Fara í efni

Viðurkenningar ferðaþjónustu á Norðurlandi

Sveinn, Erlendur og Sigríður veittu viðurkenningunum viðtöku.
Sveinn, Erlendur og Sigríður veittu viðurkenningunum viðtöku.

Samkvæmt venju voru veittar þrjár viðurkenningar á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi í liðinni viku. Þær komu að þessu sinni í hlut Sveins Jónssonar í Kálfsskinni, Erlendar Bogasonar í Köfunarþjónustunni Sævör á Hjalteyri og Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki. 

Áhugaverð nýjung í ferðaþjónustu

Erlendur Bogason fékk viðurkenningu fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Hann hefur kafað allt sitt líf og unnið við myndatökur og rannsóknir með köfun í áratugi. Árið 1994 hóf hann að bjóða upp á köfun fyrir ferðamenn í samstarfi við Sportferðir en þá var kafað á Pollinum niður að skipsflaki sem þar er. Fyrsta hverastrýtan fannst í Eyjafirði árið 1997 og í kjölfarið fundust fleiri og eru nú allar friðaðar og Erlendur sá eini sem býður upp á tilbúnar ferðir niður að þeim en mikið stökk varð í starfseminni við fund strýtanna og fjöldi gesta hefur vaxið mikið á hverju ári undanfarin ár. Það sem vekur sérstaka athygli við starfsemina er að það eru mjög margir Ástralíubúar sem vilja koma og kafa, það er sérstakt því að Ástralir sækja ekki mikið til Íslands sem ferðamenn. Erlendur býður þó ekki bara upp á köfun við hverastrýturnar heldur líka í Grímsey, í hraungjám í Öxarfirði og við Drangey í Skagafirði.

Viðurkenning fyrir áratuga starf

Sveinn Jónsson í Kálfsskinni fékk viðurkenningu fyrir áratuga starf í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Hann hefur ásamt fjölskyldu sinni sinnt uppbyggingu á ferðaþjónustu sem hófst með gistingu og kaffihlaðborði á sunnudögum í gamla húsinu í Ytri-Vík árið 1983. Fljótlega bættust við sumarhús  og heitir pottar, gestunum fjölgaði og fyrirtækið byggðist upp, óx og þroskaðist og Sveinn og hans fjölskylda stofnuðu Sportferðir, alhliða ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur átt í fjölbreyttu samstarf við marga aðila.

Fagleg uppbygging á  Króknum

Gestastofa Sútarans á Sauðárkróki fékk viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu á Norðurlandi en Gestastofan er staðsett í einu sútunarverksmiðjunni í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði. Með gestastofunni er ferðamönnum og almenningi opnaður aðgangur að sútunarverksmiðju og afurðum hennar á óvenjulegan hátt en fiskleður hefur heillað hönnuði heimsþekktra vörumerkja eins og Prada, Dior og Nike. Nú hefur verið sett upp Hagleikssmiðja í verkssmiðjunni þar sem gestir geta komið og séð handverkið verða til frá grunni og kynnst sögu sútunar. Sigríður Káradóttir veitti viðurkenningunni viðtöku.