Fara í efni

Vöktun á ferðaáformum Evrópubúa

Vöktun á ferðaáformum Evrópubúa

Í gær kom út skýrsla á vegum Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) um niðurstöður könnunar á ferðaáformum Evrópubúa.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að:

  • Um 18% Evrópubúa hafa engin áform um ferðalög næstu sex mánuði og hefur svarendum í þeim hópi fjölgað um 17% milli mánaða. Einn af hverjum fjórum svarendum 55 ára og eldri hefur engin ferðaplön næstu sex mánuði. Bretar hafa minni löngun til að ferðast en aðrar þjóðir.
  • Þó svo heimsfaraldurinn hafi leikið margar borgir grátt eru flestir (19,3%) á því að þeir vilji fara í borgarferð í næsta fríi. Þar á eftir koma náttúrutengd ferðalög og útivist (15,0%) og menningartengd ferðalög (14,4%). Þjóðverjar (24,4%), Belgar (21,4%), Austurríkismenn (19,8%) og Hollendingar (19,2%) eru meðal þeirra þjóða sem mestan áhuga hafa á náttúrutengdum ferðalögum.
  • Evrópubúar telja að þær ráðstafanir sem þeir þurfi að gera vegna sóttkvíar vera helsta áhyggjuefnið þegar kemur að ferðalögum innan Evrópu (14,7%). Önnur helstu áhyggjuefni snúast um það að verða veikur á áfangastað (13,4%), fjölgun einstaklinga sem greinist með Covid á áfangastað (13,3%) og verða veikur á ferðalaginu (10,5%). Persónulegur fjárhagur skorar hins vegar lágt (7,8%).

Skýrslan inniheldur uppfærðar niðurstöður könnunar sem hefur verið framkvæmd í þrígang í tíu Evrópulöndum* frá því í október 2020. Er þar sjónum beint að hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir hafi áhyggjur af því að ferðast.

* Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki.

Skýrslu með niðurstöðum má nálgast á vef Evrópska ferðamálaráðsins.