Fara í efni

Von á 600 manns á Vestnorden

Harpa
Harpa

Von er á um 600 manns á vegum 400 ferðaþjónustuaðila í Hörpu á morgun, 2. október, þegar hin árlega ferðakaupstefna Vestnorden hefst. Kaupstefnunni lýkur miðvikudaginn 3. október.

Haldin af NATA
Að kaupstefnunni standa Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðaþjónustu. Á Vestnorden mætast ferðaþjónustuaðilar frá löndunum þremur og kaupendur ferðaþjónustu frá öllum heimshornum. Til kaupstefnunnar kemur einnig fjöldi blaðamanna sem fjalla um ferðamál auk boðsgesta.

Mikilvægur vettvangur
Vestnorden er haldin á hverju ári, þar af annað hvert ár á Íslandi. Í ár kynna rúmlega 200 ferðaþjónustufyrirtæki þjónustu sína í Hörpu fyrir þeim ríflega 160 ferðaheildsölum sem boðað hafa komu sína. Hver og einn sýningaraðili getur bókað 36 tuttugu mínútna viðskiptafundi meðan á kaupstefnunni stendur. Vestnorden hefur um langt árabil verið mikilvægasti vettvangur þjóðanna þriggja í Norður-Atlanstshafi til að kynna löndin sem áhugaverða áfangastaði fyrir ferðamenn.

Sjálfbær ferðaþjónusta eyríkja
Gestafyrirlesari á ferðakaupstefnunni í ár verður Helene Møgelhøj. Hún mun fjalla um sjálfbæra ferðaþjónustu eyríkja en yfirskrift erindis hennar er „Towards a Sustainable Tourism Model in Island Destinations – The Case of Iceland, Greenland and the Faroe Islands“. Helene Møgelhøj er sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði ferðamála, en hún sérhæfir sig í sjálfbærri ferðaþjónustu og efnahagsþróun. Hún hefur víðtæka þekkingu og áralanga reynslu af ferðamálum á alþjóðlegum vettvangi.

Kaupstefnan fer nú fram í 27. sinn. Hún hefst kl. 9 í fyrramálið, þriðjudaginn 2. október. Dagskrá ferðakaupstefnunnar og allar nánari upplýsingar um hana má kynna sér á vefsíðu Vestnorden: www.vestnorden.com

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com