Fara í efni

Víkingar þá og nú!

Fundur á Nýfundalandi
Fundur á Nýfundalandi

Væntanlega hefur ekki fari framhjá neinum sem fylgst hefur með þróun ferðaþjónustunnar hér á landi á undanförnum árum hversu mikil gróska hefur verið á flestöllum sviðum.  Menningartengd ferðaþjónusta er þar engin undantekning og hefur verið virkilega gaman að fylgjast með hversu mikil gróska og nýsköpun þar hefur átt sér stað. 

Fjölbreytt starfsemi um allt land
Enn ánægjulegra er að þessi þróun á sér stað um allt land og á mjög fjölbreytilegan hátt.  Má þar t.d. nefna Hvalasafnið á Húsavík, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Síldarminjasafnið á Siglufirði, Galdrasafnið á Ströndum, Samgöngusafnið á Skógum, Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði og Sögusafnið í Perlunni í Reykjavík.

Á Víkingamarkaði í St. Johns. Fleiri myndir úr ferðinni

Sennilega eru færri sem vita að Íslendingar, með Rögnvald Guðmundsson  í broddi fylkingar, eru að leiða nokkur fjölþjóðleg Evrópuverkefni þar sem menning og menningararfleið eru höfð að leiðarljósi ásamt því hvernig hægt sé að spyrða þessa þætti saman við atvinnuuppbyggingu á þeim svæðum er verkefnin ná til.

Destination Viking - Sagaland
Eitt af þessum verkefnum er Destination Viking - Sagalands,  en þar er unnið með norræna sagnaarfleið og hvernig hægt sé að styrkja sagnahefðina og
tengja hana betur ferðaþjónustunni.   Að verkefninu koma um 20 aðilar frá
7 löndum sem landfræðilega liggja frá Skotlandi í austri um Orkneyjar, Hjaltlandseyjar, Færeyjar, um strendur norðurhluta Svíþjóðar, Noregs að Íslandi og Grænlandi og enda loks í norðausturhéruðum Kanada í vestri (Nýfundalandi og Labrador).

Megin þemu verkefnisins eru fimm,

  • Sagnahefð,  þar sem megin áherslan hefur verið lögð á að þjálfa einstaklinga við okkar fornu list að segja sögur á lifandi og skemmtilegan hátt þannig að eftir því sé tekið.
  • Fornar leiðir, þar sem þekktar fornar leiðir eru merktar og þeim gerð góð skil.
  • Söfn með sögualda áherslum, tilgátuhús og lifandi söfn frá þessum tíma.
  • Viðburðir,  að móta viðburði er tengjast þessu tímabili þannig að einfalt sé að selja þá og kynna.
  • Sameiginleg útgáfa, þar sem safnað er saman öllu er hér að framan er talið og það kynnt fyrir áhugasömum kaupendum. Meðal annars mun fljótlega koma út bók um verkefnið sem og sögukort.

Skýr markmið
Í verkefninu hafa þátttakendur sett sér skýr markmið og síðan hafa þeir hist á um sex mánaða fresti í einskonar þjálfunarbúðum þar sem ákveðið þema hefur verið sett í hvert skipti.  Þar hafa allir þátttakendur þurft að skýra frá gangi sinna mála og hvernig gangi að ná settum markmiðum. Fundir þessir hafa verið haldnir á mismunandi stöðum, í flestum þátttökulöndunum.

Síðasti fundur var haldinn ekki alls fyrir löngu á Nýfundnalandi og gafst greinarhöfundi tækifæri til að slást með í för og kynnast mjög svo áhugaverðu og vel útfærðu verkefni ásamt því að skoða sögutengda staði þar um slóðir.

Fanga anda liðins tíma
Skemmst er frá því að segja að frændur vorir í vestri hafa náð að fanga anda liðinna tíma og sett þá fram á trúverðugan og lifandi hátt. Sérstaklega í L´Anse aux Meadows, þar sem talið er að norrænir menn hafi komið fyrst að landi í Norður Ameríku um árið 1000 undir forystu Leifs heppna. En þar hafa  verið reist nokkur tilgátuhús sem byggð eru rétt við rústir þær er þar fundust á sjöunda áratug síðustu aldar.  Þar skammt undan hefur einnig verið komið fyrir litlu víkingaþorpi, Norsted, með allri þeirri aðstöðu sem talið er að menn hafi haft á þeim tíma, s.s. bátalægi, járnsmiðju, kirkju og langhúsum.   Heimamenn hafa síðan af því atvinnu að
klæðast þess tíma fötum og leika nokkra af forfeðrum okkar og ferst það nokkuð vel úr hendi, enda hefur fólkið hlotið sérstaka þjálfum til verksins.

Stefnir í framhald
Verkefni það sem hér hefur verið fjallað um hefur verið styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery Program – NPP) og þar á bæ eru menn það ánægðir með árangurinn  að góðar líkur eru á áframhaldandi verkefni sem kemur til með að byggjast á svipuðum hugmyndum en þó sem sjálfstætt framhald.

Nægt er að fræðast nánar um verkefnið á meðfylgjandi heimasíðu.

http://www.sagalands.org

Elías Bj. Gíslason
Forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs
Ferðamálaráðs Íslands