Fara í efni

WOW air fær flugrekstrarleyfi

WOW air fær flugrekstrarleyfi

WOW air tók í dag formlega við flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu en um 30 ár eru liðin síðan flugrekstrarleyfi var síðast veitt til handa félagi sem stundar áætlunarflug til og frá Íslandi.

Liður í frekari uppbyggingu

Fyrsta flug á vegum WOW air var 31. maí 2012 og ár er síðan félagið tók yfir flugrekstur Iceland Express. Stjórnendur WOW air líta svo á að flugrekstrarleyfi sé liður í því að styrkja og byggja upp rekstur félagsins. Það sé lykilatriði fyrir áframhaldandi vöxt WOW air að fljúga undir eigin flaggi. Það gefi félaginu mun meiri stjórn á öllum rekstri sem sé þá ekki háður öðrum flugrekstraraðila, segir í frétt.

Flugmenn ráðnir

Starfsemi WOW air hefur tvöfaldast síðan síðastliðið sumar og frá með næsta mánuði mun um 170 manns starfa hjá félaginu. Félagið auglýsti eftir flugmönnum fyrir hálfum mánuði og bárust um 270 umsóknir. WOW air hefur nú þegar ráðið 9 flugmenn og fleiri munu bætast í hópinn á næstu mánuðum. WOW air mun næsta sumar reka fimm vélar, en hafði tvær vélar fyrsta sumarið. Áformað er að hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor.

Fyrsta flug í fyrramálið

Fyrsta flugið undir merkjum WOW air, TF-WOW mun fara til Kaupmannahafnar kl. 7 í fyrramálið, miðvikudaginn 30. október.