim þjóðum sem búa við hvað mesta möguleika til að stunda heit böð. Endurspeglast þetta í baðmenningu þjóðarinnar í dag. Jarðhitaböð eru eitt af því sem Ísland er hvað þekktast fyrir um allan heim og jafnvel orðið eitt helsta aðdráttarafl landsins samanber Bláa lónið. Náttúrulegar baðlaugar eru þannig verulegur þáttur í markaðssetningu á landsins, ásamt því að gegna lykilhlutverki í þróun og markaðssetningu á heilsutengdri ferðaþjónustu. Því er mikilvægt að þekkja vel hverjir eiginleikar lauganna eru. Þessar upplýsingar hafa hins vegar ekki legið fyrir og reyndar hafa náttúrulegar baðlaugar aldrei verið teknar saman í samfellda skrá.

Háskólasetrið í Hveragerði átti sem fyrr segir frumkvæði að verkefninu og hafði þegar hafið það í samvinnu við líftæknifyrirtækið Prokaria ehf. með söfnun upplýsinga og vettvangsvinnu á Vestfjörðum árið 2003 en sú vinna var unnin af Jóni Benjamínssyni, jarðfræðingi sem jafnframt var verkefnisstjóri verkefnisins. Í upphafi laut verkefnið eingöngu að söfnun upplýsinga um sjálfar náttúrulaugarnar og sömuleiðis sundlaugar en Háskólasetrið fékk síðan til liðs við sig Ferðamálasetur Íslands og Ferðamálaráð Íslands. Við það þróaðist verkefnið og tók til fleiri þátta eins og viðhorfs heimamanna. Ákveðin verkaskipting varð milli aðila og í framhaldinu var sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs Námsmanna vegna fyrrnefndra verkþátta rannsóknarinnar auk Byggðastofnunar. Auk þess var leitað eftir styrk til sveitarfélaga og hafa sum þeirra látið smávegis af hendi rakna til verkefnisins.

Náttúrulegar baðlaugar
Skipulag verkefnisins byggði á þeirri reynslu sem aflaðist við vettvangskönnun á Vestfjörðum í fyrra. Nokkuð óljóst var um fjölda þeirra staða sem skoða þyrfti en vegna takmarkaðra fjármuna var ákveðið að takmarka rannsóknina við þær náttúrulaugar sem hægt var að finna heimildir um. Vel kann því að vera að enn leynist einhverjar laugar sem notaðar eru sem baðlaugar eða hafa alla burði til þess. Fyrsta verkið sem ráðist var í var að útbúa drög að lista yfir náttúrulegar baðlaugar. Stuðst var við gamlar blaðagreinar og vitneskju ferðamálafulltrúa og annarra aðila á málinu, einnig var jarðhitakort Orkustofnunar og ný skrá og kort Náttúrufræðistofnunar haft til hliðsjónar. Þegar hafist var handa við vettvangsvinnu var einnig spurst fyrir hjá heimamönnum hvort þeir vissu til fleiri lauga en þeirra sem höfðu ratað á listann.

Farið í 61 laug
Í sumar voru heimsóttar 61 lauga auk fjölda annarra staða þar sem grunur lék á að náttúrulaug væri til staðar en reyndist ekki á rökum reistur. Einnig voru 22 laugar eða hugsanlegar laugar sem ekki fundust eða ekki var unnt að fara í af ýmsum ástæðum, stundum vegna andstöðu landeiganda. Í sumum tilvikum voru heimildir um þessar laugar mjög óljósar og gætu hafa átt við aðrar þekktar laugar. Þurfti stundum að hafa mikið fyrir því að komast á staði þar sem baðlaugar voru, sérstaklega á hálendinu þar sem sumar þeirra lágu afskekkt og í einstaka tilvikum þurfti að ganga talsverðar vegalengdir til að komast að þeim. Skráðar margvíslegar upplýsingar um laugarnar, m.a. GPS-hnit og hæð yfir sjó, aðkomu, aðgengi og aðstöðu, stærð lauga og dýpi, baðhita, sýrustig, leiðni o.fl. Auk þess sem teknar voru myndir af öllum laugum og sýni til efna- og erfðagreininga tekin.

Samhliða laugarannsókninni var framkvæmd rannsókn á viðhorfi eigenda eða aðra tengda aðila allra lauganna. Í sérstökum tilfellum þar sem enginn eigandi var að landi þar sem laug var staðsett, var reynt að ræða við aðra tengda aðila, s.s. skálaverði, sveitarstjóra eða aðra.

Sundlaugar
Þó svo að aðaláherslan hafi verið á náttúrulegar laugar í verkefni þessu var einnig farið í nær allar almenningssundlaugar á landinu, samtals 102 sundlaugar. Tilgangur með söfnun upplýsinga um Sundlaugarnar var að auka gildi gagnanna fyrir hinn almenna ferðamann og þar með ferðaþjónustuna. Rannsóknin sem gerð var á sundlaugunum var því ekki eins ítarleg og náttúrulaugarannsóknin.

Úrvinnsla langt komin
Verkefnið hefur gegnið samkvæmt áætlun og raunar mun betur en vonast hafði verið til. Með því að takmarka könnunina við þá staði sem athugaðir voru við þekktar baðlaugar, þ.e. sem heimildir voru um, tókst að ljúka vettvangsvinnu á öllu landinu á einu sumri. Úrvinnslu vettvangsvinnunnar er lokið en eftir er að efna- og erfðagreinagreina sýni og verður farið í það á næstunni.

 

 

 




Í Laugafelli norðaustan Hofsjökuls er
ein vinnsælasta baðlaug á hálendinu.