Fara í efni

Viðurkenningar á uppskeruhátíð á Norðurlandi

Vidurkenning2
Vidurkenning2

Árleg uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í liðinni viku. Í tengslum við hana voru veittar viðurkenningar til aðila í ferðaþjónustu.

Hátíðin, sem haldin var í Mývatnssveit þetta árið, tókst einstaklega vel og mættu á annað hundrað einstaklingar úr ferðaþjónustunni á Norðurlandi á hátíðina. Farið var vítt og breytt um Mývatnssveit og áhugaverðir staðir heimsóttir, m.a. Víti, Krafla, Námaskarð, Fuglasafn Sigurgeirs, Dimmuborgir og Jarðböðin, hátíðarkvöldverður var svo haldinn á Hótel Reynihlíð.

Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi veitir viðurkenningarnar til þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem valdir eru á hverju ári. Dimmuborgir ehf. fengu viðurkenningu fyrir nýjung í ferðaþjónustunni á svæðinu og Sigrún Jóhannsdóttir í Sel Hótel Mývatni fékk viðurkenningu fyrir áratuga þjónustu við ferðamenn í Mývatnssveit. Þá veittu Ferðamálasamtök Íslands Vatnajökulsþjóðgarði viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu á gestastofu, þ.e. Gljúfrastofu í mynni Ásbyrgis. Myndirnar hér að neðan tók Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, við þetta tilefni.

Helga Haraldardóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu, afhenti Dimmuborgum ehf. viðurkenningu fyrir nýjung í ferðaþjónustunni á svæðinu. Með Helgu á myndinni eru Gunnar Jóhannesson og Anton Freyr Birgisson. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri afhenti Sigrúnu Jóhannsdóttur hjá Sel-Hótel Mývatni viðurkenningu fyrir áratuga þjónustu við ferðamenn í Mývatnssveit.
Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, afhenti Helgu Árnadóttur fulltrúa Vatnajökulsþjóðgarðs sérstaka viðurkenningu samtakanna fyrir faglega uppbyggingu á gestastofu, þ.e. Gljúfrastofu í mynni Ásbyrgis.