Fara í efni

Viðurkenningar veittar eftir hulduheimsókn

Ferðaþjónusta bænda hulduheimsókn
Ferðaþjónusta bænda hulduheimsókn

Á uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda sem haldin var nýverið voru veittar viðurkenningar til tíu ferðaþjónustubæja sem tóku þátt í samstarfsverkefni Ferðaþjónustu bænda og Better Business síðastliðið sumar. Þar Samstarfið fólst í hinum svokölluðu hulduheimsóknum (e. Mystery Shopper) á vegum ráðgjafarfyrirtækisins Better Business og gafst félögum í Ferðaþjónustu bænda kostur á að taka þátt í verkefninu. Hulduheimsóknin fer þannig fram að ákveðinn aðili, sem er eins og hver annar gestur, metur staðinn eftir dvölina og er þá farið yfir hvern þátt dvalarinnar s.s. þjónustu, aðbúnað og upplifun. Gefnar eru einkunnir og umsagnir bæði fyrir einstaka þætti og heildareinkunn og að þessu sinni voru það 10 bæir sem fengu mjög góða heildareinkunn.

Þessir staðir fengu verðlaun: Ensku húsin í Borgarfirði, Hótel Núpur í Dýrafirði, Heydalur í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, Dæli í Víðidal, Engimýri í Öxnadal, Skjaldarvík í Eyjafirði, Öngulsstaðir í Eyjafjarðarsveit, Brunnhóll á Mýrum, Hestheimar í Rangárþingi og Smáratún í Fljótshlíð. „Þetta er þriðja sumarið sem verkefnið er í gangi og verða niðurstöðurnar notaðar til að greina á hvaða sviðum þarf að bæta árangurinn, en ekki síður er mikilvægt að vita hvað gestirnir eru ánægðir með,“ segir í tilkynningu frá Ferðaþjónustu bænda.

Frá afhendingu verðlaunanna.