Fara í efni

World Travel Market fer vel af stað

WTM 07 - mynd frá bás
WTM 07 - mynd frá bás

Í gær hófst hin árlega ferðasýning World Travel Market í London. Sem fyrr sá Ferðamálastofa um undirbúning og skipulagningu fyrir Íslands hönd en 16 íslensk fyrirtæki auk Ferðamálastofu eru meðal þátttakenda.

Það eru Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi fyrir Bretlandsmarkað, og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs, sem standa vaktina í bás Ferðamálastofu. Að sögn Ársæls hefur sýningin farið mjög vel af stað og mikið verið að gera. "Sýningarbásinn er sérlega glæsilegur og frábærlega vel staðsettur. Við verðum vör við mikinn áhuga á Íslandi og þegar hafa 2 sjónvarpsstöðvar komið til að taka viðtöl," segir Ársæll. Líkt og fyrri ár er sýningarsvæðið sett upp í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum.

Mikil að vöxtum
World Travel Market er mikil að vöxtum en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Sýningarbásarnir eru um 700 talsins og þarna koma saman um 4.900 sýnendur frá öllum heimshornum. Sýningin stendur yfir fí fjóra daga. Fyrstu sýningardagana, mánudag og þriðjudag, er eingöngu ?trade? sem kallað er, þ.e. að einungis fagaðilum í viðskiptaerindum er veittur aðgangur. Á miðvikudaginn er síðan almenningur og fagaðilar í bland en síðasti dagurinn, fimmtudagur, er eingöngu hugsaður fyrir almenning.

Mynd: Sigrún og Ársæll í bás Ferðamálastofu.