Fara í efni

Viðamikil íslensk hátíð í Brussel

Iceland on the edge
Iceland on the edge

Ferðamálastofa og Ráðstefnuskrifstofa Íslands eru meðal aðila sem standa að hátíðinni Iceland on the Egde sem hefst í Brussel í lok febrúar og stendur fram í júní. Hátíðin var kynnt fyrir fjölmiðlafólki í Belgíu á dögunum og vakti strax mikla athygli.

Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af viðamikilli og metnaðarfullri íslenskri menningardagskrá sem unnin hefur verið í samstarfi við BOZAR, stærstu menningar- og listamiðstöð Belgíu og Ancienne Belgique, eitt vinsælasta tónlistarhús Brussel á sviði popp og rokk tónlistar. Jafnframt verða sér íslenskir viðburðir á ýmsum öðrum sviðum undir formerkjum Iceland on the Edge, s.s. á sviði ferða- , ráðstefnu- orku og alþjóðamála. Markmið hátíðarinnar er að efla ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.

Ríkisstjórnin stendur að baki hátíðinni í samvinnu við Ferðamálastofu, Reykjavíkurborg, og Útflutningsráð. Portus, Icelandair og Icelandair Cargo eru samstarfsaðilar verkefnisins en Landsbankinn er máttarstólpi hennar. Hátíðin er unnin að frumkvæði og undir stjórn sendiráðsins í Brussel en verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár. Á heimasíðu sendiráðs Íslands í Brussel má finna dagskrá hátíðarinnar.