Fara í efni

Vinna við ferðaþjónustuklasa á Norðurlandi fer vel af stað

Dagsetning Vestnorden 2004
Dagsetning Vestnorden 2004

Á dögunum var á Hótel KEA haldinn fjölmennur fundur um samvinnu fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Um er að ræða svokallað klasaverkefni sem tengist stefnu alþingis í byggðamálum.

Samkvæmt byggðastefnu hins opinbera átti m.a. að vinna að sérstakri byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð og í fyrra var undirritaður Vaxtarsamningur Eyjafjarðar, samstarfsvettvangur opinberra aðila og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs. Þar er lögð áhersla á uppbyggingu fjögurra atvinnugreina eftir svo kallaðri klasa-hugmyndafræði. Í hnotskurn stendur klasi fyrir samvinnu og samkeppni fyrirtækja í sömu atvinnugrein á ákveðnu landsvæði. Ferðaþjónustan er ein þeirra fjögurra atvinnugreina sem tilgreind er í samningnum og var Bergþóra Aradóttir sérfræðingur hjá Ferðamálasetri Íslands, ráðin til að stýra vinnu við ferðaþjónustuklasann.

Tekur til alls Norðurlands
?Þótt klasaverkefnið sé hluti af þessum vaxtarsamningi Eyjafjarðarsvæðisins þá erum við að horfa á málið í víðara samhengi og samstarfið í ferðaþjónustu tekur til alls Norðurlands. Segja má að nú þegar sé eitt mikilvægt klasaverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu farið af stað með tilkomu Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, þegar ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi fóru að vinna saman að markaðsmálum,? segir Bergþóra.

Bergþóra segir undanfarnar vikur hafa farið í að móta starfið, safna gögnum og greina þau. Viðtöl hafa verið tekin við fjölmarga ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi til að fá fram viðhorf þeirra á stöðu og þróun ferðamála á svæðinu. ?Þó að þeir sem rætt var við stæðu í mismundandi rekstri og með ólíkar rekstrareiningar, var fljótlega hægt að sjá ákveðið mynstur í málflutningi þeirra sem greina mátti í þrjá megin málaflokka. Þessir málaflokkar því lagðir til grundvallar á fundinum sem við boðuðum alla ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi til á Hótel KEA,? segir Bergþóra. Málaflokkarnir sem um ræðir eru samgöngur, markaðsmál og vöruþróun og nýsköpun.

Einhugur um samstarf
Hún segir fundinn á KEA hafa tekist vel og mikil samstaða verið ríkjandi.. ?Eftir almenna kynningu á kasaverkefninu skiptu fundarmenn sér upp í málsstofur. Þar var leitast við að kryfja hann niður í ákveðin skilgreind verkefni, sem fundarmenn gátu um að vinna þurfi að atvinnugreininni og fyrirtækjunum til framdráttar. Hver hópur fór í gegnum vinnuferli sem byggðist á "hvar stöndum við?", "hvert viljum við stefna?" og að lokum "hvernig eigum við að komast þangað?". Tillögurnar sem fram komu í lokin voru ótal margar bæði stórar og smáar og liggur fyrir hjá mér að vinna úr þeim. Mér fannst mikilvægast að finna þann einhug sem ríkti meðal fundarmanna um mikilvægi samstarfs og ánægja með þá vinnu sem farin er af stað í því sambandi. Þá voru menn sammála um mikilvægi Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi og að þar séu ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi á réttri braut,? segir Bergþóra.

Þá ítrekaði hún að öllum fyrirtækjum í ferðaþjónustu stæði til boða að taka þátt í vinnu við ferðaþjónustuklasann, óháð því hvort þeir komu á fundinn eða ekki. Mikilvægt sé að fyrirtæki geri sér grein fyrir að með undirritun vaxtarsamningsins séu ríki, sveitarfélög á svæðinu, Byggðastofnun og fleiri aðilar búnir að taka ákvörðun um að standa saman að því að styrkja sérstaklega þær atvinnugreinar sem samningurinn tekur til, m.a. ferðaþjónustuna. Þarna sé því um að ræða gríðarlegt tækifæri fyrir fyrirtækin að vinna að vexti og viðgangi greinarinnar og þar með sinna fyrirtækja.

Akureyrarflugvöllur verði lengdur
Á fundinum var m.a. samþykkt ályktun um lengingu flugbrautar á Akureyrarflugvelli.Þar er skorað á alþingismenn og samgönguyfirvöld að hefja tafarlaust framkvæmdir við lengingu flugbrautar á Akureyrarflugvelli ?þannig að Norðlendingum, í sinni atvinnuuppbyggingu, verði gert kleift að efla og þróa ferðaþjónustu á svæðinu,? eins og segir orðrétt.

Ljósmynd: Úr Mývatnssveit -Ragnar Th. Sigurðsson.