Fara í efni

Viðbrögð ferðaþjónustunnar við stóráföllum - Orðspor og öryggi

Viðbrögð ferðaþjónustunnar við stóráföllum  - Orðspor og öryggi

Ferðamálastofa gaf  í árslok 2013 út skýrslu sem nefnist  Viðbrögð ferðaþjónustunnar við stóráföllum - Orðspor og öryggi. Um er að ræða mat á stöðu mála og eftirfylgni við skýrsluna Eldgos á Suðurlandi sem kom út árið 2010, í kjölfar eldgossins í Eyjafallajökli.

Mat áhrifa náttúruhamfaranna á ferðaþjónustu

Í skýrslunni  árið 2010 voru metin hugsanleg áhrif náttúruhamfaranna á ferðaþjónustu. Unnið var út frá fjórum sviðsmyndum m.a.miðað við fjölda ferðamanna, stærð eldgoss og gerð SVÓT greining innan hverra sviðsmyndar. Útbúin voru gróf drög að viðbragðsáætlun fyrir ferðaþjónustuna til að mæta hugsanlegum áföllum og/eða tækifærum af völdum hamfaranna.

Staða aðgerða og tillögur um famhaldið

Ferðamálastofa setti af stað vinnu við rýni á vordögum 2013 og var Herdís Sigurjónsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf fengin til verksins.  Markmiðið var að meta stöðu þeirra aðgerða sem lagðar voru til í fyrrnefndri skýrslu og móta tillögur um áframhaldandi innleiðingu þeirra. Auk skýrslunnar voru að frumkvæði VSÓ Ráðgjafar rýndar fundagerðir Viðbragðsteymis stjórnvalda sem stofnað var eftir eldgos 2010. Tekin voru saman þau verkefni Ferðamálastofu sem tilgreind voru og staða þeirra metin.

Samstarf við fjölmarga aðila

Á verktíma var fyrirkomulag ferðamála á hættu- og neyðartímum skoðað og samráð haft við fjölmarga samstarfsaðila Ferðamálastofu s.s. starfsmenn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Einnig var rætt við fulltrúa Umhverfisstofnunar og fleiri aðila vegna menntunar landvarða þar sem þeir gegna mikilvægu hlutverki í viðbrögðum á neyðartímum.

Tillögur að verkefnum

Skýrslan skiptist í 6 kafla en sá viðamesti snýr að tillögum að verkefnum til að bæta viðbrögð við áföllum. Þær tillögur sem fram koma eru:

  • Áætlun um viðbrögð í ferðamálum á hættu og neyðartímum
  • Fjölmiðlateymi stjórnvalda á hættu og neyðartímum
  • Miðlun upplýsinga og tengsl aðila á hættu og neyðartímum
  • Þjálfun landvarða og skálavarða sem starfa á hálendi og í óbyggðum
  • Kortlagning helstu bjarga ferðaþjónustunnar
  • Sálrænn stuðningur og áfallahjálp

Mikilvæg skref verið stigin

Líkt og fram kemur í samantektinni hefur margt verið gert til að bæta öryggi ferðamanna á frá því að eldgosið var í Eyjafjallajökli 2010. Eftir að hafa farið yfir viðbrögð eftir eldgos og kannað ferla og úrvinnslu er ljóst að mikilvæg skref hafi verið stigin í samhæfingu viðbragða s.s. með starfi viðbragðsteymis stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila, fjölmiðlateymis og öflugri markaðssetningu sem fram fór á sama tíma og aðilar voru að takast á við afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli. Mikilvægt er að nýta þá dýrmætu reynslu sem stjórnvöld og ferðaþjónustuaðilar hlutu þegar tekist var á við stór sem smá verkefni tengd viðbrögðum eftir eldgosin 2010. Með því að festa verklag og ferla í sessi er hægt til að draga úr afleiðingum og bæta viðbrögð ef takast þarf á við álíka atburði á komandi árum.

Framhald málsins

Vinnu við skýrsluna lauk í desember síðastliðnum og  samantektin kynnt ráðherra ferðamála, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ásamt þeim tillögum. Markmiðið er að tryggja skjót og vönduð viðbrögð, samræma verkferla, auka öryggi ferðamanna og þeirra aðila er starfa í ferðaþjónustu, ásamt því að nýta fjármagn betur. Verkefnin eru talin geta bætt stjórnskipulag ferðamála á hættu- og neyðartímum og sú reynsla sem fengist hefur frá eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 nýtt til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur og samhæfa viðbrögð.

Skýrslan í heild:

Viðbrögð ferðaþjónustunnar við stóráföllum - Orðspor og öryggi