Fara í efni

Vök Baths er handhafi Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022

Vök Baths er handhafi Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022. Eliza Reid, forsetafrú og Bja…
Vök Baths er handhafi Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022. Eliza Reid, forsetafrú og Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Vök Baths og Ívari Ingimarssyni, stjórnarmanni hjá Vök Baths.

Vök Baths er handhafi Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022, en Samtök ferðaþjónustunnar afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna, 11. nóvember ár hvert. Eliza Reid, forsetafrú, afhenti Vök Baths verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hörpu síðastliðinn föstudag.

SAF afhenda Nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í nítjánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 14 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.


Fljótandi sjóndeildarlaugar

Vök Baths eru heitar laugar sem staðsettar eru á bakka Urriðavatns við Egilsstaði á Austurlandi. Böðin samanstanda af tveimur fljótandi sjóndeildarlaugum, einu sinnar tegundar á Íslandi, tveimur heitum laugum á landi, vaðlaug, eimbaði, köldum úða göngum og veitingastaðnum Vök Bistro.

Vök Baths dregur nafn sitt af heitum vökum sem birtust reglulega á ísi lögðu Urriðavatninu vegna jarðhita sem streymdi upp á yfirborðið. Fljótandi laugarnar, eða „vakirnar“, sem nú liggja í vatninu hafa þannig sama form og þær sem mynduðust á ísi lögðu vatninu.

Gestum Vök Baths býðst ekki bara að baða sig í heitu laugunum og köldu Urriðavatninu því í móttöku staðarins er tebar þar sem hægt er að gæða sér á te sem gert er úr jurtum úr nágrenninu og blandað við heitt vatnið sem kemur beint úr jörðinni.

Mikið aðdráttarafl fyrir Austurland

Hönnun staðarins endurspeglar þema náttúrunnar í kring og leikur lerki þar lykilhlutverk sem allt var sótt í Hallormsstaðaskóg, elsta þjóðskóg Íslands. Mikil áhersla er lögð á að sækja í staðbundin hráefni þar sem unnt er. Má þar nefna lífrænt ræktaðar jurtir frá Vallanesi á tebarnum og bjóra sem framleiddir eru í samstarfi við brugghúsið Austra.

Vök Baths er mikilvæg og ánægjuleg nýjung fyrir Austurland. Staðurinn hefur bæði mikið aðdráttarafl fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn en er um leið nýjung í þjónustu á svæðinu sem færir aukin lífsgæði til heimamanna og nærsveitunga, segir í frétta frá SAF.

Að dreifa fjárfestingum og uppbyggingu um landið

Í fréttinni segist Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths, að þau séu virkilega stolt og ánægð með að hljóta Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar 2022. „Vök Baths er mjög gott dæmi um mikilvægi þess að við hugsum ekki aðeins um það að dreifa ferðamönnum um landið heldur að dreifa fjárfestingum og uppbyggingu um landið. Fjárfesting og uppbygging sem þessi laðar ferðamenn hvaðanæva að til þess að heimsækja Austurland. Þeir eru líklegri til að staldra við og nýta þá þjónustu sem þar er í boði og kynna sér hvað samfélagið á Austurlandi hefur upp á að bjóða. Það að hljóta Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar veitir okkur góðan byr til að gera enn betur.“

Hopp deilibílar hlutu nýsköpunarviðurkenningu

Venju samkvæmt tilnefndi dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna fyrirtæki sem hlaut Nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar, en það voru Hopp Reykjavík og Höldur – Bílaleiga Akureyrar sem hlutu viðurkenningu fyrir nýsköpunarverkefnið Hopp deilibílar.

Dómnefnd Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar skipuðu Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF sem jafnframt var formaður dómnefndar, Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, og Eyþór Ívar Jónsson, stofnandi og forseti Akademias.

Tilnefningarnar til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar endurspegla mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár sé Vök Baths.

Hopp deilibílar hlutu nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar 2022. Eyþór Máni Steinarsson, Eiríkur Heiðar Nilsson og Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir frá Hopp Reykjavík og Viktor Guðjónsson, Bergþór Karlsson og Pálmi Viðar Snorrason frá Höldi – Bílaleigu Akureyrar.