Víkingaheimar opnaðir í Reykjanesbæ

Víkingaheimar opnaðir í Reykjanesbæ
Víkingaheimar

Víkingaheimar sem hýsa Víkingaskipið Íslending og Smithsonian sögusýninguna ?Víkings? verða opnaðir núna á föstudag á Fitjum í Reykjanesbæ. Framkvæmdir hafa staðið yfir síðan snemma árið 2007.

Formleg opnun 17. júní
Opnunin um helgina og út maímánuð er nokkurskonar óformlega opnun. Formleg opnun verður 17. júní en þann sama dag árið 2000 lagði Íslendingur úr höfn í hina sögulegu siglingu til Ameríku. Markmið Víkingaheima er að gera svæðið að einum mest sótta ferðamannastað á Íslandi og hefur verið staðið þannig að verki frá upphafi, segir í tilkynningu um opnunina.

"Okkur fannst það með öllu óhugsandi að þessi merkilega smíð myndi ekki koma aftur heim til Íslands og verða sýnd hér, landi og þjóð til sóma. Skipið er í senn merkilegur minnisvarði þúsunda ára hefðar um leið og það minnir okkur á sigur mannsandans á efninu og náttúrunni, bæði í nútíð og fortíð. Reykjanesbær og þeir einkaaðilar sem eiga þetta verk með bænum hafa haft það að leiðarljósi frá upphafi að um skipið og sýningu Smithsonian yrði reist naust sem sómi væri að," er haft eftir Árna Sigfússona bæjarstjóra í tilkynningunni.

Mikill áfangi fyrir ferðaþjónustuna
"Þetta er mikill áfangi ferðaþjónustuna hér á Suðurnesjum. Bláa Lónið hefur verið stærsti ferðamannasegull þessa svæðis. Nú bætast Víkingaheimar við og við bindum miklar vonir við það. Það er ljóst að þetta mun auka straum ferðamanna á Suðurnesin um leið og það mun líklega auka viðveru þeirra á svæðinu sem er eitthvað sem allir munu njóta góðs af í ferðaþjónustunni" sagði Kristján Pálsson hjá Markaðsstofu Suðurnesja.

Um Víkingaheima
Víkingaheimar voru sérstaklega reistir utan um víkingaskipið Íslending sem Gunnar Marel Eggertsson smíðaði árið 1996 og sigldi frá Íslandi til Ameríku árið 2000. Skipið er nákvæm eftirmynd af Gaukstaðaskipinu fræga sem fornleifafræðingar fundur í Noregi, næstum heilt, árið 1882.

Gunnar Marel frétti árið 1990 af norskri áætlun um siglingu víkingaskipsins Gaia frá Noregi til Washington DC. Hann hafði samband við Gaia hópinn og var samþykktur sem næstráðandi. Hann sigldi svo með Gaia frá 17. maí til 9. Október 1991. Árið 1994 ákvað Gunnar Marel að byggja sitt eigið víkingaskip. Hann byrjaði í september á því ári og lauk við það í maí 1996. Gunnar byggði skipið meira og minna á eigin spýtur en naut þó hjálpar frá skipasmíðavini sínum Þórði Haraldssyni. Íslendingur er nákvæm eftirlíking af Gaukstaðaskipinu. Viðurinn fura og eik var vandlega valinn í Noregi og Svíþjóð og seglið var framleitt í Danmörku. Undir lok smíðinnar naut Gunnar Marel sérkunnáttu Jon Godal í Noregi, sem er heimsþekktur fyrir þekkingu sína á víkingaskipum.

Upphaflega var Íslendingur notaður til að fræða íslensk skólabörn um víkingatímann. Árið 1998 hafði Gunnar Marel hugmyndir um að sigla skipinu til Bandaríkjanna árið 2000 til minningar um sjóferð Leifs Eiríkssonar einni teinöld áður. Hann stofnaði svo fyrirtæki til að hrinda sjóferðinni af stokkunum og hún hófst 17. júní í Reykjavík á Íslandi. Ferð hans var styrkt af Landafundanefnd og vakti heimsathygli á landafundi Leifs Eiríkssonar og Bjarnar Herjólfssonar, sem samkvæmt Íslendingasögunum fundu Ameríku ári 1000. Á Þjóðhátíðardag Íslendinga, þann 17. Júní árið 2000, lagði Gunnar Marel ásamt 8 manna áhöfn af stað með kveðjuræðu frá forsætisráðherra Íslands. Eftir um fjóra mánuði á sjó og 22 viðkomur allt frá suður hluta Grænlands til Boston sigldi Íslendingur í höfn í New York og fékk höfðinglegar móttökur.

Sögusýningin Víkingar
Víkingaheimar eru líka heimili Smithsonian sögusýningarinnar Víkingar. Hún var upphaflega sett upp á Smithsonian safninu í Washington sumarið 2000. Hákon Noregskonungur opnaði sýninguna við hátíðlega athöfn. Sýningin var í kjölfarið sett upp í 6 borgum víða um Bandaríkin. Smithsonian sýningin og sigling Íslendings mörkuðu aldarafmæli landafundar í Norður Ameríku og vörpuðu ljósi á nýjustu uppgötvanir fræðimanna um siglingar norrænna manna og leiðangra þeirra til vestur.

Opnunartími Víkingaheima er 11:00-18:00 alla daga.

Sími 422-2000
Netfang: info@vikingaheimar.com
Heimasíða: www.vikingaheimar.com


Athugasemdir