Fara í efni

Viðkomustaðir og myndatökustaðir

Mynd sem Árni Geirsson hjá Alta sýndi á Ferðamálaþinginu á dögunum vakti verðskuldaða athygli en þar var hann búinn að setja saman á kort viðkomustaði sem söfnuðust í verkefninu um kortlagningu auðlinda ferðaþjónustunnar og hnitsettar ljósmyndir sem aðgengilegar eru á Flickr ljósmyndavefnum.

Gögn frá samfélagsmiðlum nýtast við skipulag

Tilgangur kortsins var að sýna hve gagnleg landupplýsingakerfi geta verið við að greina landfræðileg gögn í ýmsu samhengi. Sérstaklega var vakin athygli á því að samfélagsmiðlar bjóða upp á að sótt séu gögn sem safnast hjá þeim og fela í sér upplýsingar um staðsetningu notandans. Þetta getur verið gagnlegt í samhengi við skipulag og fleira.

Sýna dreifingu ferðamanna

Myndatökustaðirnir eru sýndir með bláum deplum sem eru næstum gegnsæir en ef margar myndir hafa verið teknar á sama stað leggjast deplarnir saman og "þykkna" þannig að dimmblár depill þýðir að þar hafa verið teknar margar myndir. Þannig á í vissum skilningi nota myndina til að meta dreifingu ferðamanna. Hægt er að smella á myndina til að sjá stærri útgáfu. Einnig hefur Alta útbúið kort þar sem sjá má hvernig myndatökustaðirnir breytast eftir mánuðum.

Alta Viðkomustaðir og myndatökustaðir